Fréttir

Um snjóflóðaspá og snjóflóðatilkynningar

Snjóflóðasíður betrumbættar

19.12.2013

Snjóflóðaspá

Síðasta vetur hleypti Veðurstofan af stokkunum snjóflóðaspá á vefnum. Þetta tilraunaverkefni gafst nokkuð vel og nú eru komnar viðbætur vegna ábendinga sem bárust úr ýmsum áttum. Upphaflega var spáin gefin út tvisvar í viku en nú er hún gefin út þrisvar í viku, á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum, og uppfærð oftar ef þurfa þykir.

Snjóflóðaspáin birtist sem þrjú litakóðuð svæðakort ásamt textaspá undir ljósgráa flipanum Ofanflóð en einnig er hægt að skoða styttri útgáfu á dökkbláu forsíðunni Snjóflóð. Spáin á við til fjalla og þarf ekki að vera lýsandi fyrir hættu í byggð.

Um fallin snjóflóð

Tilkynningar um fallin snjóflóð eru hægra megin á þeirri forsíðu. Ef smellt er á Íslandskortið á snjóflóðaforsíðunni birtist þysjanlegt Íslandskort; þar má smella á viðkomandi flóð og fá nánari upplýsingar í töflu.

Eins birtast upplýsingar um fallin flóð og snjógryfjur undir Fréttir (sjá vefflokk á gráum grunni t.v.), smellið þar á hverja fyrirsögn til að fá viðkomandi upplýsingar.

Að senda upplýsingar

Heimamenn, skíðafólk og aðrir ferðalangar eru hvattir til að senda inn upplýsingar um fallin flóð og myndir af þeim. Best er að nota skráningarformið Tilkynna snjóflóð (sjá vefflokk á gráum grunni t.v. á ofanflóðasíðum).

Búi fólk svo vel að hafa tekið snjógryfjur eða gert stöðugleikapróf er um að gera að senda slíkar upplýsingar inn á vefinn, enda verður snjóflóðaspáin aldrei betri en þær upplýsingar sem Veðurstofan fær til að byggja hana á.

Stefnt er að því að hægt verði að þysja inn á svæðakortin til að sjá betur hvar flóð hafa fallið og kalla fram ítarupplýsingar. Verkefnið verður áfram í þróun og allar athugasemdir vel eru þegnar.

Ítarefni

Frekari útskýringar má fá í leiðbeiningum með snjóflóðaforsíðu og í grein Hörpu Grímsdóttur.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica