Hlaup úr Hofsjökli í ágúst 2013
Nýr sigketill staðfestur
Þann 21. ágúst 2013 urðu Skagfirðingar varir við mikinn brennisteinsþef úr Vestari-Jökulsá í Skagafirði og jafnframt var áin óvenjulega gruggug og grásilfruð á litinn. Starfsmenn Veðurstofunnar fóru á vettvang, tóku sýni af hlaupvatninu og gengu úr skugga um að það kom undan jökuljaðrinum í austustu upptakakvísl Vestari-Jökulsár. Hlaupið náði hámarki 24. ágúst en hjaðnaði svo á 3-4 dögum. Rennsli árinnar jókst ekki svo að vandræði hlytust af.
Þann 24. september barst mynd af Hofsjökli úr gervihnettinum Landsat 8 (sjá mynd, stækkanleg). Í norðanverðri brún jökulsins í um 1700 m y.s. mátti sjá flekk sem ekki var að vænta á þessum stað (sjá ör á myndinni).
Vinnuferð í október
Í haustmælingaferð Veðurstofunnar á Hofsjökul 9. október s.l. var svo staðfest að þar (~64°49,5‘N; 18°52‘V) var um 30 m djúpur sigketill, aflangur til vest-norðvesturs og um 700 metrar á lengri veginn. Yfirborð jökulsins þar var mikið sprungið.
Rúmmál ketilsins var áætlað um 106 m3 eða um ein milljón rúmmetra.
Gera má ráð fyrir að undir jöklinum á þessum stað sé jarðhitasvæði og þá væntanlega háhitasvæði. Ekki er ljóst hvort það er nýlegt eða gamalgróið. Oft hefur orðið vart brennisteinsfýlu við norðurjaðar jökulsins en ekki mælst jarðhitavatn í afrennslinu þar þrátt fyrir vandaðar mælingar. Leitað hefur verið að jarðhita undir jöklinum með viðnámsmælitækjum á árangurs.
Undanfarinn aldarfjórðung hafa starfsmenn Veðurstofunnar og Orkustofnunar farið um jökulinn tvisvar til fjórum sinnum á ári til mælinga. Samt hefur ekki áður orðið vart sigkatla af þessari gerð í Hofsjökli. Óvíst er hvort vænta megi hlaupa frá jarðhitasvæðinu á næstu árum.
Rétt er fyrir alla ferðamenn á Hofsjökli að hafa varann á ef farið er um þessar slóðir enda eru miklar sprungur umhverfis sigketilinn.
Hlaupið í ágúst


