Fréttir
Úrkomuspá með vindörvum fyrir sunnudag.

Ábending vegna væntanlegs storms á sunnudag

Leifar af fellibylnum Cristobal

29.8.2014

Veðurstofan vill vekja sérstaka athygli á slæmri veðurspá fyrir sunnudag:

Kröpp og djúp lægð kemur að landinu úr suðvestri og búist er við suðaustan- og austanátt, 18-25 m/s og allt að 28 m/s á hálendinu, og mjög snörpum vindhviðum við fjöll. Það lítur út fyrir talsverða rigningu víða um land og mikla úrkomu suðaustantil. Heldur hægari vindur undir kvöld. Hiti 10 til 15 stig. Um hlýtt loft er að ræða og mun öll úrkoman falla sem  rigning, einnig á hæstu jöklum.

Þar sem þetta er fyrsta óveðrið eftir sumarið, er fólki bent á að festa niður hluti sem geta fokið.

Athugasemd frá sérfræðingum vatnafars: Úrkoman verður mest undir Eyjafjöllum og sunnan Vatnajökuls. Vatnavextir gætu orðið í ám á þessu svæðum og vöð yfir ár geta orðið varhugaverð.

Nánar:

Hitabeltislægðin Cristobal olli tjóni á eyjunum við Karíbahaf um helgina. Á þriðudaginn náði Cristobal styrk fyrsta stigs fellibyls. Á hádegi í dag var Cristobal staddur um 600 km S af Nýfundnalandi og á leið NA. Yfirleitt minnka fellibyljir þegar þeir fara norður yfir kaldari sjó. Spár gera ráð fyrir að hann mæti köldu lofti suður af Grænlandi og það, ásamt samspili við háloftavindröst, viðheldur styrk hans að nokkru leyti. Lægðin sem veldur óveðrinu á sunnudag er því leifarnar af fellibylnum Cristobal.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica