Fréttir
Vestari Skaftárketill í Vatnajökli
Vestari Skaftárketill eftir hlaup 29. júlí 2011.

Litlar líkur á hlaupi úr eystri Skaftárkatli

5.8.2011

Verulega hefur dregið úr líkum á hlaupi úr eystri Skaftárkatli. Mæligildi aurs og leiðni eru ennþá há en rennsli árinnar hefur ekki aukist og sveiflur í rennslinu skýrast fyrst og fremst af dægursveiflu jökulleysingar og því að vestari ketilinn er að tæmast.

Órói er oft mikill í upphafi jökulhlaupa þegar hlaupvatnið brýst út undir ísstífluna við lónin undir kötlunum og myndar sér farveg undir jöklinum. Stærri skjálftar og óróahviður koma hinsvegar fram þegar hlaupið er tekið að dvína og þrýstingi hefur verið létt af jarðhitakerfinu undir lóninu.

Skjálftarnir hafa verið tengdir því að að þrýstingsléttirinn valdi suðu í kerfinu. Suðan hrærir upp vatni og efnum úr jarðhitakerfinu auk aurs og eðju sem sest hefur í botni lónanna undir kötlunum. Vatnið og efnin úr jarðhitakerfinu auk aursins og eðjunnar geta síðan borist niður með hlaupvatninu og hækkað mæligildi aurs og leiðni.

Tíminn frá því óróinn var hvað mestur er nú orðin lengri en svo, að vatnið ætti að hafa náð undan jöklinum ef óróinn væri tilkominn vegna hlaups úr eystri katlinum. Því verður að telja að líkur á hlaupi hafi verulega minnkað.

Vatnhæð, rennsli, leiðni og ljósgleypni í Skaftá við Sveinstind 28. júlí til 5. ágúst 2011 má sjá á línuriti. Fyrir rúmri viku komu fram vísbendingar um mögulegt hlaup, sem gengu eftir. Hlaup kom úr vestari Skaftárkatli og er það hlaup nú í rénun.

línurit

Óðinn Þórarinsson og Bergur Einarsson lögðu til efni í þessa frétt.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica