Fréttir
Frá Akureyri
Frá Akureyri.

Tíðarfar í apríl 2012

Stutt yfirlit

2.5.2012

Tíðarfar í apríl var hagstætt um meginhluta landsins. Þó var frekar svalt við austurströndina. Mjög þurrt var víða um landið sunnanvert. Apríl var kaldari en mars á svæðinu frá norðanverðum Vestfjörðum austur um Norðurland og suður til Hornafjarðar.

Hiti

Hiti var undir meðallagi austast á landinu en annars yfir því. Hlýjast var að tiltölu vestanlands og á hálendinu vestanverðu. Þar var hiti 1,3 til 1,8 stigum yfir meðallagi. Meðalhiti í Reykjavík mældist 4,3 stig og er það 1,4 stigum ofan meðallags. Á Akureyri var meðalhitinn 2,2 stig sem er 0,5 stigum ofan meðallags. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 3,1 stig og -1,6 á Hveravöllum. Sjá má meðalhita og vik á fleiri stöðvum í töflu.

Meðalhiti og vik í apríl 2012

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 4,3 1,4 27 142
Stykkishólmur 3,5 1,9 23 167
Bolungarvík 1,8 1,1 35 115
Akureyri 2,2 0,5 50 til 51 131
Egilsstaðir 0,8 -0,4 36 57
Dalatangi 0,9 -0,6 54 73
Teigarhorn 1,7 -0,6 83 140
Höfn í Hornaf. 3,1
Kirkjubæjarklaustur 4,1 1,0 26 86
Árnes 3,4 1,3 [27] [131]
Stórhöfði 4,2 0,8 38 til 39 135
Hveravellir  -1,6 1,8 10 47

Um austurhluta landsins og víðast norðanlands var apríl talsvert kaldari heldur en mars. Mestu munaði á Dalatanga, 2,7 stigum. Sjaldgæft er að munur á mánuðunum sé svo mikill á þennan veg og hefur reyndar aðeins tvisvar orðið meiri en 2,7 stig eftir 1960, á Brú á Jökuldal 1991 og í Fagradal í Vopnafirði 1964. Aprílmánuðir áranna 1959, 1953 og 1948 voru meir en 2,7 stigum kaldari heldur en mars víða um land. Árið 1953 var meðalhiti í apríl 5,1 stigi lægri heldur en í mars á Teigarhorni.

Hæsti meðalhiti mánaðarins mældist 5,1 stig á Garðskagavita og í Surtsey. Lægstur var meðalhitinn á Gagnheiði, -5,3 stig. Meðalhiti í byggð var lægstur í Möðrudal, -1,5 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist á Hallormsstað þann 30., 18,2 stig. Hæsti hiti á mannaðri veðurstöð mældist á Torfum í Eyjafirði sama dag, 17,2 stig.

Lægsti hiti mánaðarins mældist -25,7 stig. Það var á Brúarjökli þann 2. Lægsti hiti í byggð mældist -17,7 stig á Brú á Jökuldal þann 3. Lægsti hiti á mannaðri veðurstöð mældist á Grímsstöðum á Fjöllum þann 2, -16,8 stig.

Tvö dægurlandslágmarkshitamet voru slegin í mánuðinum. Þann 3. mældist lágmarkið á Brúarjökli -22,9 stig (eldra met frá Möðrudal árið 1986) og þann 26. var lágmark á sama stað -19,6 stig (eldra met frá Setri árið 2000).

Úrkoma

Víðast hvar var í þurrara lagi á Suðvestur- og Vesturlandi. Í Reykjavík mældist úrkoma þó í meðallagi, 59,7 mm. Á Akureyri mældist úrkoma 26,1 mm og er það um 10 prósent undir meðallagi. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman aðeins 17,6 mm og hefur ekki verið jafnþurrt í apríl á þeim slóðum síðan 1978, úrkoma var þó litlu meiri í apríl 2008. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist úrkoman 41,3 mm og er það um 35 prósent meðalúrkomu. Þetta er þurrasti apríl á Stórhöfða síðan 1998. Úrkoma í Stykkishólmi mældist 31,8 mm sem er 60 prósent af meðallagi aprílmánaðar.

Snjóalög

Snjólétt var á landinu. Aldrei varð alhvítt í Reykjavík en að meðaltali er þar alhvítt í 3 daga í apríl. Ekki varð heldur alhvítt á Akureyri í apríl en að meðaltali eru þar 11 alhvítir dagar í þeim mánuði.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 153,5 og er það 13 stundum umfram meðallag. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 134,8 eða 5 stundum fleiri en í meðalári.

Loftþrýstingur og vindhraði

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1013,6 hPa og er það 3,1 hPa yfir meðallagi. Hæsti þrýstingur mánaðarins mældist 1026,6 hPa á Dalatanga þann 15. Lægstur þrýstingur mældist 978,8 hPa á Höfn í Hornafirði þann 9.

Vindhraði í byggð var um 0,9 m/s undir meðallagi. Er þetta hægviðrasamasti apríl síðan 1998 en þá var meðalvindhraði jafn og nú.

Fyrstu fjórir mánuðir ársins

Hlýtt hefur verið það sem af er árinu. Meðalhitinn í Reykjavík er 2,6 stig og er það 1,8 stigum yfir meðallagi. Fyrstu fjórir mánuðir ársins hafa aðeins sex sinnum verið hlýrri í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga 1870. Það var 1926, 1972 og 1974, en í þau skipti var hiti aðeins lítillega hærri en nú, og 2003, 1929 og 1964 þegar talsvert hlýrra var heldur en að þessu sinni.

Á Akureyri hefur verið enn hlýrra að tiltölu heldur en í Reykjavík, meðalhitinn fyrstu fjóra mánuði ársins er 2,0 stig og er það 2,8 stigum yfir meðallagi. Frá því að samfelldar mælingar hófust á Akureyri 1881 hafa fyrstu fjórir mánuðir ársins aðeins fjórum sinnum orðið hlýrri en nú. Það var 1929, 1974, 2003 og 1964.

Fyrstu fjórir mánuðir ársins hafa verið úrkomusamir í Reykjavík og hefur ekki mælst meiri úrkoma á sama tíma árs síðan 1953. Úrkoma hefur verið í meðallagi á Akureyri í janúar til apríl.

 



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica