Fréttir
Skýjafar
Skýjafar, séð frá Vesturlandsvegi að kvöldlagi í ágúst 2012.

Tíðarfar í ágúst 2012

Stutt yfirlit

3.9.2012

Mánuðurinn var hlýr um allt land, hlýjastur að tiltölu á Norður- og Vesturlandi, en suðaustanlands og sunnan til á Austfjörðum var hann ekki langt yfir meðallagi. Mjög þurrt var um landið norðvestanvert og er mánuðurinn í flokki þeirra þurrustu á þeim slóðum.

Hitafar

Óvenjuhlýtt var um stóran hluta landsins. Í Reykjavík og víðar á Suðvesturlandi var hann sá fjórði hlýjasti frá upphafi mælinga. Lítillega hlýrra var í ágúst 2003 og 2004 og ómarktækt hlýrra í ágúst 1889. Meðalhiti í Reykjavík var 12,3 stig. Meðalhitinn á Akureyri var 12,1 stig og er mánuðurinn sá tíundi hlýjasti frá upphafi mælinga þar um slóðir. Í Stykkishólmi var mánuðurinn sá sjöundi hlýjasti frá upphafi mælinga og sá sjötti hlýjasti í Bolungarvík. Að tiltölu var svalast suðaustanlands. Meðalhiti á Höfn í Hornafirði var 10,4 stig og er það 0,3 stigum ofan við meðallag. Á Teigarhorni við Berufjörð hafa 32 ágústmánuðir verið hlýrri frá upphafi mælinga þar 1873.

Niðurstöður frá fleiri stöðvum má sjá í töflu. Þar má einnig sjá hvar mánuðurinn raðast í meðalhitaröð allra ágústmánaða, frá þeim hlýjasta talið.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 12,3 2,1 4 142
Stykkishólmur 11,5 1,8 7 167
Bolungarvík 11,0 2,3 6 115
Akureyri 12,1 2,2 10 131
Egilsstaðir 10,2 1,1 16 til 17 57
Dalatangi 9,6 1,2 15 73
Teigarhorn 9,4 0,6 33 til 34 140
Höfn í Hornaf. 10,4 0,3
Kirkjubæjarklaustur 11,5 1,1 17 til 18 86
Stórhöfði 11,1 1,5 8 135
Árnes 12,1 1,9 [4] [131]
Hveravellir  8,7 2,5 3 47


Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Þyrli í Hvalfirði, 12,8 stig, og næsthæstur á Garðskagavita og á Reykjavíkurflugvelli, 12,5 stig. Mánaðarmeðalhitinn var lægstur á Brúarjökli, 3,2 stig. Á láglendi var meðalhiti lægstur í Seley, 8,5 stig, og 8,6 á Kambanesi.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 28,0 stig á Eskifirði þann 9. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist þann 10. á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði, 26,2 stig.

Lægsti hiti mánaðarins mældist á Brúsastöðum í Vatnsdal þann 26, -5,3 stig. Sömu nótt mældist lægsti hiti á mannaðri veðurstöð, -3,3 stig á Torfum í Eyjafirði.

Fjögur landsdægurmet féllu í mánuðinum. Það var í hitabylgjunni austanlands þann 9. þegar hiti fór í 28,0 stig á Eskifirði, eins og nefnt var að ofan. Eldra met var sett á Hjarðarlandi í Biskupstungum 2004. Viku síðar, þann 16., fór hiti í 24,8 stig á Þingvöllum og ýtti úr sessi gömlu dægurmeti frá Teigarhorni sem staðið hafði allt frá 1940.

Lágmarkið á Brúsastöðum, sem nefnt var hér að ofan, er lægsti hiti sem mælst hefur á landinu þann 26. ágúst. Eldra met var úr Árnesi frá 2005. Þann 30. fór hiti niður í -4,5 stig á Þingvöllum – eldra met var frá Hveravöllum 1982.

Úrkoma

Mjög þurrt var víða um landið norðan- og norðvestanvert og úrkoma var víðast hvar undir meðallagi, nema á litlu svæði suðvestanlands.

Úrkoma í Reykjavík mældist 66,4 mm og er það sjö prósent umfram meðallag. Dagar þar sem úrkoma mældist 1 mm eða meira voru þó þremur færri en í meðalágústmánuði. Úrkoma mældist aðeins 8,4 mm á Akureyri. Það er um fjórðungur meðalúrkomu en svo lítil úrkoma hefur ekki mælst í ágúst á Akureyri síðan 1960. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 64,3 mm. Það er í rétt rúmu meðallagi.

Sólskinsstundir

Í Reykjavík mældust 164 sólskinsstundir í mánuðinum og er það 9 stundum umfram meðaltal áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 194,3. Sólskinsstundirnar á Akureyri hafa aðeins einu sinni mælst fleiri í ágúst en nú. Það var árið 2004, í ágúst 1975 voru þær aðeins sjónarmun færri en nú, 192,8.

Sólskinsstundir í Reykjavík síðustu fjóra mánuði eru 1001 – og hafa aldrei orðið fleiri á þessum tíma. Sama á við á Akureyri. Þar eru þessir fjórir mánuðir í ár (977 stundir) reyndar langt fyrir ofan næstflesta sólskinsstundafjöldann (801 árið 2000).

Loftþrýstingur og vindhraði

Meðalloftþrýsingur í Reykjavík var 1010,5 hPa og er það 1,9 hPa yfir meðallagi.

 Loftþrýstingur mældist hæstur á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði þann 18., 1020,1 hPa, en lægstur í Bolungarvík þann 31., 986,9 hPa.

 Vindhraði var í meðallagi.

Tímabilið júní til ágúst

Sumarið á landinu hefur, til ágústloka, verið mjög hlýtt. Í Reykjavík hafa þessir mánuðir aðeins tvisvar sinnum verið hlýrri. Það var 2010 og 2003. Ómarktækur munur er niður í fjórða og fimmta sætið en þau verma 1880 og 1939.

Í Stykkishólmi er tímabilið júní til ágúst í fjórða til sjötta sæti hlýinda, ásamt 1939 og 2004. Lítillega hlýrra var 2010, 1880 og 2003.

Í Vestmannaeyjum var lítillega hlýrra 2003 og 2010 heldur en nú, en jafnhlýtt 1880 og er því tímabilið júní til ágúst í þriðja til fjórða hlýjasta sætinu.

Á Akureyri eru fleiri tímabil júní til ágúst hlýrri en nú heldur en á hinum stöðvunum sem nefndar hafa verið og sömuleiðis á Austurlandi.

Í Reykjavík var mjög þurrt langt fram eftir sumri og úrkoma í júní til ágúst aðeins um 70 prósent af meðalúrkomu. Enn þurrara hefur verið fyrir norðan og úrkoma á Akureyri innan við helmingur meðalúrkomu. Úrkoma hefur aldrei orðið jafnlítil í þessum þremur mánuðum á Akureyri síðan samfelldar úrkomumælingar hófust þar 1928. Úrkoma var mæld á Möðruvöllum í Hörgárdal frá hausti 1913 til vors 1925. Sérlega þurrt var á þessum slóðum í júní til ágúst 1915 og 1916 og úrkoma þá hugsanlega minni en nú á Akureyri.

Fyrstu átta mánuðir ársins 2012

Mjög hlýtt hefur verið á landinu það sem af er ári. Fyrstu átta mánuðirnir hafa aðeins fjórum sinnum verið hlýrri í Reykjavík (mælingar frá 1871). Það var 2003, 1964, 1929 og 2010. Í Stykkishólmi hafa fyrstu átta mánuðirnir aðeins einu sinni verið hlýrri en nú. Það var árið 2003, en ekki er marktækur munur á árinu í ár og árnunum 2010 og 1929.

Á Akureyri hefur tvisvar verið lítillega hlýrra heldur en nú, 2003 og 2004, og jafnhlýtt, 1964, 1933 og 1929. Tímabilið er í fimmta hlýjasta sætinu í Vestmannaeyjum ásamt 1964. Lítillega hlýrra var 2003, 2010, 1929 og 2004. Á Teigarhorni eru hlýindin nú neðar á lista, reiknast í 17. til 18. sæti af 140.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica