Fréttir
gosmökkur yfir jökli sem er dökkur af ösku
Eldgos hófst í Eyjafjallajökli aðfaranótt 14. apríl 2010. Gosmökkurinn og Gígjökull framan við. Myndin er tekin 11. maí kl. 10:58.

Hættumat fyrir eldgos

Að tillögu umhverfisráðherra verður hafin vinna við hættumat fyrir eldgos á Íslandi

31.8.2011

Þann 26. ágúst s.l. samþykkti ríkisstjórn Íslands, samhljóða, tillögu Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra um að hafist yrði handa við gerð heildarhættumats vegna eldgosa á Íslandi. Tillagan byggir á áætlun sem Veðurstofa Íslands vann ásamt Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, Landgræðslu Ríkisins og Vegagerðinni fyrir umhverfisráðuneytið.

Rannsóknir benda til þess að eldvirkni á Íslandi gangi í bylgjum sem koma fram t.d. sem sveiflur í tíðni og stærð eldgosa í og við Vatnajökul. Talið er að þau fjögur gos sem orðið hafa á því svæði á síðustu fimmtán árum marki upphaf virks tímabils. Á virku tímabili má búast við eldgosi í Grímsvötnum annað til sjöunda hvert ár, auk þess sem þekkt er að goshrinur verða samhliða í eldstöðvakerfi Bárðarbungu. Jarðskjálftavirkni á svæðinu hefur aukist nú síðustu ár, sem bendir til færslu á kviku í kvikuhólf. Líkur eru á eldgosi í Heklu á næstu misserum og reikna verður með Kötlugosi á komandi árum.

Í ljósi þessa og í framhaldi af eldgosunum í Grímsvötnum og Eyjafjallajökli er ljóst að gera þarf heildarhættumat fyrir eldgos á Íslandi. Með heildarhættumati er átt við mat á tjónmætti eldgosa, tjónnæmi samfélagsins gagnvart þeim ásamt eftirfylgjandi áhættumati og mótvægisaðgerðum. Með þessu má lágmarka skaða samfélagsins vegna eldgosa.

Við gerð heildarhættumatsins verður stuðst við hættumatsramma Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar og Sameinuðu þjóðanna. Þessi hættumatsrammi hefur verið notaður með góðum árangri við hættumat og mótvægisaðgerðir vegna ofanflóða.

Í heild er gert ráð fyrir að verkefnið taki um 15-20 ár og mun fjöldi stofnana og fyrirtækja koma að því á mismunandi stigum þess. Fyrstu verkefnin sem framkvæma þarf við gerð hættumatsins og jafnframt sem miða að því að lágmarka tjónnæmi samfélagsins verða unnin á næstu þremur árum og eru þau eftirfarandi:

  • Úttekt á þekkingu á íslenskum eldstöðvum
  • Forgreining á áhættu vegna flóða samfara eldgosum
  • Forgreining á sprengigosum á Íslandi
  • Forgreining á eldgosum sem valdið geta miklu eignatjóni, þ.e. eldgosum nálægt þéttbýli og alþjóðlegum flugvöllum á Íslandi

Til viðbótar við fjármögnun ríkisins á þessu verkefni koma margir hagsmunaaðilar að því og í þessum fyrsta fasa styrkja það, auk ríkissjóðs, Isavia, Vegagerðin og Landsvirkjun. Enn fremur nýtist verkefni við flokkun og greiningu eldfjalla sem þegar er hafið og Alþjóða flugmálastofnunin (ICAO) styrkir.

Veðurstofan er þakklát ríkisstjórn Íslands fyrir skjóta afgreiðslu þessa máls. Undanfarin ár hefur stofnunin lagt áherslu á að gerð hættumats vegna allar náttúruvár yrði unnin með sömu aðferðarfræði og hefur verið gerð fyrir ofanflóð hér á landi. Mjög góður árangur hefur náðst í þeim málaflokki þar sem unnið hefur verið skv. ofangreindum hættumatsramma með markvissri verkefnastjórnun og fjármögnun í gegnum Ofanflóðasjóð.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica