Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í mars 2012
Jarðskjálftar á Íslandi í mars 2012

Jarðskjálftar á Íslandi í mars 2012

13.4.2012

Lítil skjálftavirkni mældist í mars, alls 725 skjálftar. Helsti atburður mánaðarins var skjálftaröð með upptök suðaustan Helgafells, en stærstu skjálftarnir fundust víða.

Á Hengilssvæðinu mældust rúmlega 60 skjálftar, flestir við Húsmúla á Hellisheiði. Í Ölfusi mældust 45 skjálftar, um helmingur þeirra í Hjallahverfi og hinn helmingurinn á Krosssprungunni og við Ingólfsfjall. Stærsti skjálftinn á þessu svæði mældist rúm tvö stig og varð hann skammt frá Raufarhólshelli. Að morgni fimmtudagsins 15. mars hófst skjálftahrina rétt norðaustur af Árnesi. Stærsti skjálftinn, um 2,5 stig, fannst á Leirubakka í Landssveit. Ellefu skjálftar mældust í hrinunni og tveir skjálftar á sama stað dagana á eftir. Nokkur smáskjálftavirkni var á sprungunum á Suðurlandsundirlendinu.

Klukkan 00:29 aðfararnótt fimmtudagsins 1. mars hófst skjálftaröð með jarðskjálfta sem var 3,6 að stærð, um það bil tveimur kílómetrum suðaustan Helgafells, sunnan Hafnarfjarðar. Hann fannst vel á höfuðborgarsvæðinu. Hálftíma síðar eða klukkan 01:03 varð annar mun stærri á svipuðum slóðum og var hann 4,2 að stærð. Fjöldi tilkynninga barst um að hann hefði einnig fundist á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni en auk þess bárust tilkynningar frá Hvanneyri, Keflavík og allt austur í Fljótshlíð og Skaftártungur. Skjálftarnir voru nokkuð grunnir, flestir á þriggja til fjögurra kílómetra dýpi. Á þriðja tug eftirskjálfta, nokkrir stærri en tvö stig og einn tæplega þrjú, fylgdi í kjölfarið, flestir á fimmtudeginum en nokkrir næstu daga á eftir. 

Við Kleifarvatn mældust á fjórða tug skjálfta, stærsti rúm tvö stig. Nokkrar sprengingar mældust í nágrenni Straumsvíkur en þar er unnið að undirgöngum og breytingum á gatnamótum.
Á Reykjaneshrygg mældust rúmlega 30 skjálftar, flestir við Geirfuglasker og -drang en þar hófst skjálftahrina að kvöldi 14. mars og stóð hún fram eftir kvöldi þess 15. Stærsti skjálftinn var 2,5 stig. 

Í Mýrdalsjökli og næsta nágrenni mældust 117 skjálftar. Allt voru þetta smáir skjálftar, en stærstu skjálftarnir voru um 2 að stærð. Af þessum skjálftum voru 57 skjálftar innan Kötluöskjunnar. Suður af öskjunni er Hafursárjökull, en þar mældust 15 skjálftar. Í Eyjafjallajökli mældist einn skjálfti.
Á Torfajökulssvæðinu mældust níu skjálftar. Stærstu skjálftarnir þar voru rétt um 1,4 að stærð.

Í norðanverðum Hofsjökli mældust þrír skjálftar. Í Langjökli mældist einn skjálfti, einn mældist rétt sunnan við Ok og einn skjálfti rétt vestan Sandvatns. Þessir skjálftar voru allir minni en 1,5 að stærð.
Tveir jarðskjálftar mældust við Sultartanga 22. og 24. mars. Sá fyrri 0,9 að stærð en hinn 0,6 að stærð.

Rúmlega 50 skjálftar mældust undir Vatnajökli. Flestir áttu upptök norðaustan í Bárðarbungu og við Kistufell, en þar varð stærsti skjálftinn, 2,1 stig. Smáskjálftar mældust undir Lokahrygg, við Kverkfjöll og fáeinir við Grímsvötn. Tveir smáskjálftar mældust við Kerlingar, milli Tungnaárjökuls og Sylgjujökuls og einn undir Tungnafellsjökli, vestan Vatnajökuls. Einnig mældust nokkrir ísskjálftar í Skeiðarárjökli.

Við Dyngjufjöll, norðan Vatnajökuls, mældist á sjötta tug skjálfta. Hrina smáskjálfta, um tuttugu talsins, varð 21. til 23. mars með upptök vestan í Herðubreiðartöglum. Á annan tug skjálfta mældist við Öskju, flestir með upptök við austurbrún Öskjuvatns á litlu dýpi. Upptakasvæði annarra skjálfta var við Herðubreið og Herðubreiðartögl og nokkrir smáskjálftar urðu við Hlaupfell. Allir skjálftar á svæðinu voru innan við tvö stig að stærð.

Tæplega 200 jarðskjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi á svonefndu Tjörnesbrotabelti. Upptök flestra jarðskjálftanna voru á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu og á Grímseyjarbeltinu. Fyrsta dag mánaðarins mældust meira en fjórir tugir eftirskjálfta úti fyrir mynni Eyjafjarðar í kjölfar skjálfta af stærð 3,7 frá kvöldinu áður. Undir lok mánaðarins mældust þar einnig á annan tug jarðskjálfta. Þann 10. mars mældist jarðskjálfti af stærð 2,5 með upptök um 30 kílómetra suðaustur af Kolbeinsey. Hann var jafnframt stærsti skjálftinn á svæðinu í mánuðinum. Um 11 jarðskjálftar mældust norðvestur af Húsavík, aðallega dagana 22. og 24. mars. Stærsti skjálftinn þar var 2,2 að stærð. Tveir skjálftar, báðir um einn að stærð, mældust við Trölladal norðan Ljósvatnsskarðs á Flateyjarskaga þann 19. mars. Fáeinir smáskjálftar mældust við Kröflu.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica