Fréttir
Hengill í janúar 2006
Hengill, 2006.

Endurheimt gagna frá norðurslóðum, fjöldavísindi og rannsóknasamvinna

Fjölþjóðlegur vinnufundur IASC á Veðurstofu Íslands

11.11.2013

Fjölþjóðlegur vinnufundur IASC, Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar, stendur nú yfir. Fundurinn er haldinn í Forgarði á Veðurstofu Íslands, Bústaðavegi 7, mánudaginn 11. og þriðjudaginn 12. nóvember.

Fundurinn snýst um endurheimt gagna frá norðurslóðum, fjöldavísindi og rannsóknasamvinnu. Heiti hans er Arctic data rescue, citizen-science, and collaborative research.

Umræðuefni

Rýr eða illtúlkanleg fortíðargögn þvælast fyrir framförum heimskautavísinda. Oft er erfitt að finna þau eða koma þeim í notkun. Mikillar handavinnu er þörf, eigi að koma gögnunum í nýtanlegt form.

Í þessum tilvikum er vélræn endurheimt eða greining gagnanna ekki möguleg. Á fundinum verður fjallað um margskonar gögn og upplýsingar og rætt um mögulegar og nýjar leiðir til að nýta þau við vísindarannsóknir, ekki síst þverfaglegar.

Meðal annars verður rætt hvernig megi sjá til þess að eldri gögn Veðurstofunnar, svo sem loftþrýstiathuganir og -síritar, vatna- og úrkomumælingar og fleira, komi að sem mestu gagni á alþjóðlegum vettvangi. Mikilvægt er að ná sem flestum alþjóðlegum þráðum varðandi þau mál þannig að íslensk gögn gleymist ekki.

Frekari upplýsingar eru á Arctic Rediscovery Project og IASC 2013.

Málefni til umræðu:

  • Mikilvægi norðurslóða fer vaxandi en mælingar, vöktun og þekking eru af skornum skammti. Hvaða gögn eru til og hvernig má nýta þau?
  • Hvernig á að nýta gögn sem ekki eru innan seilingar á rafrænan hátt? Handrit, skrár úr mælitækjum, ljósmyndir, hljóðupptökur, myndskeið; hvar er þetta efni og hvernig má nýta það?
  • Rannsóknir á norðurslóðum:  Örðugleikar og áskoranir á landi, hafi og í lofti.
  • Skilningur á langtímabreytingum á hafís norðurslóða.
  • Hvað einkennir árangursrík fjöldavísindi, þ.e.a.s. þekkingaröflun með aðstoð almennings? Hvað er það sem hvetur sjálfboðaliða til þátttöku?
  • Hvernig á að byggja upp verkefni á sviði fjöldavísinda? Nokkur dæmi verða skoðuð, m.a. Citizen-Archivist hjá Þjóðskjalasafni Bandaríkjanna og óháða vefsíðan Zooniverse.
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica