Fréttir
Ný veðurstöð sett upp á Arnkötludalsheiði hinn 6. desember 2013.

Tíðarfar í desember 2013

Stutt yfirlit

2.1.2014

 Tíð var óróleg í desember. Mikið kuldakast gerði dagana 4. til 8. en annars var hiti ekki langt frá meðallagi. Hiti var ofan við meðallag áranna 1961 til 1990 á Austfjörðum en annars í því eða lítillega undir. Kaldast að tiltölu var á Vestfjörðum. Úrkoma var undir meðallagi suðvestanlands en annars yfir því, langmest þó á Austfjörðum.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var -0,5 stig, það er 0,2 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 1,3 stigi undir meðallagi síðustu 10 ára (2003 til 2012). Mun kaldara var í desember fyrir tveimur árum heldur en nú. Meðalhiti á Akureyri var -1,9 stig. Það er í meðallagi áranna 1961 til 1990 en 1,3 stigi undir meðallagi síðustu 10 ára, eins og í Reykjavík. Í Stykkishólmi var meðalhiti -0,8 stig, 0,1 stigi neðan meðallags 1961 til 1990. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 0,8 stig og -6,6 á Hveravöllum.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu:

stöð hiti vik röð af
Reykjavík -0,5 -0,2 86 til 87 143
Stykkishólmur -0,8 -0,1 101 168
Bolungarvík -1,4 -0,5 86 116
Akureyri -1,9 0,0 82 133
Egilsstaðir -2,4 -0,2 40 59
Dalatangi 1,0 0,4 55 75
Teigarhorn 0,6 0,7 62 til 64 141
Höfn í Hornaf. 0,8
Stórhöfði 1,2 -0,3 78 136
Hveravellir  -6,6 -0,3 33 48
Árnes -1,9 0,1 76 134

 

Hæstur var meðalhiti mánaðarins á Vattarnesi, 1,5 stig. Þess verður þó að geta að talsvert vantaði í athuganir á þeim þremur stöðvum sem venjulega eru hlýjastar á þessum tíma árs; Surtsey, Vestmannaeyjabær og Önundarhorn, og varð að sleppa þeim í samanburðinum. Lægstur var meðalhitinn í Sandbúðum, -8,0. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -5,8 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist á Seyðisfirði þann 1., 12,8 stig. Á mannaðri stöð mældist hitinn hæstur 12,6 stig sama dag á Skjaldþingsstöðum.  

Lægsti hiti mánaðarins mældist -31,0 stig við Mývatn þann 6. Lægsti hiti á mannaðri stöð mældist -24,2 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þann 7. Lágmarkið á Mývatni er nýtt landsdægurlágmark fyrir 7. desember [eldra met var -22,0 stig úr Þúfuveri 2010], lágmarkshitinn á sama stað daginn eftir, þann 7., -26,8 stig, er sömuleiðis nýtt dægurlágmark [eldra met var -24,3 stig, sett í Möðrudal 2010]. Þann 5. var líka sett nýtt landsdægurlágmarksmet þegar hitinn fór niður í -24,7 stig við Kolku [eldra met var -22,5 stig, sett í Möðrudal 1999]. 

Úrkoma

Úrkoma var undir meðallagi suðvestanlands en yfir því í öðrum landshlutum og sums staðar mikið. Úrkoma í Reykjavík mældist 61,6 mm og er það um 20 prósentum undir meðallagi. Á Akureyri mældist úrkoman 104,9 mm og er það nærri tvöfaldri meðalúrkomu í desember. Úrkoma mældist enn meiri á Akureyri í desember 2009. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 92,8 mm sem er nærri 30 prósent umfram meðallag. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoma 145,7 mm en 114,3 mm á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og er það um 20 prósent undir meðallagi.

Dagar þegar úrkoma mældist 1 mm eða meiri voru 13 í Reykjavík, einum færri en í meðalári. Á Akureyri voru slíkir dagar 17, sex dögum fleiri en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskin í Reykjavík mældist í 9,3 stundir, 3 stundum færri en í meðalári.

Snjólag

Alhvítt var 22 daga í Reykjavík og er það níu dögum fleiri en að meðaltali 1971 til 2000. Aðeins einn alauður dagur var í Reykjavík í mánuðinum. Á Akureyri voru alhvítu dagarnir 23 og er það einum degi umfram meðaltal í desember 1971 til 2000.  

Vindhraði og loftþrýstingur

Vindhraði á landinu var um 0,8 m/s yfir meðallagi. Þetta er með mesta móti á síðari árum, á mönnuðu stöðvunum sá mesti í desember frá 1994. Sá 16. var hægastur daga í mánuðinum en jóladagur sá hvassasti. Meðalvindhraði var einnig mjög hár á aðfangadag. 

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 985,9 hPa og er það 15,2 hPa undir meðallagi. Meðalþrýstingur hefur ekki orðið svona lágur í desember síðan 1951. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1031,9 hPa á Bergstöðum þann 6. en lægstur mældist hann 942,6 hPa á sjálfvirku stöðinni á Dalatanga þann 19.

Snjókoma
""Jólasnjórinn á höfuðborgarsvæðinu kom nokkru fyrir jól. Myndir er tekin um kl. 12:30 hinn 14. desember 2013 í Kópavogi. Ljósm.: Þórður Arason.

Skjöl fyrir desembermánuð

Meðalhiti á sjálfvirkum stöðvum í desember 2013.
Þessa grein má einnig lesa eða sækja sem Tíðarfar í desember 2013 (pdf 0,3 Mb).
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica