Fréttir
Frá Ísafirði milli jóla og nýárs.

Tíðarfar í desember 2012

Stutt yfirlit

2.1.2013

Veður í desember var fremur hagstætt framan af en óhagstætt undir lokin. Síðustu dagar ársins voru snjóa- og illviðrasamir, einkum um norðan- og norðvestanvert landið. Hiti var vel ofan meðallags í flestum landshlutum, en þó aðeins í rétt rúmu meðallagi inn til landsins á Austurlandi.

Hiti

Hlýtt var um meginhluta landsins og var hiti vel ofan meðallags í flestum landshlutum en þó aðeins í rétt rúmu meðallagi inn til landsins á Austurlandi. Meðalhiti í Reykjavík var 1,2 stig og er það 1,4 stigum ofan meðallags. Á Akureyri mældist meðalhiti -1,3 stig og er það 0,6 stigum ofan meðallags. Meðalhita og vik fleiri stöðva má sjá í töflu.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 1,2 1,5 34 142
Stykkishólmur 0,5 1,3 54 168
Bolungarvík 0,4 1,4 35 115
Akureyri -1,3 0,6 63 til 64 131
Egilsstaðir -2,1 0,1 34 58
Dalatangi 1,5 0,9 31 75
Teigarhorn 1,1 1,2 50 140
Höfn í Hornafirði 1,5
Kirkjubæjarklaustur 0,9 1,3 28 87
Stórhöfði 2,9 1,5 28 136
Árnes 0,4 2,3 14 [133]
Hveravellir  -4,6 1,7 19 48

Hæstur var meðalhiti mánaðarins í Surtsey, 4,2 stig, en lægstur í Sandbúðum, -6,7 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -4,5 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 11,2 stig á Keflavíkurflugvelli þann 20. Þetta er reyndar grunsamleg tala, á sjálfvirku stöðinni fór hiti aðeins í 8,2 stig á sama tíma. Á sjálfvirkum stöðvum mældist hiti hæstur 10,8 stig en það var á Siglufirði og Lambavatni þann 20. Lægstur mældist hitinn í Svartárkoti þann 25., -24,6 stig. Lægstur hiti á mannaðri stöð mældist -20,0 stig. Það var á Grímsstöðum á Fjöllum þann 19.

Úrkoma

Úrkoma í Reykjavík mældist alls 96,6 mm og er það 23 prósent umfram meðallag. Nýtt dægurmet úrkomu var sett í mælireit Veðurstofunnar þegar sólarhringsúrkoman kl. 9 að morgni þann 29. mældist 54,6 mm. Þetta er litlu minna en eldra úrkomumet, en það er 56,7 mm frá 5. mars 1931. Þá var mælt við Skólavörðustíg. Á Akureyri mældist úrkoman í mánuðinum 50,8 mm og er það í rétt tæpu meðallagi.

Úrkoma mældist 35,7 mm í Stykkishólmi, aðeins helmingur meðalúrkomu, og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist úrkoman 195,4 mm og er það um 36 prósent umfram meðallag.

Úrkoma á Höfn í Hornafirði mældist 174,8 mm.

Óvenjuþurrviðrasamt var inn til landsins á Vesturlandi og vestan til á Norðurlandi.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 21,9. Það er 9,7 stundum yfir meðallagi. Ekkert sólskin mældist á Akureyri í mánuðinum. Það er mjög algengt þar í desember.

Snjólag

Snjóþungt var um landið norðanvert og á Vestfjörðum en tiltölulega snjólétt syðra. Í Reykjavík voru alhvítir dagar 6 og er það 7 dögum færra en var að meðaltali í desember á árunum 1971 til 2000. Á Akureyri var alhvítt 28 daga mánaðarins og er það 6 dögum fleiri heldur en að meðaltali 1971 til 2000.

Vindhraði og loftþrýstingur

Meðalvindhraði var lítillega yfir meðallagi síðustu 15 ára á mönnuðum og sjálfvirkum stöðvum, en undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Mikið illviðri með fannkomu gerði um landið norðvestanvert undir lok mánaðarins (29. og 30.).

 Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1001,7 hPa og er það 0,6 hPa ofan meðallags. Hæsti þrýstingur mánaðarins mældist á Egilsstaðaflugvelli þann 9., 1033,4 hPa, en lægstur mældist þrýstingurinn á Kirkjubæjarklaustri þann 29., 947,6 hPa.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica