Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í maí 2011
Jarðskjálftar á Íslandi í maí 2011.

Jarðskjálftar á Íslandi í maí 2011

15.6.2011

Rúmlega 1000 jarðskjálftar mældust með SIL-kerfi Veðurstofunnar í maí. Helsti atburður mánaðarins var eldgosið í Grímsvötnum, sem stóð frá 21. til 28. maí.

Rúmlega 20 jarðskjálftar voru staðsettir á Reykjaneshrygg, flestir við Geirfuglasker. Stærsti var Ml 2,3 stig. Mesta skjálftavirknin á Reykjanesskaga var á Krýsuvíkursvæðinu. Rúmlega 100 smáskjálftar mældust þar, stærstu um tvö stig. Nokkrir smáskjálftar mældust einnig við Reykjanestá og undir Fagradalsfjalli.

Á Hengilssvæðinu og á Suðurlandsundirlendinu mældust um 160 skjálftar. Stærstu skjálftarnir voru um Ml 1,5 stig og flestir urðu í Ölfusi og Flóa á syðri hluta Krosssprungunnar. Um tugur skjálfta mældist á Hestvatns- og Holtasprungum.

Í Mýrdalsjökli var 131 skjálfti staðsettur. Þar af voru 76 skjálftar í vestanverðum jöklinum, en 51 skjálfti mældist innan öskunnar. Stærstu skjálftarnir voru Ml 1,6 stig. Í Eyjafjallajökli mældust fimm skjálftar auk tveggja rétt norðan við jökulinn og einn rétt sunnan við jökulinn. Þetta voru allt mjög litlir skjálftar, en sá stærsti var Ml 1,1 stig. Á Torfajökulssvæðinu mældust 20 skjálftar. Allt voru þetta litlir skjálftar, en þeir voru allir á stærðarbilinu Ml 0,0 til Ml 1,2 stig.

Í norðvestanverðum Hofsjökli mældust þrír skjálftar, sá stærsti var Ml 2,0 stig. Í Geitlandsjökli mældust tveir skjálftar um Ml 1,5 stig. Við Skjaldbreið mældust tveir skjálftar Ml 1,0 stig og einn sem var Ml 0,6 stig. Við Högnhöfða mældust þrír skjálftar og voru þeir Ml 0,6 til 0,8 stig. Rétt vestan við Sandvatn mældist einn skjálfti og var hann Ml 0,8 stig.

Undir Vatnajökli mældust um 185 jarðskjálftar. Fremur róleg skjálftavirkni var framan af mánuðinum. Um klukkan hálfsex um efirmiðdaginn þann 21. maí byrjaði órói að aukast á jarðskjálftamælum og tíu mínútum seinna byrjuðu skjálftar í Grímsvötnum. Skjálftum fjölgaði mjög ört í Grímsvötnum og var skjálftavirknin mest milli kl. 18-20. Óróinn fór stighækkandi og náði hámarki um stundarfjórðungi fyrir klukkan 19. Upptök flestra skjálftanna voru um 3-4 kílómetra suðvestur af skálanum á Grímsfjalli og mældust stærstu skjálftarnir um Ml 3,5 að stærð.

Gosið var mjög öflugt fyrsta sólarhringinn og fór gosmökkur í byrjun upp í allt að 20-25 kílómetra hæð. Síðan dró úr gosvirkninni og um kl. 02 aðfaranótt 25. maí mældist gosmökkur síðast á radar og á sama tíma snöggminnkaði gosóróinn. Gosóróinn fór síðan verulega minnkandi þann 26. maí og hætti síðan að mælast á jarðskjálftastöðvum um kl. 07 þann 28. maí.

Stuttu eftir að gos hófst og næstu daga varð aukin skjálftavirkni á Lokahrygg norðvestan við eldstöðina. Stuttu síðar og fram til loka mánaðarins urðu einnig allmargir jarðskjálftar um 15-20 kílómetra suðsuðaustan við eldstöðina. Sjö jarðskjálftar mældust um 17 kílómetra suðaustur af Bárðarbungu, aðallega 18. og 19. maí. Við Esjufjöll, Kverkfjöll, Kistufell og í Bárðarbungu mældust fáeinir jarðskjálftar.

Í Ódáðahrauni og nágrenni mældust 122 jarðskjálftar. Einna áhugaverðust var hrina 22 grunnra skjálfta sem urðu við norðvestur brún Dyngjufjalla ytri. Flestir urðu þessi skjálftar fjórða og fimmta maí. Fimm þeirra voru yfir M2, sá stærsti um 2,5 að stærð. Norðan Upptyppinga mældust 18 skjálftar, allir nema einn undir M1 að stærð. Fimmtán skjálftar mældust í Öskju, rúmlega 30 í nágrenni Herðubreiðarlinda og 25 við Herðubreiðartögl.

Á Kröflusvæðinu mældust átta jarðskjálftar og 11 við Þeistareyki. Tveir skjálftar mældust við Bakkahlaup í Öxarfirði (Kelduhverfi). Tveir skjálftar mældust við Flateyjardal og þrír nærri Lágheiði. Tveir skjálftar mældust norðaustur af landinu, annar 25 km NA af Fonti á Langanesi og hinn um 120 km ANA af Fonti.

Um það bil 180 skjálftar mældust í Tjörnesbrotabeltinu. Stærsti skjálftinn sem var 3,4 að stærð, varð rúmlega 40 km VNV af Grímsey þann áttunda maí. Í smá hrinu þann dag mældust um 15 skjálftar, allir yfir M2 að stærð. Annars var virknin í mánuðinum á víð og dreif um brotabeltið.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica