Fréttir
SM4 hitamælistafur frá POLS Engineering sem rekinn er af Vegagerðinni á upptakasvæði snjóflóða í Súðavíkurhlíð.
1 2

Snjóflóð fellur á snjódýptarmæli

Áreiðanlegustu mælarnir þróaðir hér á landi

19.11.2012

Milli kl. 03:57 og 04:07 aðfaranótt laugardagsins 17. nóvember 2012 féll snjóflóð úr Djúpagili í Súðavíkurhlíð og lokaði veginum. Flóðið lokaði af vöruflutningabíl og þurfti björgunarsveit að koma bílstjóranum til hjálpar og flytja hann til Súðavíkur en bíllinn var skilinn eftir og sóttur daginn eftir með aðstoð björgunarsveitarinnar.

Ofarlega í Djúpagili rekur Vegagerðin snjódýptarmæli sem þróaður hefur verið af Erni Ingólfssyni hjá fyrirtækinu POLS Engineering á Ísafirði í samstarfi við Veðurstofuna. Mælirinn, sem nefnist SM4 (sjá ljósmynd 1), mælir hita með 20 cm bili í snjóþekjunni og lofti næst ofan hennar, alls 320 cm langt lóðrétt hitasnið. Unnt er að meta snjódýpt með því að greina sveiflur hitanemanna með tíma. Hiti mældur af þeim nemum sem eru á kafi í snjó breytist hægar en hiti nemanna sem loft leikur um.

Hitasnið frá mælinum sýna atburðarásina í umræddu snjóflóði.

Áreiðanlegustu mælitækin

Veðurstofan og Vegagerðin reka níu SM4 snjódýptarmæla í fjallshlíðum í grennd við Bolungarvík, Ísafjörð, Siglufjörð, Ólafsfjörð, Seyðisfjörð og Neskaupstað og í Súðavíkurhlíð. Norska vegagerðin hefur jafnframt sett upp þrettán mæla (sjá ljósmynd 2) og tveir mælar eru reknir í Svíþjóð. Mælarnir hafa reynst áreiðanlegasta mælitæki sem völ er á til þess að mæla snjódýpt á upptakasvæðum snjóflóða hér á landi. Aðstæður á upptakasvæðunum eru erfiðar til þess að reka aðrar tegundir mælitækja vegna hvassviðris, ísingar og örðugleika á því að framleiða nægt rafmagn til þess að reka nema og fjarskiptabúnað.

Á vefsíðu SM4 mælanna, Snowsense, er unnt að skoða niðurstöður mælanna, bæði einstök hitasnið og mat á snjódýpt á mismunandi tímum. Niðurstöður norsku og sænsku mælanna er einnig hægt að skoða á vefsíðunni.

Nánari upplýsingar um SM4 snjódýptarmælinn er að finna í skýrslu eftir Hörpu Grímsdóttur og Örn Ingólfsson frá 2010.

Hitasnið sýna atburðarásina 17.11.2012

Myndirnar hér að neðan sýna nokkur hitasnið frá SM4 mælinum í Djúpagili í Súðavíkurhlíð, aðfaranótt laugardagsins 17. nóvember 2012. Sniðið kl. 03:57 er dæmigert og sýnir að snjódýpt er um 140 cm. Hitinn í lofti breytist lítið með hæð. Neðri hluti snjóþekjunnar er hlýrri en loftið vegna þess að hlýrra var við Ísafjarðardjúp þegar sá snjór féll fyrir nokkrum dögum eða vikum. Lofthitinn þarf langan tíma til þess að berast niður í gegnum snjó sem leiðir hita illa. Hitasnið frá því fyrr um nóttina eru svipuð þessu.


Kl. 04:07 er hitasniðið skyndilega orðið allt öðru vísi. Neðstu nemarnir kólna hratt en þeir efri hlýna (hringtáknin sýna hitann en línurnar breytinguna síðustu klukkustundina). Þetta stafar af því að snjóflóð féll á mastrið með hitanemunum og felldi það. Mastrið liggur væntanlega flatt ofan á snjónum neðar í hlíðinni þar sem loft er hlýrra en ofar en samt kaldara en snjórinn sem áður umlukti neðstu nemana neðarlega í snjóþekjunni. Þrátt fyrir þetta hélt hitastafurinn áfram að senda niðurstöður hitamælinganna næstu klukkustundirnar.


Næstu myndir sýna svo áframhaldandi hraðar breytingar í hita þegar nemarnir eru að nálgast hitann á yfirborði þar sem mastrið staðnæmdist. Síðustu myndirnar sýna svipaðan hita á öllum nemum og litlar hitasveiflur sem er væntanlega til marks um að mastrið hefur fennt á kaf í ofankomu og skafrenningi sem einkenndi veðrið á Vestfjörðum þennan laugardag.

Höfundur þessarar greinar er Tómas Jóhannesson.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica