Fréttir
foss fellur fram af dökkum klettavegg
Öxarárfoss.

Verkefnið Safetravel

Öryggismál í ferðamennsku

21.6.2012

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur beitt sér fyrir forvörnum í ferðamennsku undanfarin ár, meðal annars með því auka samvinnu þeirra er koma að öryggi ferðafólks. Vefsíðan Safetravel er rekin af Slysavarnafélaginu Landsbjörg og er hluti af stærra verkefni sem einfaldlega kallast Safetravel. Þar taka höndum saman opinberar stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar sem hafa það að markmiði að bæta forvarnir og minnka slys í ferðamennsku og ferðaþjónustu hér á landi. Veðurstofan hefur komið að verkefninu frá upphafi.

Verkefnið nýtur stuðnings fjölda fyrirtækja en er stýrt frá skrifstofu Slysavarnafélagins Landsbjargar enda er innan raða félagsins fjöldi einstaklinga með yfirgripsmikla þekkingu á landinu og ferðalögum við ýmsar aðstæður.

SOS Iceland

Nýjung fyrir öryggi ferðamanna er snjallsímaforritið SOS Iceland sem er einfalt í notkun; annarsvegar er hægt að kalla á aðstoð ef um slys eða óhapp er að ræða og hinsvegar er hægt skilja eftir slóð sem nýtist ef óttast er um afdrif viðkomandi og leit þarf að fara fram.

Forritið má nota bæði hérlendis og erlendis og frekari upplýsingar má fá á vefsíðu Safetravel. Ekki er þörf á gagnasambandi til að nota forritið, hefðbundið GSM samband dugar.

Forritið leysir ekki af hólmi önnur öryggistæki eins og neyðarsenda og talstöðvar, það er fyrst og fremst viðbót sem nýtist þeim sem nota snjallsíma. Að skilja eftir ferðaáætlun er enn í fullu gildi.

Ferðaáætlun

Áður en lagt er í ferð á ávallt að gera ferðaáætlun og skilja eftir hjá tengilið eða ættingja sem skal bregðast við ef viðkomandi skilar sér ekki á réttum tíma. Slíkt eykur öryggi allra ferðalanga og getur lágmarkað tjón ef slys verður. Ferðaáætlun ætti að innihalda eftirfarandi upplýsingar:

  • Dagsetningu ferðar, brottfarartíma og áætlaðan komutíma
  • Nöfn ferðalanga og símanúmer eða önnur fjarskiptatæki
  • Gististaðir (GPS staðsetningar) og aðra stærri viðkomustaði
  • Helsta búnað ferðalanga
  • Varaáætlun, hvað ferðalangar ætla að gera ef forsendur breytast

bíll í straumhörðu vatni

Lesa má eldri fréttir um upphaf Safetravel, 2011 og 2010.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica