Fréttir

Viðvörun vegna norðanstórhríðar á laugardag

Spá fyrir laugardaginn 29. desember 2012

27.12.2012

Veðurstofan varar við óveðri á Vestfjörðum á föstudagskvöld og á laugardag um allt land, sérstaklega norðantil. Ekkert ferðaveður verður á norðanverðu landinu.

Spáin er eftirfarandi:

Norðan 20-25 m/s og snjókoma á Vestfjörðum strax á föstudagskvöld en norðan 18-28 m/s um vestanvert landið á laugardagsmorgun. Hægari vindur austanlands. Talsverð eða mikil snjókoma eða slydda á N-verðu landinu og á Austfjörðum, slydda SA-lands, en annars úrkomulítið. Dregur úr vindi og ofankomu vestantil um kvöldið, en hvessir þá A-lands.

Víða hefur snjóað í fjalllendi undanfarna daga, einkum á Vestfjörðum og Austfjörðum, og snjóflóðahætta getur skapast hratt þegar hvessir. Þeim tilmælum er beint til skíðafólks, vélsleðamanna og annarra, sem eru á ferð á snjóflóðastöðum, að halda sig frá snjóflóðabrekkum og vera ekki á ferð þar sem snjóflóð geta fallið. Einnig er fólki bent á að stöðva ekki farartæki sín á vegarköflum þar sem hætta gæti verið á snjóflóðum.

Fólki er bent á að fylgjast náið með upplýsingum um veður og færð.

Vakthafandi veðurfræðingar eru Björn Sævar Einarsson og Kristín Hermannsdóttir.

Vaktahafandi snjóflóðasérfræðingur er Auður E. Kjartansdóttir.Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica