Fréttir
mynd af fyrirlesara
Steingrímur Jónsson er prófessor í haffræði við Háskólann á Akureyri.
1 2 3 4 5 6

Norrænt jarðvísindamót í Hörpu

9.1.2012

Nær 300 fræðimenn frá Norðurlöndum og víðar að sækja þrítugasta vetrarmót norrænna jarðvísindamanna, sem haldið er í Hörpu í þessari viku.

Norðurlöndin skiptast á að halda ráðstefnur þessar á tveggja ára fresti og var síðasta vetrarmót haldið hérlendis árið 2002. Jarðfræðafélag Íslands skipuleggur ráðstefnuna í samstarfi við ýmsar stofnanir hérlendis og má fræðast um vetrarmótið og dagskrá þess á heimasíðu Jarðfræðafélags Íslands.

Fimmtán starfsmenn Veðurstofu Íslands munu flytja erindi á ráðstefnunni, m.a. um eldfjallarannsóknir og vöktun á náttúruvá.

Þá stendur Veðurstofan fyrir sérstakri setu (session) á vetrarmótinu um áhrif hlýnandi loftslags á veðurfar, vatnafar og afkomu jökla. Verður þar kynntur hluti niðurstaðna úr norrænum og íslenskum loftslagsverkefnum, sem Veðurstofan hefur stýrt á undanförnum árum (sjá t.d. CES). Meðal annars verður fjallað um nýjustu spár um hita- og úrkomubreytingar hérlendis fram til 2050 og sýndar niðurstöður reikninga um jökla- og afrennslisbreytingar á sama tímabili.

Eftirtaldir vísindamenn sækja vetrarmótið í boði Veðurstofunnar og með tilstyrk Norrænu ráðherranefndarinnar og flytja þeir yfirlitserindi um loftslagsmál í ofangreindri setu:

Stefan Rahmstorf

Stefan Rahmstorf er prófessor í eðlis- og haffræði við Potsdamháskóla í Þýskalandi og deildarstjóri við stofnun, sem fæst við rannsóknir á áhrifum veðurfarsbreytinga. Hann var einn af aðalhöfundum skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC, 2007) og kemur einnig að samningu næstu skýrslu, sem birt verður 2013-2014. Rahmstorf er einn af helstu sérfræðingum heims um sjávarborðsbreytingar og þátt hafstrauma í veðurfarsbreytingum.

Jens Hesselbjerg Christensen

Jens Hesselbjerg Christensen er deildarstjóri við dönsku veðurstofuna (DMI), einn fremsti loftslagsvísindamaður Norðurlanda og sérfræðingur í gerð og beitingu veðurlíkana. Hann var m.a. aðalhöfundur kafla um svæðisbundnar loftslagsspár í síðustu loftslagsskýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna og hefur nýlega stjórnað samningu nýs og ítarlegs yfirlits um ástand Grænlandsjökuls (sjá AMAP).

Bogi Hansen

Bogi Hansen stjórnar hafrannsóknum við Havstovuna í Þórshöfn og er einnig prófessor við Fróðskaparsetur Færeyja. Rannsóknir hans á Golfstraumnum og mögulegum breytingum hans í hlýnandi loftslagi njóta mikillar viðurkenningar og voru honum veitt náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 2006.

Steingrímur Jónsson

Steingrímur Jónsson er prófessor í haffræði við Háskólann á Akureyri. Hann stundar m.a. rannsóknir á áhrifum loftslagsbreytinga á hafstrauma og lífríki hafsins og á haffræði fjarða við landið. Með rannsóknum sínum á undanförnum árum hafa Steingrímur og samstarfsmenn hans m.a. sýnt fram á tilvist áður óþekkts hafstraums yfir landgrunnshlíðinni norðan Íslands.

Erik Kjellström

Erik Kjellström er veðurfarsfræðingur og aðstoðarprófessor við Rossby líkanreikninga-miðstöðina á veður- og vatnafræðistofu Svíþjóðar (SMHI). Hann er m.a. sérfræðingur í gerð sviðsmynda um framtíðarveðurfar og hefur nýlega stýrt reikningum á þróun lofthita og úrkomu á Norðurlöndum fram til 2050. Niðurstöður hans og samstarfsmanna hans um þróun veðurfars á Norðurlöndum á næstu áratugum koma út í þessum mánuði í skýrslu, sem gefin er út af Norrænu ráðherranefndinni og ritstýrt er á Veðurstofu Íslands.

Þorsteinn Þorsteinsson lagði til efni í þessa frétt.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica