Fréttir
ReRa_ketill
Ketill í Mýrdalsjökli 9. júlí 2011. Ljósmynd: Reynir Ragnarsson.

Hlaup úr sigkötlum í Mýrdalsjökli

9.7.2011

Hlaupið sem kom úr sigkötlum í Mýrdalsjökli síðastliðna nótt, og hreif með sér brúna yfir Múlakvísl, kom úr þremur þekktum sigkötlum en einn nýr myndaðist. Kort af sigkötlunum má sjá á vef Jarðvísindastofnunar; mest seig í katli 16 en einnig 9 og 10.

Í flóðavöktunarkerfi Mýrdalsjökuls hafa verið reknir tveir mælar til vöktunar og eftirlits með Múlakvísl. Aðalmælirinn hefur verið staðsettur á brúnni á þjóðvegi 1. Hann sýndi að rafleiðni árinnar tók að hækka í gærkvöldi, um svipað leyti og órói á jarðskjálftamælum jókst, en tók svo verulegt stökk rétt fyrir miðnætti. Vatnsborð árinnar hafði þá hækkað nokkuð og svo virðist sem það hafi náð upp undir brúargólf skömmu síðar og skemmt vatnshæðarskynjarann. Samband við mælinn rofnaði endanlega um klukkan 04 í nótt.

Annar mælir er við Selfjall, nefnt Léreftshöfuð, þar sem brúin á þjóðveginum var áður en hana tók af flóði við svipaðan atburð 1955. Hann er hugsaður til skráningar flóðahæðar jafnframt því að gefa viðvaranir um flóð. Hann er að öllu jöfnu ekki í vatni og þarf vatnsborð að ná nokkurri hæð til að hann gefi viðvörun. Það hafði því vaxið nokkuð í ánni áður en til þess kom. Skömmu eftir kukkan 04 fór að vaxa verulega í ánni og á nokkrum mínútum hækkaði vatnsborðið um meira en 5 metra. Reynslan hefur sýnt að flóðtoppur við Léreftshöfuð nær niður á þjóðveg eftir um það bil klukkustund og líklega hefur þessi flóðtoppur orðið til þess brúin fór á þjóðvegi 1.

Hlaupið náði svo út í Skálm um kl. 07:30 eins og sjá má á myndum fyrir bæði vatnshæð og leiðni. Hlaupið hefur dvínað jafnt og þétt í dag.

Órói varð greinilegur á jarðskjálftamælum um klukkan 19:20 í gærkvöldi og jókst verulega um klukkan 22:20. Um klukkan 05:00 fór að draga úr óróanum. Í gær voru smáskjálftar undir kötlunum suðaustan í Kötluöskjunni og undanfarnar vikur hefur smáskjálftavirkni verið nokkur. Um þrír tugir skjálfta hafa mælst á þessu svæði síðan á miðnætti, sá stærsti 2,4 að stærð.

Myndin hér fyrir neðan var tekin klukkan 08:37 og sýnir útfallið þar sem Múlakvísl kemur undan jökli.
Ljósmynd: Einar Kjartansson. Fleiri myndir má sjá í ljósmyndagrein.

EiKj



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica