Fréttir
Veðurstöðin í Arnkötludal 3. mars 2014.

Tíðarfar í mars 2014

Stutt yfirlit

1.4.2014

Mánuðurinn var umhleypinga- og úrkomusamur um meginhluta landsins, sérstaklega þó um landið norðaustan- og austanvert þar sem einnig var töluverður snjór, og mikill inn til landins. Snjórinn olli samgöngutruflunum á þeim slóðum. Snjólétt var vestanlands og sunnan og samgöngur greiðar. Lengst af var hlýtt í veðri, sérstaklega austanlands.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 2,1 stig og er það 1,7 stigum ofan við meðaltalið 1961 til 1990, en 0,2 stigum ofan meðaltals síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 0,9 stig, 2,2 stigum ofan við meðaltal 1961 til 1990 og 0,2 stigum ofan meðaltals síðustu tíu ára. Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

Meðalhiti og vik á nokkrum veðurstöðvum °C

stöð meðalhiti vik 1961-90 röð af vik 2004-13
Reykjavík 2,1 1,7 32 144 0,2
Stykkishólmur 1,2 2,0 35 169 0,1
Bolungarvík 0,2 1,8 33 117 0,1
Akureyri 0,9 2,2 16 133 0,2
Egilsstaðir 1,0 2,4 18 60 0,8
Dalatangi 2,4 2,3 19 76 0,9
Teigarhorn 2,7 2,3 18 142 1,1
Höfn í Hornafirði 3,4
Stórhöfði 3,0 1,3 30 138 0,3
Hveravellir  -3,9 2,0 12 til 13 50 0,1
Árnes 1,1 1,8 29 134 0,4

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 4,0 stig, en lægstur á Þverfjalli, -5,1 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -2,9 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 15,6 stig á Dalatanga þann 11. Þetta er nýtt dægurhámarksmet 11. mars. Á mannaðri stöð mældist hitinn í mánuðinum hæstur 15,0 stig, sömuleiðis á Dalatanga, sama dag. Lægsti hiti á landinu mældist við Setur þann 17., -25,1 stig. Í byggð varð hitinn lægstur     -23,6 stig við Mývatn þann 18. Á mannaðri stöð mældist hitinn lægstur á Grímsstöðum á Fjöllum þann 18., -21,6 stig.

Tvö ný landsdægurlágmarksmet voru sett í mánuðinum. Þann 17. fór frost í -25,1 stig við Setur, eins og áður er getið, gamla metið var sett í Möðrudal 1989, -24,5 stig. Þann 23. fór frostið í -23,2 stig á Brúarjökli. Mesta frost sem áður var vitað um þennan dag var -22,0 stig og mældist á Grímsstöðum á Fjöllum árið 1967.

Á Skaftártunguafrétti
""
Á Skaftártunguafrétti. Gígaröð. Myndin er tekin 28. mars 2014. Ljósmynd: Ólafur Freyr Gíslason.

Úrkoma

Úrkoma var yfir meðallagi um mestallt land og sérlega mikil um landið norðaustan- og austanvert.

Í Reykjavík mældist úrkoman 115 mm og er það 41% umfram meðallag marsmánaðar. Á Akureyri mældist úrkoman 104 mm. Það er meira en tvöföld meðalúrkoma þar á bæ, sú mesta í mars síðan 1989. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 89,3 mm og er það um fjórðungur umfram meðalúrkomu í mars.

Úrkoma varð meiri en áður vitað er um í mars á fáeinum stöðvum norðan- og austanlands, t.d. á Mýri í Bárðardal þar sem mælt hefur verið samfellt frá 1957.

Úrkoma mældist 1 mm eða meiri 18 daga í Reykjavík og er það fjórum dögum fleira en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1 mm eða meiri 15 daga mánaðarins, fimm dögum oftar en að meðaltali.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinstundir í Reykjavík mældust 73,2 og er það 38 stundum færri en í meðalmarsmánuði. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 67,1 og er það tíu færri en í meðalári.

Snjólag

Alhvítt var átta daga í Reykjavík í mánuðinum, fjórum dögum færra en að meðaltali 1971 til 2000. Á Akureyri var jörð alhvít 30 daga, alla daga nema einn. Það er 11 dögum umfram meðallag og það mesta síðan 1999 en þá var alhvítt allan mánuðinn á Akureyri. Mars hefur 13 sinnum verið alhvítur á Akureyri frá upphafi athugana á snjóhulu þar 1924 (tvo marsmánuði vantar í röðina – en þeir voru örugglega ekki alhvítir).

Vindhraði og loftþrýstingur

Vindhraði á landinu var mjög nærri meðallagi og ríkjandi vindáttir sömuleiðis.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 996,3 hPa og er það 6,8 hPa undir meðallagi. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1033,6 hPa á Egilsstöðum þann 29. en lægstur mældist hann á Stórhöfða þann 8., 953,1 hPa.

Veturinn desember 2013 til mars 2014

Veturinn var hlýr, sá 17. hlýjasti frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík 1871 og sá 5. hlýjasti á þessari öld. Hiti var 1,4 stigum ofan við meðallagið 1961 til 1990 og 0,1 stigi ofan við meðallag síðustu 10 vetra. Á Akureyri var veturinn í 21. hlýjasta sæti frá upphafi samfelldra mælinga 1882. Hiti var 1,8 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 og 0,8 stigum ofan við meðaltal síðustu 10 vetra. Desember var í kaldara lagi miðað við það sem verið hefur síðustu árin, en þó ekki nema 0,2 stigum undir meðallaginu 1961 til 1990 í Reykjavík og var í meðallagi á Akureyri. Þetta sýnir vel að hin óvenjulegu hlýindi nýrrar aldar halda enn sínu.

Úrkomu var óvenjulega misskipt á landinu, sérlega þurrt var um landið vestanvert í janúar og febrúar, síðari mánuðurinn var einn sá þurrasti sem vitað er um á þeim slóðum. Að sama skapi var úrkoma með allra mesta móti um landið norðaustan- og austanvert. Úrkoma í mars var hins vegar yfir meðallagi um nær allt land.

Heildarúrkoma vetrarins í Reykjavík var um 50 mm undir meðallagi áranna 1961 til 1990 og dagar þegar úrkoma mældist 1 mm eða meiri voru 44, tíu færri en í meðalárferði. Á Akureyri mældist heildarúrkoma vetrarins 390 mm og er það nærri tvöföld meðalúrkoma þar og hefur aðeins einu sinni verið meiri. Það var veturinn 1988 til 1989. Dagar þegar úrkoma mældist 1 mm eða meira voru 62 á Akureyri og hafa aldrei verið fleiri.

Mikill snjór var inn til landsins á Norðaustur- og Austurlandi, mestur að tiltölu í efri byggðum Þingeyjarsýslna. Mikil jarðbönn voru víða á landinu vegna þrálátra klaka frá því í desember. Alhvítir dagar á Akureyri voru 112, fleiri en nokkru sinni síðan 1981 – eða 28 dögum fleiri en í meðalárferði. Í Reykjavík voru alhvítu dagarnir 34 – þar af 22 í desember. Þetta er 19 dögum færra en að meðaltali, en langt frá meti. Samgönguerfiðleikar voru meiri í snjóasveitunum heldur en hefur verið um langt skeið.

Þótt ekki væri mikið um ofsaveður og skaða af þeirra völdum voru næðingar miklir og meðalvindhraði á landinu var sá mesti síðan veturinn 1994 til 1995. Til sjávarins var því mjög kvartað undan gæftaleysi.

Loftþrýstingur var með lægsta móti, í Reykjavík sá lægsti síðan veturinn 1989 til 1990 en þá var hann sjónarmun lægri en nú. Annars hefur vetrarþrýstingurinn aldrei orðið lægri en í þessi tvö skipti. Mælingar ná aftur til 1823.

Fyrstu þrír mánuðir ársins 2014

Fyrstu þrír mánuðir ársins hafa verið óvenjuhlýir, þó ekki jafnhlýir sunnanlands og vestan og í fyrra (2013). Meðalhitinn í Reykjavík er sá 8. hæsti frá upphafi samfelldra mælinga 1871. Fyrstu þrír mánuðir ársins hafa aðeins tvisvar verið hlýrri en nú á þessari öld (2003 og 2013). Á Akureyri eru mánuðirnir þrír þeir 14. hlýjustu frá upphafi samfelldra mælinga. Sama tímabil hefur fjórum sinnum verið hlýrra á þessari öld heldur en nú (2003, 2005, 2006, 2012). Nánast jafnhlýtt var á Akureyri í fyrra (2013) og nú.

Sérlega þurrt var í Reykjavík í janúar og febrúar, en úrkoman í mars togaði summu fyrstu þriggja mánaðanna nokkuð upp þannig að hún endaði í 84 prósentum af meðallagi mánaðanna þriggja. Er það í minna lagi en langt frá öllum metum.

Á Akureyri var úrkoman hins vegar með mesta móti, samtals um tvöfalt meðaltalið og hefur aðeins tvisvar orðið meiri frá upphafi samfelldra mælinga 1928. Það var 1989 og 1990.

Meðalloftþrýstingur mánaðanna þriggja hefur aðeins fjórum sinnum verið lægri en nú, það var 1990, 1989, 1903 og 1842. Mæliröðin nær aftur til 1823.

Skjöl fyrir mars

Meðalhiti á sjálfvirkum stöðvum í mars 2014.
Þessa grein má einnig sækja eða lesa sem Tíðarfar í mars 2014 (pdf-skjal 0,3 Mb).



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica