Fréttir
Vetrarsnjór 13. janúar 2013.

Tíðarfar í janúar 2013

Stutt tíðarfarsyfirlit

1.2.2013

Mjög hlýtt var í janúar og var hann í hópi þeirra tíu hlýjustu sem mælst hafa á flestum veðurstöðvum landsins. Úrkomusamt var um meginhluta landsins nema á sumum stöðvum norðvestan- og norðanlands. Tíð var lengst af hagstæð en nokkurra daga hríðar- og krapaveður gekk yfir hluta Vestfjarða, Norður- og Austurlands seint í mánuðinum. Fokskaðar urðu þá á stöku stað.

Hiti

Óvenjuleg hlýindi voru í janúar. Í Reykjavík mældist meðahitinn 2,7 stig og er það 3,3 stigum ofan meðallags. Þetta er sjöundi hlýjasti janúar í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga 1870. Þarf að leita aftur til 1987 til að finna hlýrri janúarmánuð. Á Akureyri var meðalhitinn 1,0 stig og er það 3,2 stigum ofan meðallags. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 3,4 stig og -2,2 á Hveravöllum. Þar hefur aðeins tvisvar orðið hlýrra í janúar en nú, 1972 og 1973.

Meðaltöl og vik fleiri stöðva má sjá í töflu.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 2,7 3,3 7 143
Stykkishólmur 2,2 3,5 9 168
Bolungarvík 1,8 3,0 10 116
Akureyri 1,0 3,2 16 132
Egilsstaðir 1,6 4,0 4 58
Dalatangi 3,2 2,9 6 74
Teigarhorn 2,9 3,2 5 141
Höfn í Hornafirði 3,4
Kirkjubæjarklaustur 2,5 2,9 3 88
Stórhöfði 4,1 2,8 4. til 5. 136
Hveravellir  -2,2 4,0 3 47
Árnes 1,9 4,0 2 133

Hæstur var meðalhiti mánaðarins í Surtsey, 5,2 stig en lægstur í Sandbúðum -4,2 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Svartárkoti, -2,2, stig.

Hæsti hiti í mánuðinum mældist á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði þann 5., 14,2 stig. Lægsti hiti mánaðarins mældist -18,2 stig á Brúarjökli þann 14. Lægstur hiti í byggð mældist í Svarárkoti -17,9 stig þann 31. Lægstur hiti á mannaðri veðurstöð mældist á Grímsstöðum á fjöllum þann 26. -15,3 stig.

Úrkoma

Úrkoma í Reykjavík mældist alls 119,5 mm og er það 58% umfram meðallag. Enn meiri úrkoma var í janúar í fyrra. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 54,3 mm eða um 20% undir meðallagi. Á Akureyri mældist úrkoman 48,3 mm en það er um 13% undir meðallagi. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 207,6 mm og 289,7 á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Það er 80% umfram meðallag. Þar var úrkoman í janúar í fyrra enn meiri en nú – líkt og í Reykjavík.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 12,6 og er það um 9 stundum undir meðallagi. Sólskinsstundirnar mældust 7,2 á Akureyri; það er í meðallagi.

Snjólag

Snjóþungt var um landið norðanvert og en snjólétt syðra. Í Reykjavík töldust 5 dagar alhvítir en það er um 10 dögum færra en í meðalárferði. Á Akureyri var alhvítt 29 daga mánaðarins, sex dögum fleiri en að meðaltali á árunum 1971 til 2000. Alhvítir dagar hafa ekki verið jafnmargir á Akureyri í janúar síðan 1999. Þá var alhvítt allan mánuðinn.

Vindhraði og loftþrýstingur

Meðalvindhraði var um 0,5 m/s undir meðallagi síðustu 15 ára á mönnuðum og sjálfvirkum stöðvum en tæplega 1 m/s undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Allmikið illviðri gerði víða um land í kringum síðustu helgi mánaðarins.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 996,2 hPa og er það 4,1 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæsti þrýstingur mánaðarins mældist 1021,1 hPa á Gjögurflugvelli og Siglufirði þann 21. Lægstur mældist hann 953,3 hPa á Stórhöfða í Vestmannaeyjum þann 26.


Vindgerðir snjóboltar
Knattspyrnuvöllur í Keflavík 26. janúar 2013. Lesa má um tilurð vindgerðra snjóbolta í sérstakri fróðleiksgrein. Ljósmynd: Guðmundur Sigurðsson.

Skjöl fyrir janúarmánuð

Textaskjal: Meðalhiti á sjálfvirkum stöðvum í janúar 2013.

Þessi vefgrein sem pdf-skjal (0,2 Mb)



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica