Fréttir
Jarðskjálftar í júlí 2012
Jarðskjálftar í júlí 2012

Jarðskjálftar í júlí 2012

16.8.2012

Hátt í 1500 skjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofunnar í júlí. Stærstu skjálftarnir áttu upptök við Jan Mayen, en á og við landið urðu nokkrir um og yfir þrjú stig að stærð. Þeir áttu upptök norður af Tjörnesi, undir Ingólfsfjalli, í Kötluöskju og undir suðvestanverðum Langjökli. Ingólfsfjallsskjálftinn fannst í nágrenninu.

Tæplega 40 skjálftar voru staðsettir í nágrenni Kleifarvatns og nokkrir vestar á Reykjanesskaganum. Á Reykjaneshrygg mældust tæpir þrír tugir skjálfta, sá stærsti 2,5 stig. Sunnudagskvöldið 8. júlí hófst smáhrina vestan Vífilsfells og mældust 20 skjálftar, allir litlir, fram til mánudagsmorguns. Mikil virkni var í norðanverðu Ingólfsfjalli, einkum fyrri helming mánaðarins. Hátt í 250 skjálftar voru staðsettir og er þetta framhald skjálftavirkninnar sem hófst á þessum stað undir lok júnímánaðar. Flestir voru skjálftarnir smáir en þann 8. júlí kl. 12:20 varð skjálfti sem var rúm þrjú stig og fannst hann meðal annars í Hveragerði og á Selfossi. Rétt um 80 skjálftar voru staðsettir á Kross- og Ingólfsfjallssprungunum í Ölfusi sem hrukku 29. maí 2008. Rólegt var á niðurdælingarsvæði Orkuveitunnar á Hellisheiði.

Um 250 skjálftar voru staðsettir í Mýrdalsjökli, heldur færri en í síðasta mánuði þegar hátt á fjórða hundrað skjálfta mældist. Mesta virknin var innan Kötluöskjunnar, tæplega 160 skjálftar, og meiri virkni í nyrðri hluta hennar en þeim syðri. Stærsti skjálftinn, um þrír að stærð, varð 18. júlí kl. 19:45 í vestanverðri öskjunni. Sjö eftirskjálftar fylgdu strax í kjölfarið, allir minni en 1,5. Skjálftarnir voru allir grunnir og líklega  jarðhitatengdir. Við Hafursárjökul voru staðsettir 35 skjálftar, álíka margir og í júní.

Lítið hlaup varð í Leirá 11. júlí og náði það allt til Skálmar. Sennilega hefur orðið smáhlaup úr katli 12 sem er  lítill sigketill norðvestan við vestari Kötlukoll. Að morgni 18. júlí bárust tilkynningar um mikla brennisteinslykt  í Húsadal og jafnvel alveg niður á Hvolsvöll. Smá vatnshæðar- og leiðniaukning sást á mælinum í Markarfljóti við Einhyrningsflatir. Ekki var hægt að sjá merki um aukna skjálftavirkni fyrir þessi flóð enda bæði í smærri kantinum. Tæplega 60 skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu, allir smáir, og er það talsvert meiri virkni en í síðasta mánuði  þegar 26 skjálftar mældust. 

Þann 11. júlí mældust sjö skjálftar í suðvestanverðum Langjökli, skammt norðan Geitlandsjökuls, og einn degi síðar. Stærsti skjálftinn, sem jafnframt var sá fyrsti, varð laust fyrir klukkan níu um morguninn, um þrír að stærð. Engar tilkynningar bárust um að hann hefði fundist. Dagana 9. til 11. júlí mældust sjö skjálftar undir austanverðum öskjubarmi Skjaldbreiðar, stærsti 1,5 að stærð. 

Um 130 skjálftar mældust undir Vatnajökli, fleiri en síðustu mánuðina. Flestir skjálftarnir urðu við Hamarinn, allir innan við tvö stig að stærð. Dagana 11. og 12. júlí komu margir smáskjálftar fram á mælum á svæðinu, en bylgjurnar voru óskýrar og því erfitt að staðsetja þá. Það skýrir dreifðina í staðsetningum sem sést á kortinu. Undir Bárðarbungu og við Kistufell mældust um 20 skjálftar og um tugur við Kverkfjöll, allir innan við tvö stig að stærð. Einn skjálfti átti upptök undir Öræfajökli, um eitt stig, og tveir við Grænalón dagana 4. og 5. júlí, báðir um eitt stig. Fjórir skjálftar mældust vestan Esjufjalla, milli einn og tveir að stærð.

Sex skjálftar áttu upptök undir Tungnafellsjökli dagana 10. og 12. júlí, sem mældust innan við tvo að stærð. Á þriðja tug skjálfta mældist undir Sprengisandi, stærðir þeirra voru einnig undir tveimur. Flestir voru vestan við Fjórðungsöldu og svo norðnorðaustan við hana. Í júní var talsverð skjálftavirkni sunnan við Fjórðungsöldu.

Yfir 20 skjálftar áttu upptök undir Dyngjufjöllum, flestir austan við Öskjuvatn á nokkurra kílómetra dýpi. Um 40 skjálftar mældust við Herðubreið og Herðubreiðartögl, stærstu rúmlega tvö stig. Um tugur skjálfta mældist við Hlaupfell og nokkrir smáskjálftar við Eyjabakka.

Á fjórða hundrað skjálfta mældist norður af landinu. Hátt í 100 skjálftar áttu upptök á svæðinu í kringum Grímsey. Helsta virknin var um tíu kílómetrum norðnorðaustur af eyjunni fyrstu daga mánaðarins og síðan 26. júlí þegar 45 skjálftar mældust. Stærsti skjálftinn var 2,4 stig. Skjálftavirkni í Öxarfirði var viðvarandi eins og vanalegt er. Um hundrað skjálftar mældust, stærsti 2,6 stig. Að kvöldi 23. júlí mældust tíu skjálftar um 20 kílómetra norður af Tjörnesi. Stærsti skjálftinn var um 3,5 að stærð. Tugir skjálfta áttu upptök úti fyrir mynni Eyjafjarðar og nokkrir undir Skjálfandaflóa.

Eins og í júní mældist skjálftavirkni af og til norður á Kolbeinseyjarhrygg. Stærsti skjálftinn var yfir þrjú stig. Átta skjálftar, milli 3 og 4 að stærð, mældust við Jan Mayen í mánuðinum.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica