Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í október 2011
Jarðskjálftar á Íslandi í október 2011.

Jarðskjálftar á Íslandi í október 2011

16.11.2011

Alls voru 2159 jarðskjálftar mældir með SIL-mælakerfi Veðurstofunnar í október. Mesta virknin var undir Mýrdalsjökli en þar mældust rúmlega 500 jarðskjálftar, þar af tæplega 400 innan Kötluöskjunnar. Skjálftahrinur voru við Húsmúla á Hellisheiði og suðvestan við Hafnaberg á Reykjanesi.

Dagana 18.-21. og 22.-23. október urðu jarðskjálftahrinur suðvestan við Hafnaberg á Reykjanesi. Um 175 jarðskjálftar mældust í þessum hrinum og var stærsti skjálftinn 2,7 að stærð þann 23. október. Á Krýsuvíkursvæðinu mældist að jafnaði um 1 skjálfti á dag og voru stærstu skjálftarnir tæplega 2 að stærð.

Við Húsmúla í Henglinum mældust tæplega eitt þúsund jarðskjálftar. Flestir þeirra komu fram í skjálftahrinum dagana 2.-9., 15.-16. og 25.-26. október. Tveir stærstu jarðskjálftarnir þar voru að stærð 4 þann 15. október kl. 09:03 og kl. 09:45 og fundust þeir vel víða um sunnan- og vestanvert landið. Nokkrir aðrir skjálftar í þessum hrinum fundust einnig, aðallega í Hveragerði. Meginþorri jarðskjálftanna núna hefur framkallast vegna niðurrennslis á affallsvatni úr Hellisheiðarvirkjun í borholur á svæðinu.

Í Ölfusinu mældust að jafnaði rúmlega einn skjálfti á dag og áttu flestir þeirra upptök við Kross-sprunguna frá 2008. Annarsstaðar á Suðurlandi mældist svipaður fjöldi og allir jarðskjálftarnir á báðum þessum stöðum voru undir 2 að stærð.

Undir Vatnajökli og næsta nágrenni voru staðsettir 75 skjálftar í mánuðinum. Um tveir þriðju þeirra mældust við jökuljaðarinn nærri Kistufelli. Ný jarðskjálftastöð, Dyngjuháls, er á þeim slóðum. Einnig er kominn ný stöð við Jökulheima. Í Kverkfjöllum og Bárðarbungu mældust sjö skjálftar á hvoru svæði og sex á Lokahrygg, austur af Hamrinum. Stakir skjálftar mældust suðvestur af Grímsvötnum, á Síðujökli, á Skeiðarárjökli, við Dyngjujökul og undir Öræfajökli.

Norðan Vatnajökuls mældust 87 jarðskjálftar. Um þrjátíu skjálftar mældust í norðanverðum Dyngjufjöllum ytri og 44 í nágrenni við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Stærsti skjálftinn varð klukkan 14:55 þann 7. október, 2,6 að stærð. Átta skjálftar mældust í norðan- og austanverðum Dyngjufjöllum.

Tæplega 130 jarðskjálftar mældust í Tjörnesbrotabeltinu í október. Um 40 skjálftar mældust í Öxarfirði, allir innan við tvö stig. Tæplega 20 urðu í nágrenni Grímseyjar og svipaður fjöldi á Skjálfandaflóa og náðu stærstu skjálftarnir á báðum þessum svæðum tveimur stigum. Tuttugu og fimm jarðskjálftar urðu í skjálftahrinu, sem hófst upp úr klukkan átta á þriðjudagsmorgni þann 18. og stóð fram yfir hádegi, um það bil 30 kílómetra norður af Siglunesi. Tveir skjálftar losuðu þrjú stig. Um 15 jarðskjálftar mældust langt norður á Kolbeinseyjarhrygg. Þrír þeirra voru með upptök við SPAR brotabeltið. Einn varð um 10 kílómetrum norðan við Kolbeinsey en hinir um 90 kílómetrum norður af eynni. Stærstu skjálftarnir voru yfir 3 að stærð. Nokkrir smáskjálftar mældust við Kröflu. 

Undir Mýrdalsjökli voru staðsettir 512 jarðskjálftar. Þar af voru um 380 skjálftar undir Kötluöskjunni, um 70 undir vesturhluta jökulsins og um 50 undir Hafursárjökli suður af öskjunni. Miðvikudaginn 5. október hófst snörp skjálftahrina í Mýrdalsjökli í norðaustanverðri Kötluöskjunni, rétt sunnan við Austmannsbungu. Stærsti skjálftinn varð kl. 04:11:51 og mældist um Ml 4. Alls mældust sjö skjálftar Ml 3 eða stærri og nokkrir rétt undir 3. Viðvarandi skjálftavirkni hefur verið allan október í Mýrdalsjökli þar sem nokkrir tugir skjálfta hafa verið meira en 2 að stærð.

Á Torfajökulssvæðinu mældust 18 skjálftar og voru allir undir tveimur að stærð. Í og við Langjökul voru átta jarðskjálftar. Sá stærsti mældist 2,2 stig þann 23. október með upptök við hábungu jökulsins.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica