Fréttir
vhm
Vatnshæðarmælir við Léreftshöfuð. Ljósmynd: Gunnar Sigurðsson

Hlaupórói í Mýrdalsjökli

6.9.2011

Nokkur skjálftavirkni hefur verið í Mýrdalsjökli í dag, 6. september. Tíðnigreining óróa á Rjúpnafelli frá kl. 14–16 sýnir að um hlaupóróa er að ræða. Leiðni í ánni er há og rennsli er mikið. Um kl. 17 komu upplýsingar frá starfsmönnum við mælingar í Múlakvísl um að áin væri óvenju gruggug og mikið rennsli. Vísindamenn, sem flugu yfir Mýrdalsjökul um kl. 19 í kvöld, sáu að ketill hafði myndast á nýjum stað, í norðurhlíðum Hábungu, ekki stór.

Vatnshæðarmælar voru settir upp í Múlakvísl á árunum 1999–2000 (við þjóðveg á Mýrdalssandi og við Léreftshöfuð). Þeir eru hluti vöktunarkerfis Mýrdalsjökuls, en með þessum mælum er hægt að fylgjast með óeðlilegum breytingum í leiðni og vatnsrennsli í þekktum farvegum jökulhlaupa frá jöklinum. Hlaupórói hefur sést á jarðskjálftamælum, en hann er lítill svo ekki er búist við stóru hlaupi.

óróagraf

Myndin sýnir mínútumeðaltal lóðréttrar hreyfingar skjálftamæla í kringum Mýrdalsjökul á tíðnibilinu 1-2 Hz. Skammstafanir fyrir skjálftamælastöðvarnar eru lengst til vinstri á grafinu.

leiðnigraf

Leiðni í Múlakvísl frá hádegi 6. september.

Kristín Vogfjörð, Gunnar Sigurðsson og Oddur Sigurðsson veittu upplýsingar fyrir þessa frétt.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica