Fréttir
Skaftárdalur
Skaftárdalur í Skaftárhlaupi 28. júní 2010.

Hlaup að hefjast úr eystri Skaftárkatli

3.8.2011

Fyrstu merki þess að hlaup geti verið að hefjast úr eystri Skaftárkatli hafa komið fram á mælum Veðurstofunnar. Hlaupórói hefur mælst á jarðskjálftamælum í kringum vestanverðan Vatnajökul frá því fljótlega eftir miðnætti í nótt og aur/grugg hefur frá sama tíma aukist mikið á mæli í Skaftá við Sveinstind. Vatn úr eystri katlinum hefur enn ekki komið fram á mælinum við Sveinstind.

Ef af verður, er ekki búist við að hlaupið nái hámarki í byggð fyrr en á föstudag. Þar sem stutt er síðan hljóp úr katlinum síðast er ekki búist við stóru hlaupi, en það verður þó töluvert stærra en hlaupið úr vestari katlinum sem nú er að ganga niður. Rétt er að benda vegfarendum á að fara varlega meðfram Skaftá.

Fólki er ráðlagt að vera ekki nálægt upptökum Skaftár eða í lægðum meðfram henni vegna mengunar af völdum brennisteinsvetnis, en brennisteinsvetni getur skaðað slímhúðir í augum og öndunarvegi.

Óðinn Þórarinsson, framkvæmdastjóri athugana- og tæknisviðs Veðurstofunnar, kom að gerð þessarar fréttar.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica