Fréttir
Esjuhlíðar.

Tillaga að ofanflóðahættumati fyrir Kjalarnes

Hættumat fyrir þennan nyrsta hluta Reykjavíkur

3.9.2014

Veðurstofan hefur unnið tillögu að ofanflóðahættumati fyrir Kjalarnes neðan Esjuhlíða á vegum hættumatsnefndar Reykjavíkur. Hún var kynnt í borgarráði Reykjavíkur þann 28. ágúst 2014 og á fundi með íbúum og landeigendum á svæðinu sama dag.

Hættumatið er kynnt í opnu húsi í félagsheimilinu Fólkvangi í Grundarhverfi 3. september 2014 og mun í kjölfarið liggja frammi til kynningar í Fólkvangi og á borgarskrifstofu Reykjavíkur í fjórar vikur.

Það voru þeir Jón Kristinn Helgason jarðfræðingur, Tómas Jóhannesson jarðeðlisfræðingur, Árni Hjartarson, jarðfræðingur á Íslenskum orkurannsóknum, og Halldór G. Pétursson, jarðfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands, sem unnu hættumatið.

Undir Esjuhlíðum á Kjalarnesi er þekkt skriðusvæði. Skriður hafa þar margsinnis valdið umfangsmiklu eignatjóni og landspjöllum en ekki manntjóni frá landnámstíð svo vitað sé. Stór berghlaup hafa fallið úr efstu hlíðum Esju niður á láglendi á nútíma í jarðfræðilegum skilningi, þ.e. á undanförnum 11–12 þúsund árum. Öruggar heimildir eru um skriðuföll á Kjalarnesi á sögulegum tíma sem teljast til meiri háttar náttúruhamfara. Þannig féllu margar skriður úr Esjuhlíð um haustið 1886 og ollu miklu tjóni á níu jörðum, þar af tveimur þar sem búskapur lagðist alveg af. Árið 1748 féll skriða sem eyddi bænum Öfugskeldu.

Helstu niðurstöður hættumatsins eru eftirfarandi:

  • Áhætta er talin meiri af völdum skriðufalla en snjóflóða undir Esjuhlíðum.
  • Í matinu er skilgreint C svæði í farvegi hins forsögulega Sjávarhólaberghlaups sem talið er hafa fallið fyrir um 10 þúsund árum. Þar standa fimm íbúðarhús. Gera þarf rýmingaráætlun fyrir þetta svæði sem gripið verður til ef skriðuhætta úr hlíðinni er talin yfirvofandi. Skriða þaðan eyddi bænum Öfugskeldu árið 1748.
  • Sunnan Skrauthóla og Sjávarhóla eru skilgreind hættusvæði B og A sem víða ná langt niður á jafnsléttu, einna lengst undir Stóragili, Laugargnípugili og Gljúfurdal. Þar standa sjö íbúðar hús, tvö á B svæði og fimm á A svæði.
  • Skipulagsyfirvöld í Reykjavík þurfa að huga að stefnumörkun um landnýtingu á Kjalarnesi með tilliti til ofanflóðahættu. Þar þarf meðal annars að taka tillit til safnáhættu, hættu á efnislegu tjóni og röskunar á samfélagi, auk einstaklingsáhættu.

Hægt er að nálgast tillögu að hættumatskorti, kynningarbækling og kynningarútgáfu hættumatskýrslunnar á vef Veðurstofunnar.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica