Fréttir
Yfir Austmannsbungu á Mýrdalsjökli.

Tíðarfar í október 2012

Stutt yfirlit

7.11.2012

Mánuðurinn telst fremur hagstæður og hægviðrasamur. Lítill snjór var á láglendi. Hiti var nærri meðalagi um landið vestanvert, en annars lítillega undir því, mest rúmt eitt stig á Austurlandi. Ljósmyndin er úr vinnuferð á Mýrdalsjökli.

Hiti

Í heild var meðalhiti mánaðarins í meðallagi, rétt undir því þó um landið norðaustan- og austanvert. Meðalhiti í Reykjavík var 4,4 stig og er það í meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri var meðalhitinn 2,0 stig og er það 0,9 stigum undir meðallagi. Á Egilsstöðum var hiti 1,2 stigum undir meðallagi og 0,3 á Hveravöllum. Meðaltal fleiri stöðva má sjá í töflu.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 4,4 -0,1 75 142
Stykkishólmur 4,0 0,1 81 167
Bolungarvík 2,8 -0,6 76 115
Akureyri 2,0 -0,9 96 til 97 131
Egilsstaðir 1,9 -1,2 48 58
Dalatangi 3,9 -0,6 60 75
Teigarhorn 4,1 -0,3 79 til 80 140
Höfn í Hornafirði 4,4 -0,1
Kirkjubæjarklaustur 4,2 -0,3 60 87
Stórhöfði 5,2 0,2 59 til 61 135
Árnes 2,9 -0,7 [86] [132]
Hveravellir  -1,5 -0,3 36 48

Hæstur var meðalhiti í Surtsey, 6,3 stig, en lægstur á Brúarjökli, -4,1 stig. Í byggð var meðalhiti hæstur á Garðskagavita, 6,1 stig, en lægstur í Möðrudal, -1,4 stig. Hæsti hiti í mánuðinum mældist í Önundarhorni undir Eyjafjöllum þann 4. okt., 14,6 stig, en lægstur mældist hitinn á Brúarjökli þann 26., -19,8 stig, Daginn áður mældist mest frost í byggð -18,8 stig í Möðrudal. Mesta frost á mannaðri stöð mældist þann 26. á Grímsstöðum, -14,5 stig. Hæstur hiti á mannaðri stöð mældist 13,1 stig á Vatnsskarðshólum þann 4.

Úrkoma

Úrkoma í Reykjavík mældist 75,9 mm og er það um 88 prósent af meðalúrkomu. Á Akureyri mældist úrkoman 31,2 mm og er þetta þurrasti október þar í nærri 20 ár. Úrkoma mældist 88,2 mm á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og er það aðeins rúmur helmingur meðalúrkomu.

Sólskin

Sólskinsstundir mældust 121,7 í Reykjavík. Það er um 38 stundum umfram meðallag, það mesta í október frá 2006 að telja. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 83,2 og er það 31 stund umfram meðallag. Þetta er mesta sólskin á Akureyri í október síðan 1986.

Loftþrýstingur og vindhraði

Mánuðurinn var óvenju hægviðrasamur. Á landsvísu hefur meðalvindhraði ekki verið minni í október síðan 1960. Meðalvindhraði á sjálfvirku stöðvunum hefur aldrei orðið jafnlítill eða minni í október heldur en nú.

Loftþrýstingur var með hæsta móti, 9,3 hPa yfir meðallagi í Reykjavík. Þetta er hæsta meðalloftvægi í október síðan 2003.

Hæsti loftþrýstingur í mánuðinum mældist á Akureyri þann 26., 1039,0 hPa. Lægsti þrýstingur mánaðarins mældist 985,0 hPa á Kirkjubæjarklaustri þann 1.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica