Fréttir
skaftá
Við upptök Skaftár í júní 2010. Ljósmynd:Ólafur Freyr Gíslason.

Hlaup í Skaftá

28.7.2011

Vaxandi leiðni og „grugg“ á ljósgleypnimæli Veðurstofunnar við Sveinstind (V299) bendir til þess að hlaup muni hefjast innan skamms í Skaftá. Sé tekið mið af fyrri hlaupum tekur það um 20 klukkustundir að ná til byggða. Aðrir mælar eru í Skaftárdal, við Eldvatn í Ásum og við Kirkjubæjarklaustur.

Samkvæmt Óðni Þórarinssyni, framkvæmdastjóra athugana og tæknisviðs, má gera ráð fyrir hættu af völdum brennisteinsmengunar uppi við jökulinn.  Síðast hljóp úr báðum Skaftárkötlum í júní 2010 og því er ekki gert ráð fyrir miklu vatnsmagni í Skaftá í þessu hlaupi. Almannavörnum hefur verið gert viðvart.

Bráðið jökulvatn af þessu svæði getur einnig skilar sér niður í Hágöngulón. Önnur svæði á Lokahrygg austan við Hamarinn hafa sýnt merki um aukna jarðskjálftavirkni undanfarin ár að sögn Kristínar Vogfjörð, rannsóknastjóra Veðurstofunnar.

Skaftárhlaup eru jökulhlaup og eiga almennt upptök í tveimur kötlum á jarðhitasvæði undir Vatnajökli.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica