Fréttir
Hlaupvatn frá Sólheimajökli

Lítil jökulhlaup í Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi

10.7.2014

Hlaupvatns frá jarðhitasvæðum undir Mýrdalsjökli gætir enn í Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi. Há rafleiðni mælist enn í báðum ánum en nýjustu mælingar gefa til kynna að leiðnin sé tekin að lækka. Einnig mælist nú minna rennsli í ánum en fyrr í vikunni.


Myndin hér að ofan er tekin að kvöldi 8. júlí 2014 af nýju brúnni yfir Múlakvísl. Aukið rennsli hefur verið í ánni síðustu daga og kemur það frá Kötlujökli.

Uppleystar lofttegundir losna enn úr hlaupvatninu sem fram kemur undan Sólheimajökli og mældist styrkur þeirra nærri hættumörkum við jaðar jökulsins síðla dags 9. júlí. Ferðafólki er ráðlagt að halda sig frá vestanverðum Sólheimajökli þar sem hlaupvatn kemur undan jöklinum. Eitraðar lofttegundir sem þar losna gætu valdið öndunarerfiðleikum og augnsviða. Vakin er athygli á því að sumar lofttegundirnar eru lyktar- og litlausar og greinast því ekki án mælitækja.


Myndin hér að ofan er tekin úr lofti yfir lónið við jökulsporð Sólheimajökuls. Dökka vatnið í lóninu er hlaupvatn sem kemur frá jöklinum. Svæðið við jökulsporðinn getur verið hættulegt vegna gass og skyndiflóða sem gætu komið fyrirvaralaust.

Enn mælast jarðskjálftar á litlu dýpi undir Kötluöskjunni en tíðni þeirra virðist ekki vera að aukast. Mjög líklegt er að skjálftavirknin sé tengd hinni áðurnefndu jarðhitavirkni og eru atburðir af þessu tagi algengir á þessum tíma árs.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica