Fréttir
Oddur Sigurðsson og Árni Snorrason.

Stórfenglegt myndasafn

Oddur Sigurðsson og Veðurstofa Íslands gera samning

16.5.2014

Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur og sérfræðingur á sviði jöklafræði, hefur tekið einstakar ljósmyndir af landinu í áratugi, einkum jöklum; bæði í starfi sínu á Veðurstofu Íslands og þar áður á Orkustofnun. Mun það ósk Odds að myndirnar varðveitist á stofnun sem tengist náttúru Íslands.

Hinn 15. maí 2014 undirrituðu Oddur og Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, samning um varðveislu, skráningu og notkun Veðurstofunnar á myndasafni Odds. Safnið er áætlað um 55.000 myndir af náttúru Íslands og er ómetanleg heimild, meðal annars um rýrnun jökla og breytingar tengdar eldgosum, flóðum og skriðuföllum.

Veðurstofunni er heimilt að veita almenningi aðgang að ljósmyndunum, svo fremi sem viss skilyrði séu uppfyllt. Án efa verða myndirnar mikið notaðar, bæði til yndisauka og við rannsóknir á ólífrænni náttúru landsins.

Landið lesið
Loftmynd tekin til norðurs 18. október 2001. Á þeim tíma hafði Snæfellsjökull þegar hopað mikið og þynnst. Myndin sýnir skýr ummerki um hörfun jökulsins utan þáverandi jaðars og jökulsker innan jaðarsins sem komið höfðu í ljós á næstliðnum árum og áratugum. Breytingar á jöklinum hafa verið mældar á einum stað árlega síðan 1931 á vegum Veðurstofunnar og Jöklarannsókna-félags Íslands. Það sem af er þessari öld hefur jökullinn rýrnað ört og er honum ekki ætlað langlífi. Fingraðir hraunstraumar sjást í hlíðum eldkeilunnar sem síðast gaus fyrir um 1750 árum. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica