Fréttir
í rútu í björtu veðri
Vorferð starfsmanna í björtu veðri í maí 2012.

Tíðarfar í maí 2012

Stutt yfirlit

1.6.2012

 

Mánuðurinn var mjög kaflaskiptur. Hlýtt var fyrstu tvo dagana en síðan gerði kuldakast sem stóð nær samfellt fram til 21. Þá hlýnaði og síðustu vikuna var mjög hlýtt um meginhluta landsins. Hiti komst m.a. yfir 20 stig sex daga í röð, 25. til 30. Suma þessa daga var kalt allra austast á landinu. Sérlega sólríkt var í Reykjavík og á Akureyri.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík mældist 6,3 stig og er það í meðallagi. Á Akureyri var meðalhitinn 5,9 stig og er það 0,4 stigum ofan meðallags. Meðalhiti á Höfn í Hornafirði var 5,6 stig eða 0,7 stigum neðan meðallags og 1,3 stig á Hveravöllum, 1,1 stig ofan meðallags. Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflu. Þar má einnig sjá hvar mánuðurinn raðast í meðalhitaröð, frá þeim hlýjasta.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 6,3 0,0 72 til 73 142
Stykkishólmur 5,9 1,0 49 167
Bolungarvík 4,9 1,0 43 115
Akureyri 5,9 0,4 60 131
Egilsstaðir 4,6 -0,3 37 57
Dalatangi 3,8 0,4 42 73
Teigarhorn 4,4 -0,1 72 140
Höfn í Hornafirði 5,6
Kirkjubæjarklaustur 6,4 0,0 53 86
Árnes 6,0 -0,1 71 [131]
Stórhöfði 5,8 -0,1 83 135
Hveravellir  1,3 1,1 16 47

Hæsti meðalhiti mánaðarins mældist 6,9 stig á Garðskagavita og aðeins sjónarmun lægri í Önundarhorni undir Eyjafjöllum. Lægstur var meðalhitinn á Gagnheiði, -2,3 stig. Meðalhiti í byggð var lægstur í Möðrudal, 2,6 stig.  

Hæsti hiti mánaðarins mældist á Kollaleiru í Reyðarfirði þann 26., 22,0 stig, hæsti hiti á mannaðri stöð mældist sama dag á Skjaldþinggstöðum í Vopnafirði 21,8 stig.

Lægsti hiti mánaðarins mældist -16,6 stig. Það var á Brúarjökli þann 17. Lægsti hiti í byggð mældist -10,1 stig á Þingvöllum þann 9. Lægsti hiti á mannaðri veðustöð mældist á Grímsstöðum á Fjöllum þ.2, -16,8 stig.

Þrjú dægurlandslágmarkshitamet voru slegin í mánuðinum. Þann 7. mældist lágmarkið í Setri -13,7 stig (eldra met frá Skriðulandi í Skagafirði árið 1949, -13,4°C), þann 17. var mældist lágmarkið -16,6 stig á Brúarjökli (eldra met einnig frá Brúarjökli árið 2006, -11.0°C) og þann 18. mældist lágmarkið á Brúarjökli -13,1 stig (eldra met frá Hveravöllum árið 1979, -11,9 stig). 

Úrkoma

Úrkoma var talsvert undir meðallagi um landið sunnanvert en lítillega yfir því sums staðar allra austast á landinu. Úrkoma var einnig undir meðallagi víða á Vestur- og Norðurlandi. Í Reykjavík mældist hún 19,4 mm eða 44 prósent meðalúrkomu. Úrkoma mældist minni en þetta í maí 2005. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 33,5 mm og er það í meðallagi. Á Akureyri komu 12,4 mm í mælinn í maí og er það 64 prósent meðalúrkomu, það minnsta síðan 2005. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist úrkoman 50,9 mm og er það helmingur meðalúrkomu. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman í mánuðinum 70,1 mm.

Snjóalög

Nokkuð snjóaði um landið norðanvert í kuldakastinu. Snjódýpt mældist 35 cm á Svínafelli á Úthéraði 15. og 16. og 30 cm í Neskaupstað þann 15. Ekki er vitað um jafnmikinn snjó í maí í Neskaupstað. Alhvítt var tvo daga á Akureyri. Ekki hefur orðið alhvítt í maí á Akureyri síðan 2006. Alautt var í Reykjavík allan mánuðinn.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 296,3 og er það 104 stundum umfram meðallag. Sólskinsstundir hafa aðeins fjórum sinnum orðið fleiri í maí í Reykjavík, síðast 2005.

Sérlega sólríkt var einnig á Akureyri. Þar mældust sólskinsstundirnar 287,4 eða nærri því jafnmargar og þær hafa flestar orðið áður í maí. Það var í maí 1968 sem sólskinsstundirnar á Akureyri mældust 290,8. Nú skein sól á Akureyri 114 stundir umfram meðallag í maí.

Loftþrýstingur og vindhraði

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1019,0 hPa og er það 6,5 hPa yfir meðallagi. Meðalþrýstingur hefur ekki verið jafnhár í maí síðan 1993. Hæsti þrýstingur mánaðarins mældist 1031,3 hPa í Bolungarvík þann 15. Lægstur þrýstingur mældist 988,1 hPa á Kirkjubæjarklaustri þann 13.

Vindhraði í byggð var um 0,3 m/s undir meðallagi áranna 1961 til 1990 en í meðallagi síðustu 15 ára.

Vorið (apríl og maí)

Meðalhiti í Reykjavík var 0,7 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 en 0,3 stigum undir meðallagi áranna 2001 til 2010. Á Akureyri var meðalhiti vorsins 0,4 stigum ofan meðalags 1961 til 1990 en 0,5 undir meðaltalinu 2001 til 2010.

Úrkoma vorsins í Reykjavík var fjórðungi undir meðallagi, en fimmtungi undir því á Akureyri.

Fyrstu fimm mánuðir ársins

Fyrstu fimm mánuðir ársins hafa verið hlýir. Í Reykjavík er þessi tími í 9. til 10. hlýindasæti frá upphafi mælinga og á Akureyri eru hefur það aðeins gerst 5 sinnum áður að hiti í janúar til maí hafi verið hlýrri en nú, síðast árið 2003.

Þrátt fyrir að vorið hafi verið þurrt jafngildir heildarúrkoma í Reykjavík í janúar til maí um 60 prósentum af meðalúrkomu ársins alls. Ámóta árangri var náð á sama tíma í fyrra en síðan þarf að fara aftur til ársins 1992 til að finna meiri úrkomu heldur en nú fyrstu fimm mánuði ársins. Á Akureyri er úrkoman það sem af er árinu lítillega yfir meðallagi. 



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica