Stórfenglegt myndasafn
Oddur Sigurðsson og Veðurstofa Íslands gera samning
Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur og sérfræðingur á sviði jöklafræði, hefur tekið einstakar ljósmyndir af landinu í áratugi, einkum jöklum; bæði í starfi sínu á Veðurstofu Íslands og þar áður á Orkustofnun. Mun það ósk Odds að myndirnar varðveitist á stofnun sem tengist náttúru Íslands.
Hinn 15. maí 2014 undirrituðu Oddur og Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, samning um varðveislu, skráningu og notkun Veðurstofunnar á myndasafni Odds. Safnið er áætlað um 55.000 myndir af náttúru Íslands og er ómetanleg heimild, meðal annars um rýrnun jökla og breytingar tengdar eldgosum, flóðum og skriðuföllum.
Veðurstofunni er heimilt að veita almenningi aðgang að ljósmyndunum, svo fremi sem viss skilyrði séu uppfyllt. Án efa verða myndirnar mikið notaðar, bæði til yndisauka og við rannsóknir á ólífrænni náttúru landsins.