Jarðskjálftar í janúar 2013
Rúmlega 700 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í mánuðinum. Það er nokkuð minni virkni en undanfarna mánuði og þarf að fara aftur til mars 2012 til að finna svipaðan fjölda skjálfta. Mesta virknin var úti fyrir Norðurlandi og nokkrar smáhrinur mældust bæði norðanlands og sunnan. Stærsti skjálftinn var 3,2 og varð hann 29. janúar um sjö kílómetrum vestan Flateyjar á Skjálfanda.
Á Reykjaneshrygg mældust 14 jarðskjálftar. Mesta virknin var við Geirfuglasker, en þar varð smáhrina níu skjálfta 3. janúar, allir í kringum tvö stig. Á Reykjanesskaga var mesta skjálftavirknin á Krýsuvíkursvæðinu sem endranær. Þar mældist á fjórða tug skjálfta. Stærsti skjálftinn, 25. janúar kl. 00:41, var um þrjú stig með upptök við Trölladyngju (um fjóra kílómetra ANA af Keili). Þrír eftirskjálftar mældust. Hann fannst vel í Hafnarfirði og víða á höfuðborgarsvæðinu. Nokkrir skjálftar mældust í nágrenni við Grindavík, stærstu um 1,5 stig. Norðan við Bláfjallaskála mældust tveir smáskjálftar, um og innan við einn að stærð.
Á Hengilssvæðinu mældist á fjórða tug skjálfta, flestir við Húsmúla. Stærsti skjálftinn á svæðinu var um tvö stig með upptök við Hrómundartind. Í Ölfusinu mældust rúmlega 20 skjálftar, flestir á Krosssprungu. Þeir voru um og undir einum að stærð. Á Suðurlandsundirlendinu mældist á fjórða tug skjálfta. Nokkrir smáskjálftar mældust við Ingólfsfjall. Tugur skjálfta átti upptök á Hestvatnssprungu, stærsti um 1,5 stig. Nokkrir smáskjálftar mældust á Holtasprungu og í Landssveit, allir um og innan við einn að stærð.
Undir Mýrdalsjökli mældust tæplega 80 jarðskjálftar. Þar af voru um 30 undir Kötluöskjunni og um 40 undir vesturhluta jökulsins. Stærstu skjálftarnir voru um tveir að stærð. Innan við tugur smáskjálfta var við Hafursárjökul. Á Torfajökulssvæðinu voru 36 jarðskjálftar og jókst virknin þar undir lok mánaðarins. Stærsti skjálftinn þar var 1,8 að stærð.
Við Þórisjökul og Geitlandsjökul í Langjökli voru fimm jarðskjálftar. Sá stærsti var tæplega tveir að stærð. Tveir smáskjálftar um 0,5 að stærð áttu upptök við Skjaldbreið. Þann 21. janúar voru tveir jarðskjálftar sem áttu upptök suðaustan við Grjótárvatn á Mýrum á Snæfellsnesi. Sá stærri var 1,9 að stærð.
Í Vatnajökli mældust um 145 jarðskjálftar í mánuðinum, þar af rúmur helmingur í Bárðarbungu. Stærsti skjálftinn var 2,4 að stærð, klukkan 23:26 þann 29. janúar. Við Kverkfjöll mældust 13 jarðskjálftar og 21 við Lokahrygg, austur af Hamrinum.
Undir lok mánaðarins mældust 13 jarðskjálftar nærri Fjórðungsöldu á Sprengisandi. Sá stærsti var 2,2 að stærð, aðfaranótt 29. janúar. Í Ódáðahrauni, norðan Vatnajökuls, mældust tæplega 50 jarðskjálftar. Þar af voru 16 jarðskjálftar við austurenda Öskjuvatns, 17 í nágrenni Herðubreiðar og 13 við norðurjaðar jökulsins nærri Kistufelli.
Á og úti fyrir Norðurlandi mældust tæplega 260 jarðskjálftar sem er mun minna en í síðasta mánuði þegar þeir voru rúmlega 500. Auk þess mældust fjórar líklegar sprengingar norðan Akureyrar. Um 130 skjálftar mældust í Eyjafjarðarál, þar sem virkni hefur verið viðvarandi frá því í október á síðasta ári. Stærsti skjálftinn var 3,1 að stærð þann 25. janúar kl. 23:43 og fannst hann á Siglufirði. Smáhrina hófst að morgni mánudagsins 7. janúar, um sjö kílómetrum norðaustan Grímseyjar og stóð hún yfir fram á kvöld. Á fjórða tug skjálfta mældist á þessu svæði, flestir í hrinunni. Stærsti skjálftinn var um tvö stig. Í Öxarfirði mældust rúmlega 30 skjálftar, stærsti rúm tvö stig. Klukkan 04:03 aðfaranótt 29. janúar hófst skjálftahrina um sjö kílómetrum vestan Flateyjar á Skjálfanda með skjálfta sem var 3,2 að stærð og fylgdu nokkrir eftirskjálftar í kjölfarið. Engar tilkynningar bárust um að sá stærsti hefði fundist. Þessi skjálfti var jafnframt stærsti skjálfti mánaðarins. Sjö smáskjálftar mældust við Kröflu.