Fréttir

Niðurstöður fyrir Veðurstofu Íslands í úttekt um opinbera vefi 2013

Hvað er spunnið í opinbera vefi 2013?

29.11.2013

Nú í haust stóð innanríkisráðuneytið fyrir úttektinni Hvað er spunnið í opinbera vefi 2013? og voru niðurstöðurnar birtar í gær. Þetta er í fimmta skipti sem sambærileg úttekt er gerð, áður hafa þær verið gerðar 2005, 2007, 2009 og 2011.

Úttektinni er ætlað að veita heildstæða yfirsýn yfir það hvernig opinberir vefir uppfylla kröfur um innihald, nytsemi, aðgengi og rafræna þjónustu og gera opinberum aðilum grein fyrir stöðu sinni í samanburði við aðra. Markmiðið 2013 er að meta hvernig vefir hins opinbera standa og styðja við þróun rafrænnar þjónustu í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar: Vöxtur í krafti netsins - stefna um upplýsingasamfélagið 2013 –2016.

Niðurstöður um innihald, nytsemi, aðgengi og þjónustu hjá Veðurstofu Íslands voru:

  • Aðgengi: 100 af 100
  • Innihald: 100 af 100
  • Nytsemi: 100 af 100
  • Þjónusta: 75 af 100


Það er ánægjulegt að sjá að Veðurstofan fær fullt hús stiga fyrir aðgengi, innihald og nytsemi 2013, því þessir þættir skipta notendur okkar mestu máli. Lægri stigagjöf fyrir þjónustu kemur ekki á óvart því þar eru skoðuð gagnvirk eyðublöð, rafræn málsmeðferð og þess háttar sem vegur þyngra hjá öðrum stofnunum. Stig fyrir þjónustu hafa þó hækkað mikið úr síðustu könnun enda fór fésbókarsíða í loftið 11. nóvember 2012 og er hún mikil viðbót við þau vefform sem hafa verið vettvangur samskipta við notendur hingað til.

Veðurstofa Íslands kemur vel út í könnuninni og var fjórða hæst í flokki ríkisvefja sem voru alls 153. Vefurinn er opinber ríkisvefur og mjög mikið notaður. Starfsmönnum er umhugað um að þjóna notendum sínum sem best og fylgjast vel með stefnu ríkisstjórnarinnar fyrir upplýsingasamfélagið. Hér eru tenglar á úttektina:

Um aðgengi

Við útfærslu núverandi vefs fór mikil vinna í að gera aðgengið sem best. Unnið var náið með Hugsmiðjunni og Sjá að öllum þáttum aðgengismála. Sem dæmi mætti nefna að talsverð vinna fór í að gera staðaspákortin aðgengileg í skjálesurum sem blindir nota. Áður en vefurinn var formlega opnaður var hann settur í aðgengisvottun Sjá og Öryrkjabandalagsins og hlaut þar forgang II.

Nokkur styrr stóð um niðurstöður úttektar á aðgengismálum í könnuninni fyrir tveimur árum. En með endurbættum matsaðferðum hefur fengist nýtt jafnvægi og góð hvatning til að halda áfram á réttri braut.Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica