Fréttir
Jarðskjálftar í júní 2014.

Jarðskjálftar í júní 2014

11.7.2014

Rúmlega 1600 jarðskjálftar mældust með SIL mælakerfi Veðurstofunnar í júní. Það dró úr skjálftum á þeim svæðum sem voru sérstaklega virk í maí, svo sem við Herðubreiðartögl, Bárðarbungu og Geirfugladrang á Reykjaneshrygg.

Reykjanesskagi

Ríflega 50 jarðskjálftar voru staðsettir á Reykjaneshrygg, þar af flestir eða um 30 við Geirfugladrang. Á Reykjanesskaga mældust tæplega 100 skjálftar á þekktum sprungum og jarðhitasvæðum milli Svartsengis og Bláfjalla. Stærsti skjálftinn átti upptök við Fagradalsfjall 16. júní kl. 22:51 og var hann 1,9 að stærð. Talsverð smáskjálftavirkni var í kringum Kleifarvatn og í Móhálsadalnum. Nokkrir smáskjálftar mældust við Brennisteinsfjöll og á Bláfjallasvæðinu.

Suðurland

Um 100 skjálftar áttu upptök á Hengilssvæðinu, þar af tæplega 60 við Húsmúla og Hveradali. Rúmlega 20 skjálftar mældust austan Ölkelduhálss, nokkrir við Skeggja á Hengli og norðan Ingólfsfjalls. Ríflega 60 smáskjálftar urðu í Þrengslum og í Ölfusi, þar af um helmingur á Krosssprungunni suður af Hveragerði. Enginn þeirra náði einum að stærð.

Á Suðurlandsundirlendinu voru tæplega 45 jarðskjálftar staðsettir á þekktum jarðskjálftasprungum milli Selfoss og Selsunds. Allir voru þeir innan við 1,5 stig. Á Vatnafjallasprungu sunnan Heklu mældist 2,3 stiga skjálfti 3. júní kl. 14:13 og nokkrir litlir eftirskjálftar. Þrír smáskjálftar áttu upptök við Heklu.

Norðurland

Rúmlega 270 jarðskjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi, þar af langflestir eða um 220 á Grímseyjarbeltinu. Talsverð virkni var í Öxarfirði. Um 140 skjálftar voru staðsettir þar, sá stærsti 2,6 stig þann 17. júní kl. 13:06. Tæplega 70 skjálftar áttu upptök á sprungum austan Grímseyjar og tveir í nágrenni Kolbeinseyjar. Á Húsavíkur-Flateyjarmisgengi urðu rúmlega 50 skjálftar og um tylft við Eyjafjarðarál. Smáhrina varð norður af Flatey. Auk þess mældust þrír smáskjálftar á Dalvíkurmisgengi, um 10 við Þeistareyki og nokkrir við Kröflu. Í byrjun mánaðarins mældust sprengingar við Kröflu sem voru tengdar verkefni ÍSOR.

Mýrdalsjökull

Yfir 200 skjálftar voru staðsettir undir Mýrdalsjökli. Upptök helmings þeirra voru undir Kötluöskju. Um 60 urðu undir vestanverðum jöklinum, allir minni en tvö stig, og 40 minni en eitt stig við Hafursárjökul sunnan öskjunnar. Stærsti skjálftinn var um þrjú stig með upptök rétt norðan við miðju öskjunnar en hann er með stærri skjálftum innan öskjunnar síðan haustið 2012. Djúp skjálftavirkni mældist í mánuðinum undir austurhluta öskjunnar, um fimm kílómetrum norðaustur af Hábungu. Djúpir jarðskjálftar hafa áður mælst á sömu slóðum undanfarin ár eftir að skjálftamælum fjölgaði á svæðinu. Djúp smávirkni varð einnig sunnan Lágu-Hvola í fyrstu viku mánaðarins.

Þrír smáskjálftar minni en 0,5 stig áttu upptök undir Eyjafjallajökli. Á Torfajökulssvæðinu voru um 80 skjálftar staðsettir. Þeir stærstu voru 1,9 stig.

Hálendi

Yfir 220 jarðskjálftar mældust við Öskju og Herðubreið. Það dró mikið úr skjálftavirkni við Herðubreiðartögl, þar sem kröftug hrina yfir 3000 skjálfta átti upptök í maí. Þar mældust um 150 skjálftar í júní, stærsti 1,4. Nokkrir tugir skjálfta mældust við Herðubreið, allir litlir. Yfir 50 skjálftar urðu við Öskjuvatn, um og undir einum að stærð. Tvær djúpar smáhrinur mældust fyrstu viku mánaðarins, önnur norðan Öskju og hin norðvestan Upptyppinga.

Yfir 350 skjálftar mældust undir Vatnajökli í júní. Eftir því sem leið á mánuðinn dró úr fjölda skjálfta við Bárðarbungu en virkni á svæðinu var mikil frá miðjum maí. Um 150 skjálftar mældust í júní miðað við 300 í maí. Stærsti var 1,7 stig. Nokkrir skjálftar minni en eitt stig mældust með upptök við Kistufell og Kverkfjöll. Um 20 skjálftar urðu undir Lokahrygg. Upptök stærsta skjálftans, tvö stig, var rétt vestan við vestari Skaftárketil en aðrir voru innan við einn að stærð. Fáir skjálftar voru staðsettir undir Grímsvötnum. Nokkuð var af smáskjálftum um og innan við eitt stig milli Skeiðarárjökuls og Öræfajökuls eins og síðustu mánuði. Einnig dreifðust smáskjálftar milli Grímsvatna og Þórðarhyrnu. Við Fjórðungsöldu á Sprengisandi urðu nokkrir skjálftar minni en einn að stærð.

Í vestara gosbeltinu mældust 30 jarðskjálftar. Um helmingur varð 5. júní í smáhrinu rétt vestan við Geitlandsjökul í vestanverðum Langjökli. Stærsti skjálftinn var 1,7 stig. Innan við tug skjálfta mældist undir Þórisjökli, stærstu rúmlega eitt stig. Tveir skjálftar urðu undir vestanverðum Hofsjökli 13. júní, báðir um tvö stig. Einn skjálfti af stærð 1,4 stig varð vestur af Hveravöllum og einn sunnan Skjaldbreiðar, 0,6 stig.

Jarðskjálftar í júní 2014 (pdf 0,3Mb)



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica