Fréttir
Úr Þórsmörk hinn 11. janúar 2014. Klukkan er 10:06 og sólin að koma upp.

Tíðarfar í janúar 2014

Stutt yfirlit

3.2.2014

Nokkuð vindasamt var í mánuðinum, úrkoma mikil austanlands en um landið vestan- og norðvestanvert var tíð í þurrara lagi. Mánuðurinn var óvenjuhlýr, sérstaklega um landið austanvert þar sem hann var sums staðar sá næsthlýjasti frá upphafi mælinga.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 2,4 stig, það er 2,9 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og 1,4 stigum yfir meðallagi síðustu 10 ára (2004 til 2013). Ívið hlýrra var í janúar í fyrra og eru þessir mánuðir tveir í 11. og 12. sæti hlýrra janúarmánaða í Reykjavík. Meðalhiti á Akureyri var 1,6 stig. Það er 3,8 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 en 1,8 stigi ofan meðallags síðustu 10 ára. Janúar í fyrra var ívið kaldari á Akureyri heldur en nú.

Í Stykkishólmi var meðalhiti 1,0 stig, 2,4 stigum ofan meðallags 1961 til 1990. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 4,1 stig og -3,0 stig á Hveravöllum. Meðalhiti hefur aldrei orðið svo hár á Höfn – en mælingar þar hafa ekki verið samfelldar. Þetta er samt trúlega hlýjasti janúar í Hornafirði frá 1947 að telja. Hiti hefur verið mældur samfellt frá 1873 við Berufjörð, lengst af á Teigarhorni, og hefur janúar aðeins einu sinni orðið þar hlýrri heldur en nú. Það var 1947.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð t vik 30 röð af vik 10
Reykjavík 2,4 2,9 12 144 1,4
Stykkishólmur 1,0 2,4 20 169 0,5
Bolungarvík 1,2 2,4 8 117 1
Akureyri 1,6 3,8 11 133 1,8
Egilsstaðir 2,1 4,6 2 60 2,5
Dalatangi 3,4 3,1 6 75 1,5
Teigarhorn 3,7 3,9 2 142 2,6
Höfn í Hornaf. 4,1 [2]
Stórhöfði 3,9 2,6 7 137 1,3
Hveravellir  -3,0 3,6 7 48 1,5
Árnes 1,8 3,9 [5] 135 1,4


Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Kvískerjum í Öræfum, 4,3 stig. Lægstur var meðalhitinn á Þverfjalli -4,0 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Svartárkoti -1,5 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist í Skaftafelli þann 24., 10,1 stig. Á mannaðri stöð mældist hann hæstur 8,4 stig á Sauðanesvita þann 31. Lægsti hiti á landinu mældist þann 12., -19,0 stig á Brúarjökli.  Í byggð mældist lægsti hitinn -16,4 stig á Kálfhóli á Skeiðum þann 11. Á mannaðri stöð mældist hitinn lægstur í Stafholtsey, -11,2 stig þann 12.

Það bar til að frostlaust var allan mánuðinn á Vattarnesi, lægsta lágmark var 0,4 stig. Þetta hefur aldrei gerst áður hér á landi í janúar svo vitað sé. Í Seley fór hiti aldrei niður fyrir frostmark (lægsta lágmark 0,0 stig).

Frá Vattarnesi
""
Sumarmynd frá Vattarnesi, tekin 8. júlí 2004. Ljósmynd: Sigvaldi Árnason.

Úrkoma

Úrkoma var undir meðallagi vestan- og norðvestanlands en yfir því í öðrum landshlutum og sums staðar mikið. Úrkoman mældist 64,2 mm í Reykjavík og er það um 15% minna en í meðalári. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 32,3 mm og er það tæpur helmingur meðalúrkomu. Úrkoma mældist síðast svo lítil í janúar 2007. Á Akureyri mældist úrkoman 80,3 mm og er það nærri því 50 prósent umfram meðallag. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 369,7 mm. Það er það mesta sem mælst hefur á þeim slóðum síðan 2002, en þá var athugað í Akurnesi.

Á allmörgum stöðvum austanlands mældist úrkoma meiri í janúar heldur en áður, m.a. yfir 600 mm á Hánefsstöðum í Seyðisfirði og yfir 500 mm á Gilsá í Breiðdal. Að sama skapi var sérlega þurrt víða norðvestanlands og trúlega minni úrkoma heldur en áður hefur mælst í janúar á fáeinum stöðvum. Endanlegar fréttir af því verða þó að bíða þess að mæliskýrslur skili sér.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskin í Reykjavík mældist í 19,3 stundir, 8 stundum færri en í meðalári. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar aðeins tvær, fimm færri en í meðalári.

Snjólag

Alhvítt var 4 daga í Reykjavík og er það 11 dögum færra en að meðaltali 1971 til 2000. Þetta er svipað og verið hefur fáein undanfarin ár að slepptum janúar 2012. Þá var mun meiri snjór heldur en nú. Á Akureyri var jörð alhvít allan mánuðinn, það er átta dögum umfram meðallag í janúar. Janúar hefur ekki verið alhvítur á Akureyri síðan 1999. Síðan byrjað var að athuga snjóhulu á Akureyri 1924 hefur janúar verið alhvítur 21 sinni.

Sérlega snjólétt var austast á landinu. Á Dalatanga var enginn dagur alhvítur og er það einstakt í janúar. Snjóhuluathuganir hófust á Dalatanga 1939. Alauðir dagar voru þar 28 og hafa aldrei verið jafnmargir eða fleiri í janúar, snjóhula var aðeins 5% - sú minnsta sem vitað er um. Í janúar 1957 var einn alhvítur dagur á Dalatanga en alauðir dagar færri - og þar með var snjóhula meiri en nú (23%). Fyrr en nú var snjóhulan í janúar á Dalatanga minnst 10%, 1947, þá voru alhvítir dagar tveir.

Vindhraði og loftþrýstingur

Vindhraði á landinu var um 0,4 m/s yfir meðallagi. Hinn 13. var hvassasti dagur mánaðarins en 29. sá hægasti.

Austlægar áttir voru sérlega þrálátar. Mismunur á loftþrýstingi í Vestmannaeyjum og á Akureyri var meiri en í nokkrum janúarmánuði síðan 1948. Austanþáttur vigurvinds var einnig sá sterkasti sem vitað er um í janúar, reiknað hefur verið aftur til 1949.

Austanátt var einnig óvenjuþrálát í háloftunum yfir landinu og hefur austanþáttur vigurvinds í 500 hPa ekki orðið sterkari í nokkrum mánuði, að minnsta kosti frá 1949 að telja, og með sæmilegu öryggi má bæta við um 25 árum aftur í tímann frá því ártali.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 987,9 hPa og er það 12,4 hPa undir meðallagi. Meðalþrýstingur var nánast jafnlágur í janúar 2009 en hefur annars ekki orðið svona lágur í janúar síðan 1993. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1014,9 hPa í Bolungarvík þann 29. en lægstur mældist hann 954,4 hPa á sjálfvirku stöðinni í Grindavík þann 25.

Skjöl fyrir janúarmánuð

Meðalhiti á sjálfvirkum stöðvum í janúar 2014.
Þessa grein má einnig lesa eða sækja sem Tíðarfar í janúar 2014 (pdf 0,3 Mb).Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica