Fréttir
stórfljót
Chukochiye fljótið á Kolyma-svæðinu í Síberíu.

Arctic HYCOS fundur í Halifax

7.3.2012

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, situr í þessari viku fund Arctic HYCOS nefndarinnar í Halifax í Kanada.

Arctic HYCOS (Arctic HYdrological Cycle Observing System) er samstarfsvettvangur um vöktun á vatnafari norðurslóða á vegum Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO).

Þjóðirnar, sem land eiga að norðurskautssvæðinu, hafa á undanförnum árum eflt samstarf veður- og vatnafræðistofnana sinna. Tilgangurinn er sá að styðja við vöktun og rannsóknir á innrennsli ferskvatns inn í Norður-Íshafið og auka þar með skilning á áhrifum hlýnunar á norðurslóðum.

Norður-Íshafið nær aðeins yfir um 1% af flatarmáli heimshafanna en til þess renna um 10% alls afrennslis meginlandanna. Munar þar mestu um stórfljótin í Síberíu en einnig er afrennsli verulegt frá Alaska og Kanada, auk þess sem annað stærsta jökulhvel jarðar, Grænlandsjökull, er innan norðurskautssvæðisins.

Arctic HYCOS hópurinn leggur sérstaka áherslu á viðhald og endurnýjun vatnamælakerfa í Síberíu og á heimskautasvæðum N-Ameríku, auk þess sem nýting gagnanna í líkanreikningum verður skipulögð á vegum þessa samstarfs.

Skífuritið sýnir innrennsli til Norður-Íshafsins (samtals um 4270 km3 á ári) og framlög einstakra vatnsfalla í Asíu, N-Ameríku og Evrópu. Verulegur hluti innrennslis er áætlaður (e: unmonitored inflow), því engar mælingar fara fram á stórum svæðum.

Vinna Arctic HYCOS nefndarinnar tengist nýlegu starfi á vegum Arctic HYDRA vettvangsins, sem birti skýrslu varðandi stöðu vatnafarsrannsókna á norðurslóðum árið 2010. Skýrslunni var ritstýrt á Veðurstofu Íslands og má nálgast hana á vefsetri Arctic Portal.

diagram

Innrennsli til Norður-Íshafsins og framlög helstu vatnsfalla til þess í rúmkílómetrum á ári. Árlegt heildarrennsli (4270 km3) er svipað og samanlagt rúmmál allra jökla á Íslandi. (stækkuð mynd)

Efni fréttar: Þorsteinn Þorsteinsson




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica