Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í nóvember 2013.

Jarðskjálftar í nóvember 2013

16.12.2013

Í nóvember mældust tæplega 1200 jarðskjálftar með SIL jarðskjálftamælakerfi Veðurstofu Íslands. Helsti viðburður var mikil jarðskjálftavirkni við Vífilsfell í þriðju viku mánaðar. Hátt í 400 skjálftar mældust, stærsti 2,9 að stærð.

Reykjanesskagi

Talsverð virkni mældist á Reykjanesskaga. Langflestir, eða um 380 jarðskjálftar, urðu í tveimur hrinum við Vífilsfell milli 17. og 20. nóvember og aftur að kvöldi 24. nóvember. Hrinurnar voru staðsettar á norður-suður sniðgengissprungu og stærstu skjálftarnir mældust 18. nóvember, annar 2,9 að stærð kl. 10:17 og hinn 2,8 að stærð kl. 13:29. Auk þess áttu rúmlega 30 smáskjálftar upptök við Krýsuvík, um 10 í nágrenni Fagradalsfjalls og þrír við Reykjanestá. Enginn náði tveimur stigum og voru þeir allir staðsettir á þekktum sprungum og jarðhitasvæðum. Tæplega 25 skjálftar mældust á Reykjaneshrygg. Sá stærsti var 3,2 að stærð þann 4. nóvember kl. 04:03 um fimm kílómetrum suðvestan Geirfugladrangs.

Jarðskjálftar á Reykjanesi í nóvember 2013

Suðurland

Á Hengilssvæðinu urðu rúmlega 120 jarðskjálftar við Húsmúla, stærstu 2,1 og 2,2 stig. Smáhrina varð í Hveradölum þann 22. nóvember. Alls var um tylft smáskjálfta staðsett þar, allir innan við 1,5 stig. Norðan Skeggja í Hengli mældist 2,4 stiga jarðskjálfti og nokkrir smáskjálftar þann 24. nóvember um kl. 13. Auk þess áttu nokkrir smáskjálftar upptök við Hrómundartind.

Fremur rólegt var á Suðurlandsundirlendinu. Tæplega 30 skjálftar mældust í Þrengslum og Ölfusi, þar af flestir á Krosssprungu sunnan Hveragerðis. Allir voru þeir minni en 1,5 stig. Um 25 smáskjálftar voru staðsettir á þekktum sprungum milli Ingólfsfjalls og Selsunds.

Norðurland

Um 150 jarðskjálftar mældust í Tjörnesbrotabeltinu norður af landi. Flestir áttu upptök í Öxarfirði eða um 60. Stærsti þar var 1,9 stig. Yfir 30 skjálftar urðu í Grímseyjarbeltinu, stærsti 2,2 stig. Á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu mældust yfir 50 skjálftar, stærsti 2,1. Flestir eða hátt í 40 mældust við Flatey á Skjálfanda. Dagana 23. - 24. nóvember varð smáhrina suðaustan eyjarinnar með yfir 20 skjálftum. Sjö skjálftar mældust norður á Kolbeinseyjarhrygg, stærsti 3,0 að stærð.

Um 20 smáskjálftar, um og innan við einn að stærð, áttu upptök á Þeistareykjasvæðinu. Aðeins fimm smáskjálftar, innan við einn að stærð, mældust á Kröflusvæðinu.

Hálendi

Frekar rólegt var í Vatnajökli, við Dyngjufjöll og við Herðubreið eða um 160 skjálftar samtals. Allt voru þetta skjálftar undir þremur að stærð. Í Vatnajökli var virknin aðallega á Lokahrygg, norðaustan í Bárðarbungu, við Esjufjöll og í Kverkfjöllum. Einnig mældust nokkrir litlir skjálftar við Þórðarhyrnu. Að morgni 20. nóvember kl. 03:40 - 06:10 mældist órói með 0,5 - 2 Hz tíðni undir suðvestanverðum Vatnajökli með mesta útslag á skjálftamæli á Grímsfjalli. Hugsanlega tengist þessi óróahrina jarðhitavirkni.

Órói í Vatnajökli

Nokkrir skjálftar mældust norðan við Dyngjufjöll ytri, en meginvirknin norðan Vatnajökuls var austan við Öskjuvatn. Einnig var smá hrina norðan Tungnafellsjökuls.

Mýrdalsjökull

Tæplega 100 skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli í mánuðinum. Rúmlega 40 voru staðsettir undir Kötluöskjunni. Flestir urðu við austanverðan öskjubarminn, nálægt sigkötlum 10 og 11, í tveimur skjálftahrinum þann 20. nóvember. Sú fyrri varð laust fyrir klukkan níu um morguninn en sú síðari um kvöldmatarleytið. Skjálftarnir voru á stærðarbilinu 0,8 - 1,4 og á um 25 kílómetra dýpi. Líklega hefur þessi virkni tengst kvikuhreyfingum en sambærileg virkni mældist á svipuðum slóðum í september í fyrra. Stærsti skjálftinn í jöklinum var tæp tvö stig og var hann í sunnanverðri öskjunni. Á þriðja tug skjálfta mældust undir vestanverðum jöklinum, allir um og innan við eitt stig. Tæplega 20 smáskjálftar mældust við Hafursárjökul í sunnanverðum Mýrdalsjökli. Aðrir skjálftar dreifðust um vestan- og sunnanverðan jökulinn.

Árla morguns 17. nóvember mældust fjórir skjálftar við Hjörleifshöfða, sá stærsti rúm tvö stig. Skjálftarnir voru á um og yfir 20 kílómetra dýpi sem er við neðri mörk stökku skorpunnar. Af og til sjást djúpir skjálftar á þessum slóðum. Síðast varð hrina þar þann 7. desember 2007. Nokkrir smáskjálftar mældust undir Eyjafjallajökli og 14 á Torfajökulssvæðinu, allir um og innan við einn að stærð. Einn lítill skjálfti varð undir suðvestanverðum Langjökli, nokkrir í nágrenni Skjaldbreiðar og þrír í Hofsjökli.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica