Fréttir
Botn í Súgandafirði, 17. júlí 2014.

Tíðarfar í júlí 2014

Stutt yfirlit

1.8.2014

Júlímánuður var mjög votviðrasamur um mestallt land. Sértstaklega lítið var um þurrka um landið vestan- og sunnanvert og þar var einnig sólarlítið. Kalt var í byrjun mánaðarins og einnig voru tveir síðustu dagarnir kaldir. Að öðru leyti var hlýtt um land allt, hlýjast að tiltölu við norðurströndina sem og á mestöllu Norðaustur- og Austurlandi. Í Grímsey var júlí sá hlýjasti frá upphafi mælinga 1874 og jafnhlýr og hlýjasti ágústmánuðurinn þar (1939). Þetta var þriðji hlýjasti júlímánuður allra tíma á Teigarhorni en þar hófust mælingar 1872.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 11,8 stig og er það 1,2 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -0,3 stigum undir meðallagi síðustu 10 ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti júlímánaðar 1,4 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 en í meðallagi síðustu 10 ára. Á Akureyri var meðalhitinn 12,7 stig sem er 2,7 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990, en 1,1 stigi ofan meðallags síðustu 10 ára. Þetta er 9. hlýjasti júlí frá upphafi samfelldra mælinga á Akureyri 1881. Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu hér undir og í viðhengi er meðalhiti á öllum sjálfvirkum stöðvum (sjá tengil neðst).

Meðalhiti í júlí 2014 á völdum veðurstöðvum, ásamt viki frá meðalhita 1961 til 1990 og 2004 til 2013.
stöð hiti vik 1961-1990 röð af vik 10-ára
Reykjavík 11,8 1,2 26 til 27 144 -0,3
Stykkishólmur 11,3 1,4 21 169 0,0
Bolungarvík 10,1 1,1 40 117 -0,7
Akureyri 12,7 2,1 9 133 1,1
Egilsstaðir 12,5 2,2 5 60 1,5
Dalatangi 9,2 1,3 14 76 0,3
Teigarhorn 10,7 2,0 3 142 1,1
Höfn í Hornafirði 11,7 1,1
Stórhöfði 10,7 1,1 29 til 30 138 -0,2
Hveravellir  8,3 1,3 20 50 -0,6
Árnes 12,0 1,1 36 134 -0,3

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Torfum í Eyjafirði, 12,8 stig, en lægstur var hann á Brúarjökli, 3,6 stig. Á láglendi var meðalhitinn lægstur í Seley, 7,9 stig. Sé miðað við síðustu tíu ár var meðalhitinn að tiltölu hæstur á Rauðanúpi, 2,1 stigi yfir meðallagi, en lægstur var hann að tiltölu á Seljalandsdal, -1,4 stigum undir meðallagi.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 23,3 stig á Húsavík þann 23. Hæsti hiti mánaðarins á mannaðri stöð mældist sama dag í Miðfjarðarnesi, 22,2 stig. Lægsti hiti á landinu mældist -1,1 stig á Gagnheiði þann 31. Frost mældist ekki í byggð í mánuðinum en lægstur var hitinn við Mývatn þann 31., 0,8 stig. Á mönnuðum stöðvum mældist hitinn lægstur í Litlu-Ávík, 2,5 stig, þann 7.


Horft að Snæfelli
""
Snæfell, séð úr Desjarárdal, 24. júlí 2014. Ljósmynd: Sighvatur K. Pálsson.

Úrkoma

Mánuðurinn var úrkomusamur, víða sá úrkomusamasti um áratugaskeið og sums staðar hefur úrkoma aldrei verið meiri í júlí.

Í Reykjavík mældist úrkoman 89,3 mm og hefur ekki mælst meiri í júlí síðan 1984 eða í 30 ár. Þetta er um 70 prósent umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoman nú 73,1 mm. Það er meira en tvöföld meðalúrkoma júlímánaðar. Ekki hefur mælst meiri úrkoma í júlí á Akureyri síðan 1943.

Í Stykkishólmi mældist úrkoman í júlí 66,9 mm og er það um 60 prósent umfram meðallag, það mesta í júlí frá 1984 eins og í Reykjavík. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist úrkoman 181,6 mm og er það aðeins rétt tæplega tvöföld meðalúrkoma júlímánaðar og hefur ekki mælst meiri síðan 1990. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 174,9 mm, það er með meira móti en ámóta úrkoma mældist síðast í júlí 2010.

Úrkoma mældist 1 mm eða meiri 16 daga í Reykjavík. Það er sex dögum umfram meðallag. Svo margir hafa þeir ekki orðið í Reykjavík í júlí síðan 1964. Úrkoma mældist 1 mm eða meiri 15 daga á Akureyri, það er sjö dögum yfir meðallagi og hafa aldrei verið jafnmargir eða fleiri í júlí frá upphafi mælinga þar.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 116,4 og er það 55 stundum undir meðallagi sé miðað við 1961 til 1990 en 88 stundum undir meðallagi síðustu tíu ára. Sólskinsstundir hafa ekki verið færri í júlí í Reykjavík síðan 1989.

Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 120,2, það er 38 stundum færri en að meðaltali áranna 1961 til 1990, en 65 stundum undir meðallagi síðustu tíu ára. Sólskinsstundirnar voru enn færri á Akureyri í júlí í fyrra heldur en nú.

Vindhraði og loftþrýstingur

Vindhraði í júlímánuði var nærri meðallagi. Víða var hvasst fyrstu 5 daga mánaðarins, einkum þann 4. og 5. og þá af norðri, annars ríktu suðlægar áttir meginhluta mánaðarins. Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1006,4 hPa og er það 3,7 hPa undir meðallagi. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1023,1,9 hPa á Höfn í Hornafirði þann 23. Þrýstingur varð lægstur í mánuðinum á Húsavík þann 2., 975,0 hPa. Þetta er ekki met fyrir júlí – en samt lægsti þrýstingur sem mælst hefur í þeim mánuði um landið norðanvert.


Út Eyjafjörð
""
Sýn út Eyjafjörð til austurs í júlí 2014. Skýjabólstrar yfir Gjögrafjallinu yst og hnjúkum Austurlands-fjallanna þar fyrir sunnan. Hrólfssker og Hrísey á miðri mynd, Ufsaströnd í forgrunni. Ljósmynd: Brynjólfur Sveinsson.

Fyrstu sjö mánuðir ársins 2014

Fyrstu sjö mánuðir ársins 2014 hafa verið óvenjuhlýir og hafa aðeins þrisvar verið hlýrri í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga 1871. Það var 1964, 1929 og 2003. Á Akureyri hafa fyrstu sjö mánuðir ársins aldrei mælst hlýrri en nú, en jafnhlýir 1964.

Á Akureyri hefur úrkoma aðeins einu sinni áður mælst meiri fyrstu sjö mánuði ársins heldur en nú. Það var 1989. Úrkoman hingað til er nú um 60 prósent umfram meðallag og hefur nú þegar náð 85 prósentum meðalársúrkomu.

Í Reykjavík var sérlega þurrt í janúar og febrúar og úrkoma var nærri meðallagi í apríl og maí. Aftur á móti var úrkoma langt yfir meðallagi í mars, júní og júlí. Summa fyrstu sjö mánaðanna er um 15 prósent umfram meðallag áranna 1961 til 1990.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík fyrstu sjö mánuði ársins er enn langt undir meðallagi og hefur aðeins átta sinnum verið lægri frá því að samfelldar mælingar hófust 1823. Sólskinsstundir það sem af er ári eru um 90 færri á Akureyri en að meðaltali 1961 til 1990. Í Reykjavík eru sólskinsstundirnar rúmlega 100 stundum færri en að meðaltali sama tímabil en 267 stundum færri heldur en að meðaltali fyrstu sjö mánuði ársins síðustu 10 árin (2004 til 2013) og það minnsta í sömu mánuðum ársins frá 1992.

Skjöl fyrir júlímánuð

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í júlí 2014.
Þessa grein, Tíðarfar í júlí 2014, má einnig sækja eða lesa sem pdf-skjal (0,5 Mb).



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica