Fréttir
Jarðskjálftahrinan heldur áfram
Jarðskjálftahrinan heldur áfram

Jarðskjálftahrinan í Eyjafjarðarál heldur áfram

23.10.2012

Jarðskjálftahrinan sem hófst á laugardag syðst í Eyjafjarðarál heldur áfram. Í gær, mánudaginn 22. október, mældust allnokkrir skjálftar á tímabilinu frá kl. 1:00 til 8:00 á svæði nokkru suðaustan við þann stað þar sem meginhrinan og 5,6 skjálftinn voru staðsett. Þeir voru því heldur nær Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Stærstu skjálftarnir þar, um 3,9 að stærð, urðu klukkan 5:25 og 5:32 í gærmorgun. Í gærkvöld (22. október) kl. 21:16 varð skjálfti af stærðinni 3,5  og í morgun (23. október) klukkan 5:27 mældist skjálfti af stærðinni 4,0  á svæðinu þar sem meginvirknin hefur verið og færðist hún því aftur til vesturs. Skjálftarnir eru hefðbundnir brotaskjálftar á flekaskilum og engin merki sjáanleg um eldvirkni.

Úrvinnsla 5,6 skjálftans sýnir að um siggengisskjálfta er að ræða, sem er einkennandi fyrir sigdal eins og Eyjafjarðarál, en á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu má búast við sniðgengisshreyfingum. Hvorki er hægt að segja fyrir um hve skjálftahrinan vari lengi né útiloka að skjálftar stærri en 4 eigi eftir að verða.

Þessi hrina er við vesturenda Húsavíkur-Flateyjarmisgengisins og ekki er útilokað að hrinan hafi áhrif á spennu umhverfis misgengið. Gliðnunin sem varð samfara Kröflueldum 1975-1984 varð til þess að spenna minnkaði á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Síðan þá hefur spenna verið að hlaðast upp.  Jarðskorpumælingar (GPS) á síðustu árum benda til þess að nægileg spenna sé til staðar fyrir skjálfta af stærðinni um 6,8 (Metzger o.fl., 2011). Stærstu skjálftar sem vitað er um á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu eru um 7 stig eins og skjálftarnir sem urðu 1755 og 1872.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica