Fréttir
visindavaka-logo

Vísindavaka

Vísindavaka föstudaginn 23. september

19.9.2011

Veðurstofan tekur þátt í Vísindavöku Rannís í Háskólabíói föstudaginn 23. september kl. 17-22. Vísindavaka er stefnumót almennings við vísindamenn, þar sem þess gefst kostur að kynnast viðfangsefnum þeirra, en slíkir viðburðir verða á sama tíma í helstu borgum Evrópu.

Vísindavaka er að þessu sinni í samstarfi við Háskóla Íslands í tilefni100 ára afmælis hans. Veðurstofan tekur þátt undir yfirskriftinni Veðurstofa Íslands - vöktunarmiðstöð eldfjalla.

Ef veður leyfir verður færanleg veðursjá til sýnis utandyra, en hún er hluti þess búnaðar sem stofnunin hefur yfir að ráða til þess að fylgjast með og vakta eldfjöll. Um næstu áramót mun Veðurstofan eignast sína eigin færanlegu veðursjá, samskonar og þá sem er til sýnis, en hún er að láni frá ítölsku almannavörnunum. Sýnt verður innandyra á skjá hvernig tækið mælir dreifingu ösku í andrúmslofti.

Í Vísindakaffi á Súfistanum, bókakaffi, Laugavegi 18, er spjall um vísindi öll kvöld vikunnar fram að vöku. Þriðjudaginn 20. sept. kl. 20-21:30 reifar Halldór Björnsson, verkefnisstjóri loftslagsrannsókna á Veðurstofunni, spurninguna: "Kuldinn síðasta sumar afsannar hlýnun jarðar! ...er það ekki?"

Stutt myndskeið sem sýna ösku úr eldgosinu í Grímsvötnum síðastliðið vor verða sýnd á vísindavökunni í Háskólabíói. Einnig myndskeið frá ryk- og öskufjúki nú í september.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica