Fréttir
Jarðskjálftar í apríl 2014.

Jarðskjálftar í apríl 2014

21.5.2014

Rúmlega 3000 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í apríl. Flestir skjálftarnir áttu upptök við Húsmúla á Hellisheiði, en þar voru um 1200 jarðskjálftar staðsettir, stærsti 2,7 stig. Flestir eða 400 skjálftar mældust 4. apríl. Skjálftahrinur mældust víða og voru þær helstu við Geirfugladrang á Reykjaneshrygg, við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga, í Öxarfirði, við Flatey á Skjálfanda og undir Herðubreiðartöglum. Stærsti skjálftinn var 3,4 með upptök við Eldey á Reykjaneshrygg.

Reykjanes

Talsverð skjálftavirkni var við Geirfugladrang á Reykjaneshrygg í mánuðinum. Um 170 skjálftar mældust, flestir dagana 4. og 26. apríl. Stærstu skjálftarnir voru um og yfir þrjú stig. Við Geirfuglasker mældust nokkrir tugir skjálfta. Stærstu voru um tvö stig og flestir 4. apríl. Rúmur tugur skjálfta átti upptök við Eldey í stuttri skjálftaröð, sem hófst með skjálfta af stærð 3,4 kvöldið 23. apríl og stóð fram á nótt.

Mesta virknin á Reykjanesskaga var við Fagradalsfjall en þar mældust tæplega hundrað skjálftar. Flestir mældust í hrinu 4. - 10. apríl suðsuðvestan undir fjallinu eða um 80. Þeir voru allir innan við tvö stig að stærð. Við Grindavík mældust 16 skjálftar, stærsti 1,3 stig. Flestir áttu upptök nokkra kílómetra norðaustan við bæinn. Við Reykjanestá mældust 15 smáskjálftar minni en 1,5 stig. Flestir eða 11 urðu þann 23. apríl í stuttri hrinu með upptök um sex kílómetra vestan Reykjanestáar en hún stóð í um 90 mínútur. Á Krýsuvíkursvæðinu mældust 35 smáskjálftar, allir innan við tvö stig. Tæpur helmingur varð 9. apríl í hrinu rétt við Krýsuvík, sem stóð í um 40 mínútur. Á Bláfjallasvæðinu, austast á skaganum, mældust sex skjálftar um og innan við eitt stig að stærð.

Suðurland

Mikill fjöldi skjálfta mældist í apríl með upptök við Húsmúla, á niðurdælingasvæði Orkuveitunnar við Hellisheiðarvirkjun (sjá mynd hér að neðan) . Tæplega 1200 skjálftar voru staðsettir. Stærsti skjálftinn var 2,7 stig en langflestir eða um 1000 voru minni en eitt stig. Mestu hrinurnar urðu dagana 4. apríl með um 400 skjálfta og 7. apríl með 170 skjálfta. Nokkur virkni var einnig við Gráuhnúka, sem tengist niðurdælingunni. Á annan tug skjálfta mældist þar, stærsti 2,2 stig. Nokkrum kílómetrum vestan Skeggja í Hengli mældust nærri 50 skjálftar í apríl. Stærsti skjálftinn var af stærð 1,9 en flestir voru minni en eitt stig. Nokkur smáskjálftavirkni var á suðurhluta Krosssprungunnar, sem brotnaði í maí 2008.


Myndin sýnir afstæðar staðsetningar jarðskjálfta við Húsmúla í apríl 2014. Einnig eru sýndar  niðurdælingarborholur á svæðinu.

Flestir skjálftar á Suðurlandsundirlendinu áttu upptök á Hestvatnssprungu, sem brotnaði í júní 2000. Þar mældust um 20 skjálftar og var sá stærsti 1,7 stig en aðrir um og innan við eitt stig. Einnig var nokkur virkni á Holtssprungu, sem brotnaði einnig í júní 2000. Austast í Suðurlandsbrotabeltinu varð lítil skjálftaröð við Vatnafjöll 14. apríl. Hún hófst með skjálfta af stærð 2,9 og 11 eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið, flestir innan við eitt stig að stærð. Stakir smáskjálftar mældust af og til á svæðinu aðra daga mánaðarins, alls tæpur tugur. Nokkrir skjálftar innan við 0,5 stig áttu upptök undir og við Heklu.

Norðurland

Rúmlega 500 jarðskjálftar áttu upptök úti fyrir Norðurlandi á svonefndu Tjörnesbrotabelti. Mesta skjálftavirknin var í Öxarfirði, en þar varð skjálftahrina þann 8. apríl sem varaði meira og minna út mánuðinn. Stærsti skjálftinn var 2,9 að stærð þann 8. apríl og í allt mældust á því svæði tæplega 250 jarðskjálftar. Þann 6. apríl varð skjálftahrina úti fyrir mynni Eyjafjarðar og mældist stærsti skjálftinn í henni 2,8 stig. Á því svæði voru um 75 jarðskjálftar í mánuðinum. Um 120 smáskjálftar mældust í skjálftahrinu sem átti upptök um 2 - 3 kílómetrum norðvestur af Flatey á Skjálfanda. Þeir urðu aðallega dagana 25. til 27. apríl og voru stærstu skjálftarnir um 1,7 að stærð. Einnig mældust skjálftar í Eyjafjarðarál og í Skjálfandadjúpi og var sá stærsti 2,3 stig. Þann 22. apríl var skjálfti af stærð 2,6 með upptök um sex kílómetrum austan við Dalvík. Um 10 smáskjálftar urðu við Kröflu og Þeistareyki og voru þeir allir minni en 1,1 að stærð. Rúmlega 30 smáskjálftar áttu upptök um 8 - 12 kílómetra suðvestur af Ásbyrgi, aðallega á tímabilinu 14.-17. apríl og voru þeir allir minni en 1,3 stig.

Mýrdalsjökull

Rúmlega 100 jarðskjálftar voru staðsettir undir Mýrdalsjökli, litlu færri en í síðasta mánuði. Um 40 urðu innan Kötluöskjunnar og tæplega 30 í vesturjöklinum, í nágrenni Goðabungu. Allir voru innan við tvö stig. Á annan tug smáskjálfta mældist undir Hafursárjökli sem er svipaður fjöldi og undanfarna mánuði. Einn grunnur smáskjálfti mældist við toppgíg Eyjafjallajökuls. Rúmlega 30 skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu, stærstu rúmt stig.

Hálendið

Um 270 jarðskjálftar áttu upptök undir og við Vatnajökul í apríl. Stærsti, 2,0 stig, var staðsettur norðan Grímsvatna en á því svæði mældust yfir 30 skjálftar. Undir vötnunum voru um 20 skjálftar staðsettir, um 20 norðaustan undir Bárðarbungu, rúmlega 20 við Kistufell og um 15 við Kverkfjöll. Undir Lokahrygg mældust um 40 skjálftar, stærsti 1,5 stig. Um 85 skjálftar dreifðust frá Skeiðarárjökli og suður í Öræfajökul en mælum hefur fjölgað á því svæði á síðustu mánuðum. Skjálftarnir voru innan við 1,5 að stærð. Einnig dreifðust smáskjálftar milli Grímsvatna og Þórðarhyrnu, alls um 30. Nokkrir skjálftar mældust við Esjufjöll.

Við Dyngjufjöll, norðan Vatnajökuls, mældust um 200 jarðskjálftar. Mesta virknin var við Herðubreiðartögl en þar voru um 90 skjálftar staðsettir. Um 70 þeirra urðu í hrinu sem stóð yfir síðustu daga mánaðarins en snörp hrina hófst á svæðinu nokkrum dögum síðar eða 3. maí. Undir Herðubreið mældust um 30 skjálftar, stærsti 2,1. Norðan Herðubreiðar mældist rúmlega tugur skjálfta, stærsti 1,2 stig. Við Öskjuvatn mældust 15 skjálftar, stærsti 1,3 stig. Norðan Vaðöldu varð hátt í tugur djúpra skjálfta, stærsti  1,8. Norðan Upptyppinga mældust 12 smáskjálftar, stærstu um eitt stig.

Í vestara gosbeltinu mældist rúmur tugur skjálfta. Um helmingur var með upptök undir Langjökli. Aðrir voru við Skjaldbreið, Jarlhettur, sunnan Blöndu, vestan Hveravalla og norðan Hofsjökuls. Allir skjálftarnir voru um og innan við einn að stærð.

Jarðskjálftar í apríl 2014 (pdf 0,5 Mb)




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica