Fréttir
Kort
Jarðskjálftar á Íslandi í júlí 2011.

Jarðskjálftar á Íslandi í júlí 2011

12.8.2011

Um 1350 jarðskjálftar mældust með SIL-kerfi Veðurstofunnar í júlí. Hlaup kom úr sigkötlum bæði í Mýrdalsjökli og Vatnajökli.

Um 40 jarðskjálftar voru staðsettir á Reykjaneshrygg, langflestir við Geirfugladrang dagana 6. og 14. júlí. Stærstu skjálftarnir voru innan við þrjá að stærð (Ml). Mesta skjálftavirknin á Reykjanesskaga var á Krýsuvíkursvæðinu eða um hundrað skjálftar. Stærsti var Ml 2,7. Nokkrir smáskjálftar mældust við Fagradalsfjall og Reykjanestá og tveir við Bláfjöll.

Um 100 smáskjálftar áttu upptök í Ölfusi og Flóa á syðri hluta Krosssprungunnar, sem brotnaði í maí 2008. Nokkur smáskjálftavirkni var við Raufarhólshelli eða um 40. Þann 23. júlí varð hrina tæplega 20 smáskjálfta við Húsmúla, en annars mældust alls um 50 skjálftar á Hengilssvæðinu. Á Suðurlandsundirlendinu mældust um 50 skjálftar, allir innan við tvo að stærð. Flestir urðu á Hestvatns- og Holtasprungum sem brotnuðu í júní 2000.

Um 400 jarðskjálftar voru staðsettir í Mýrdalsjökli í júlí, flestir innan Kötluöskjunnar en þar mældust um 280 skjálftar. Rúmlega 60 smáskjálftar mældust í vestanverðum jöklinum og tæplega 50 við ónefndan skriðjökul við suðurjaðar Mýrdalsjökuls. Stærsti skjálftinn varð í austanverðri öskjunni þann 18. júlí kl. 02:02 og var hann 3,8Ml en það er með stærri skjálfum sem mælst hafa á þessu svæði. Annar skjálfti sem var yfir þremur stigum varð laust fyrir klukkan eitt aðfaranótt 27. júlí og var hann í vestanverðri öskjunni á svipuðum slóðum og sigketill númer 7 sem hljóp úr árið 1999.

Fyrstu viku mánaðarins var fremur lítil virkni en þann 8. júlí jókst skjálftavirknin undir suðausturhluta öskjunnar og smáskjálftahrinur mældust. Um kvöldmatarleytið kom fram vaxandi órói á hærri tíðnum (1-2Hz og 2-4hz) á mælum í kringum Mýrdalsjökul. Um klukkan 22:40 jókst hlaupóróinn einnig á lægri tíðni (0,5-1Hz) og færðist verulega í aukana um kl. 23:00 á öllum tíðniböndum. Leiðni á vatnshæðarmæli við Múlakvísl við Léreftshöfða hækkaði einnig. Laust fyrir klukkan tvö aðfaranótt 9. júlí kom stærsti óróapúlsinn og stóð hann yfir í um hálftíma. Um miðja nótt minnkaði óróinn verulega og fór hægt dvínandi fram eftir degi.

Um tvöleytið um nóttina var vatnshæð um einum metra undir brúargólfi Múlakvíslar og fór vaxandi. Um kl. 04:00 um nóttina óx vatnshæðin á vatnamælinum við Léreftshöfðia snögglega og reis um fimm metra á nokkrum mínútum. Þessi mikla flóðbylgja kom svo niður við brúna um 45 mínútum síðar og hefur líklega þá eða aðeins fyrr sópað brúnni burt. Óróinn á skjálftamælum hélt áfram að minnka og var mikið til dottinn alveg niður seinni part dagsins.

Tveir smáskjálftar mældust í Eyjafjallajökli,rúmlega 40 á Torfajökulssvæðinu og átta við sunnanverðan Langjökul.
Tveir skjálftar mældust, annar 2,0Ml í lok mánaðar og hinn 2,4Ml um miðjan mánuð, um tveimur kílómetrum vestan við Surtsey. Báðir voru á um 15 kílómetra dýpi. Einn smáskjálfti varð við Vestmanneyjar.

Í júlímánuði mældust 58 skjálftar undir Vatnajökli. Sá stærsti mældist þann 3. júlí um 10 kílómetra suðvestur af Kistufelli af stærð Ml 2,7. Við Kistufell mældust alls 10 jarðskjálftar og 12 við Bárðarbungu. Við Kverkfjöll mældust 6 jarðskjálftar, sá stærsti um 1,5 að stærð.
Tveir skjálftar mældust við Snæhettu, upp af Esjufjöllum, einn við Hrútsfell norður af Öræfajökli, einn skjálfti mældist ofan við Kjósina (Morsárjökul) og tveir um 7 kílómetra austur af Vetti í sunnanverðum Vatnajökli.

Þann 12. júlí hófst óróahrina, sem sást best á jarðskjálftamælunum á Skrokköldu og á Grímsfjalli. Óróinn bar merki jökulhlaups, þannig að grannt var fylgst með mælingum á leiðni og vatnsrennsli á mælum Veðurstofunnar norðan Vatnajökuls. Óróinn náði hámarki rétt upp úr miðnætti aðfararnótt 13. júlí og um morgununn kom í ljós að hækkað hafði um 70 sentímetra í Hágöngulóni. Aðeins einn skjálfti var mælanlegur í þessari óróahrinu, en 8.-10. júlí mældust 8 jarðskjálftar austur af Hamrinum og var sá fyrsti þeirra, sem mældist að morgni 8. júlí, stærstur eða Ml 2,6. Átta skjálftar til viðbótar mældust á svæðinu fram að mánaðarmótum. Tveir smáskjálftar mældust, sinn við hvorn Skaftárketil, og einn skjáfti mældist norður af Grímsvötnum.

Alls mældust 68 jarðskjálftar við Öskju og Herðubreið. Mest var virknin undir Herðubreið og Herðubreiðartöglum, en þar mældust alls 40 skjálftar. Stærsti skjálftinn mældist sunnan við Herðubreið þann 2. júlí af stærð Ml 2. Einn jarðskjálfti mældist um 15 kílómetra norðnorðaustur af Herðubreið. Við Drekagil austan Öskjuvatns mældust sjö skjálftar, allir litlir. Þrír smáskjálftar mældust við sunnanvert Hálslón og tveir vestan við Sauðárháls. Þessir skjálftar voru allir undir 0,5 að stærð.

Um tugur skjálfta mældust á Kröflusvæðinu og um 20 við Þeistareyki. Þeir voru allir litlir.

Um 300 jarðskjálftar mældust norðan við land í Tjörnesbrotabeltinu. Um hundrað áttu upptök við Grímsey, um hundrað í Öxarfirði og einnig var talsverð virkni úti fyrir mynni Eyjafjarðar. Virknin var nokkuð jöfn á þessum svæðum, þ.e.a.s. það voru engar skjálftahrinur. Við Flatey varð þó smáhrina 22. júlí með um 30 skjálfta, stærsti aðeins 1,2 stig. Stærsti jarðskjálftinn norðan við land var í Öxarfirði, Ml 2,9 stig þann 5. júlí.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica