Fréttir
Jarðskjálftayfirlit fyrir desember 2013

Jarðskjálftar í desember 2013

24.1.2014

Rúmlega 800 jarðskjálftar mældust á landinu í desember með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands. Skjálftahrinur urðu austan við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga, við Húsmúla á Hellisheiði og við Þórisjökul. Stærsti skjálftinn var í Kverkfjöllum, 3,1 að stærð.

Reykjanesskagi

Tiltölulega rólegt (um 70 skjálftar) var á Reykjanesskaga miðað við mánuðinn á undan. Skömmu fyrir hádegi á gamlársdag hófst skjálftahrina austan við Fagradalsfjall. Um miðnætti höfðu rúmlega 20 skjálftar mælst og hélt virknin áfram á nýju ári. Stærstu skjálftarnir vorum um tvö stig. Tæplega 30 skjálftar mældust á Krýsuvíkursvæðinu, stærsti um 2,5. Við Vífilsfell mældist um tugur skjálfta og eru það talsverð umskipti miðað við mánuðinn á undan þegar hátt í 400 skjálftar mældust þar í tveimur hrinum. Flestir skjálftarnir á þessu svæði urðu í jólavikunni, stærsti um 2,5. Rólegt var á Reykjaneshrygg.

Suðurland

Hátt í 90 skjálftar mældust við Húsmúla á Hellisheiði. Fyrri hluta mánaðarins var rólegt á svæðinu en upp úr klukkan 11 þann 14. desember hófst þar skjálftahrina sem stóð fram eftir degi. Um helmingur skjálftanna mældist í þeirri hrinu, aðrir síðar í mánuðinum. Stærstu skjálftarnir voru um 1,5. Um tugur smáskjálfta mældist austar á Hengilssvæðinu og tæplega 30 í Ölfusi. Á fimmta tug skjálfta, stærsti rúm tvö stig, mældust á Suðurlandsundirlendinu, flestir á sprungunum við Hestfjall og í Holtum frá 2000 og við Selsund frá 1912. Einn grunnur skjálfti, 0,7 að stærð, mældist undir toppgíg Heklu þann 10. desember. Annar litlu stærri varð 7. desember um það bil miðja vegu milli Surtseyjar og Heimaeyjar.

Norðurland

Á Norðurlandi mældust um 200 jarðskjálftar. Mest virkni var í Öxarfirði þar sem mældust rúmlega 70 skjálftar. Stærsti jarðskjálftinn var af stærðinni 2,4 kl. 12:32 þann 20. desember með upptök um 33 km NNA af Siglufirði. Virknin var að með hefðbundnu sniði og dreifðist á Húsavíkur-Flateyjarmisgengið þar sem mest virkni var á vestur hluta misgengisins en einnig norðvestan við það í Eyjafjarðarál. Megin virknin á Grímseyjarbeltinu var í Öxarfirði. Einnig var virkni rétt norðaustan við Flatey í Skjálfanda.

Hálendi

Undir Vatnajökli mældust 114 jarðskjálftar - við Bárðarbungu (45), í Kverkfjöllum (27), austur af Hamrinum (12) og við Esjufjöll (sjö). Alls mældust 14 jarðskjálftar af stærð um eða yfir 1,5. Stærsti skjálftinn var 3,1 að stærð þann 19. desember kl. 09:30 og átti hann upptök í Kverkfjöllum í norðanverðum Vatnajökli. Jarðskjálftavirknin í Kverkfjöllum var á 1 til 11 kílómetra dýpi.

Við Öskju og Herðubreið voru yfir 100 jarðskjálftar. Jarðskjálftarnir þar voru á stærðarbilinu -1,2 til 2,3. Flestir þeirra, um 50, voru við Herðubreið og um 24 voru austur af Öskju. Við Öskju var meðaldýpi skjálftanna 4,1 kílómetri en við Herðubreið tæplega 7,6 kílómetrar.

Við Langjökul voru 13 skjálftar. Þar af áttu 11 þeirra upptök í skjálftahrinu við Þórisjökul dagana 10. og 11. desember og mældist stærsti skjálftinn 1,9. Þann 21. desember mældust 2 skjálftar með upptök um 5-7 kílómetra norðvestur af Hvervöllum. Sá stærri var 2 að stærð. Tveir skjálftar, báðir um 1,5 að stærð voru undir norðausturhluta Hofsjökuls þann 11. desember.

Mýrdalsjökull

Undir Mýrdalsjökli mældust rúmlega 90 jarðskjálftar. Stærsti skjálftinn var um 2 að stærð og átti upptök undir vestanverðum jöklinum en þar mældist á þriðja tug skjálfta. Í Kötluöskjunni voru 32 jarðskjálftar og var stærsti skjálftinn 1,1 að stærð. Við Hafursárjökul sunnan við öskjuna mældust 30 jarðskjálftar. Þeir voru allir minni en 1 að stærð og urðu næstum daglega allan mánuðinn. Fjórir skjálftar áttu upptök við Sandfellsjökul, sá stærsti 1 að stærð. Tveir grunnir skjálftar voru við toppgíg Eyjafjallajökuls og var sá stærri 0,5 að stærð. Á Torfajökulssvæðinu mældust 17 skjálftar. Stærsti skjálftinn mældist 2,1 að stærð þann 22. desember en þá mældust flestir skjálftar á svæðinu.

Jarðskjálftar í desember 2013 (pdf 0,2 Mb)



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica