Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í nóvember 2011
Jarðskjálftar á Íslandi í nóvember 2011

Jarðskjálftar á Íslandi í nóvember 2011

13.12.2011

Um 1.300 jarðskjálftar mældust með SIL mælakerfi Veðurstofu Íslands í nóvember 2011. Stærsti jarðskjálftinn var 3,5 að stærð með upptök í sunnanverðri Kötluöskju þann 8. nóvember kl. 09:50. Hann fannst vel í Vík og nágrenni. Flestir jarðskjálftar í mánuðinum voru staðsettir undir Mýrdalsjökli, og þá aðallega undir Kötluöskju, og við Húsmúla á Hellisheiði.

Í mánuðinum mældust 15 jarðskjálftar á Reykjaneshrygg, þeir stærstu af stærð Ml 2,4. Á Reykjanesskaga mældust alls 67 skjálftar, flestir við Selsvallaháls. Þrír jarðskjálftar mældust við Reykjanestá á um 3 - 4 kílómetra dýpi. Þann 26. mældust tveir skjálftar um 3 - 4 kílómetra norðaustur af Grindavík. Þann 27. mældust á fjórða tug skjálfta við Selsvallaháls, vestan Vigdísarvalla. Nokkrir smáskjálftar mældust við Sveifluháls og Kleifarvatn. Eins mældust nokkrir smáskjálftar við Brennisteinsfjöll og Heiðina há og á svæðinu frá Geitarfelli austur að Hjallahverfi (Bjarnastöðum). Mesta virknin í mánuðinum var við Húsmúla við Hellisheiðarvirkjun. Þar mældist fjöldi smáskjálfta og voru 425 handvirkt yfirfarnir í mánuðinum, þeir stærstu af stærð Ml 2,5, en þeir minnstu um Ml -0,4. Þrír skjálftar mældust við Nesjavelli í mánuðinum, allir undir Ml 1 að stærð. Nokkrir skjálftar mældust norður af Hveragerði.

Smáskjálftar mældust á öllu Suðurlandsundirlendinu, bæði á 2000 og 2008 sprungunum, sem og annars staðar, allt austur undir Heklu. Stærstu skjálftarnir mældust af stærð Ml 1,4.

Um tugur skjálfta mældist við Langjökul, flestir undir Geitlandsjökli. Þeir voru á stærðarbilinu Ml 1 - 2 stig.

Yfir 350 skjálftar voru staðsettir undir Mýrdalsjökli, flestir innan Kötluöskju. Stærsti skjálftinn varð í sunnanverðri öskjunni 8. nóvember, Ml 3,5 stig. Nokkrir skjálftar í viðbót náðu þremur stigum, en upptakasvæði þeirra var norðar í öskjunni. Hluti af þessari skjálftavirkni kom í hrinum. Nokkuð mældist af skjálftum í vestanverðum jöklinum og nokkur smáskjálftavirkni var við Hafursárjökul sunnan Kötluöskju. Á annan tug skjálfta voru staðsettir á Torfajökulssvæðinu, stærsti Ml 1,6 stig, og nokkrir smáskjálftar undir Eyjafjallajökli.

Fremur rólegt var undir Vatnajökli í nóvember, en alls mældust innan við 40 skjálftar (<= Ml 2,3). Engir skjálftar urðu innan Grímsvatnaöskju. Um fimmtán skjálftar urðu á Lokahrygg, sjö skjálftar nærri Bárðarbungu og sex í kringum Kistufell. Þrír skjálftar mældust í Kverkfjöllum. Norðan Vatnajökuls urðu um 70 skjálftar (<= Ml 2,1) og dreifðist virknin nokkuð jafnt yfir mánuðinn. Um tuttugu skjálftar urðu við austurjaðar Öskju. Um tíu skjálftar urðu við Herðubreiðartögl og um tuttugu milli Hlaupfells og Upptyppinga. Þar að auki mældist nokkur fjöldi smáskjálfta á víð og dreif um svæðið.

Norðan við land, í Tjörnesbrotabeltinu, voru tæplega 150 jarðskjálftar staðsettir. Helsti atburður var skjálftahrina við Grímsey 24. - 25. nóvember. Um 80 skjálftar mældust, stærsti 3,1 stig. Annars var skjálftavirkni frekar dreifð um beltið í tíma og rúmi. Fáir smáskjálftar mældust á Þeistareykja- og Kröflusvæði.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica