Fréttir
Fjarskiptastaðurinn á Vaðöldu.

Samvinna á álagstímum

Veðurstofan nýtur góðs af röskri þjónustu

6.9.2014

Það er hvorki sjálfgefið að allur þorri landsmanna og fólk út um allan heim geti á vefnum fylgst með atburðunum í Bárðarbungu og Dyngjujökli né að vísindamenn geti streymt gögnum í hús til þess að vega og meta ástandið og taka veigamiklar ákvarðanir með Almannavarnadeild RLS.

Veðurstofan vill láta þess getið hve snurðulaust samskipti við Símann hafa gengið nú á álagstímum og þjónustan verið rösk. Fjögur dæmi skulu rakin hér.

Fyrst má geta þess að pöntuð voru 10 sim-kort með fastri IP tölu fyrir gagnasendingar og voru þau komin í hús innan 3 klukkutíma frá pöntun, sem er mjög skjót afgreiðsla.

Í öðru lagi má minnast á jarðskjálftamælinn sem var settur upp á Brúarjökli. Sú stöð er í rúmlega 60 km fjarlægð frá næsta símsendi á Grjótárhnjúk og sambandið var verulega slæmt. Send var beiðni til Símans hvort eitthvað væri hægt að gera í málinu og samdægurs uppfærði Síminn sambandið á Grjótárhnjúk úr GPRS í EDGE. Þessi aðgerð varð til þess, að sambandið við mælinn varð stöðugt og gögn komu gallalaust í bæinn.

Þriðja dæmið er, að eftir hádegi mánudaginn 25. ágúst viðraði Veðurstofa þá hugmynd við Símann að sambandið á Vaðöldu yrði uppfært í 3G. Þetta var talið nauðsynlegt þar sem þorri allra mælitækja norðan til í jöklinum og norðan við jökulinn, alls um 10 stöðvar, tengjast í gegnum Vaðöldu. Strax morguninn eftir, 26. ágúst, var Veðurstofunni tilkynnt um að slík framkvæmd hefði verið sett í gang.

Í fjórða lagi má nefna að sunnudaginn 31. ágúst kom í ljós að mælar á Urðarhálsi hefðu ekki nægilega gott samband. Mælarnir tengdust með EDGE við Grjótárhnjúk en það dugði ekki lengur til. Með leikni tókst starfsmönnum Símans að breyta sendistyrk Grjótárhnjúks á þann hátt að 3G sendirinn á Vaðöldu tók yfir Urðarhálssvæðið og nú eru þessi mælitæki með feiknagott samband.

Þessi hraða þjónusta kemur á óvart og hefur létt Veðurstofunni störfin í öllu atinu og umrótinu sem fylgir jarðhræringunum í Bárðarbungu og við Dyngjujökul.

Vaðalda - 3G áhrifasvið
""
Fjarskipti við Vaðöldu. Útbreiðsla 3G áhrifasviðs. Kort frá Símanum ehf.


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica