Fréttir

Hlaup úr vestari Skaftárkatli

31.8.2012

Fyrir viku síðan sást ísskjálftavirkni á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar á Grímsfjalli, Skrokköldu og Jökulheimum en erfitt var að staðsetja þá skjálfta nákvæmlega. Einnig varð vart við aukningu á rafleiðni í Skaftá við Sveinstind.

Myndband tekið í gær, 30. ágúst, af Jóni Grétari Sigurðssyni flugmanni Atlantsflugs, staðfestir að hlaup hefur komið frá vestari Skaftárkatli. Hlaup frá vestari katlinum eru minni en hlaup frá eystri katlinum og því einnig hættuminni. Það er þó mælt með því að fólk fari ekki að útfalli hlaupsins þar sem hætta er á brennisteinsgasi á því svæði.

Vísbendingar um hlaupið hafa verið greinilegar síðan 25. ágúst. Hlaupið er lítið og vatnið hefur verið nokkra daga að ferðast undir Vatnajökli, sem er lengri tími en vant er. Vatnsrennsli Skaftár við Sveinstind var seinnipartinn í gær um 180 rúmmetrar á sekúndu, og mun flóðið væntanlega ekki verða mikið stærra en það. Síðast hljóp frá vestari katlinum í júlí 2011.

Veðurstofan hefur fengið tilkynningar um brennisteinslykt við Hverfisfljót, sem rennur úr Síðujökli. Myndbandsupptaka úr flugvél sem flaug yfir sporð Síðujökuls í dag benda einnig til þess að eitthvað af hlaupvatninu hafi farið í Hverfisfljót. Meðal annars sáust nokkrir litlir ísjakar á floti í ánni nálægt jökuljaðri og brennisteinslykt var sterkust við útfallið. Kunnugt er um einn stað undir vestanverðum Vatnajökli, þar sem hlaupvatn á ferð um jökulbotninn getur flæmst af vatnasviði Skaftár yfir á vatnasvið Hverfisfljóts og er þekkt eitt sambærilegt dæmi um þetta, við stórt hlaup frá eystri Skaftárkatli árið 1995.

Veðurstofan starfrækir vatnamælistöð við Hverfisfljót. Mældar vatnshæðarbreytingar í Hverfisfljóti verða skoðaðar ítarlega og starfsmenn Veðurstofu fylgjast náið með þróuninni.

Lesa má um jökulhlaup frá vestari Skaftárkatli í fróðleiksgrein frá 2009.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica