Fréttir
háir snjóruðningar sitt hvoru megin vegar
Snjómokstri lokið undir Súðavíkurhlíð í apríl 2010.

Snjór og samgöngur á norðurslóðum

Samnorrænt verkefni um öryggi vegfarenda

24.5.2011

Snjóflóðasetur Veðurstofu Íslands á Ísafirði leiðir nú samnorrænt verkefni sem fjallar um snjó og samgöngur á norðurslóðum.

Verkefnið, sem hófst í mars, ber skammstöfunina SNAPS sem stendur fyrir Snow, Ice and Avalanche Applications. Það hlaut styrk frá Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (Northern Periphery Programme).

Verkefnið snýst um þróun á upplýsingagjöf og þjónustu til að auka öryggi vegfarenda sem ferðast að vetrarlagi um samgönguæðar á norðurslóðum. Á Íslandi hafa Vestfirðir verið skilgreindir sem tilraunasvæði verkefnisins. Hluti af verkefninu snýst um að þróa snjóflóðaspár fyrir Súðavíkurhlíð og hugsanlega fleiri vegi en Vegagerðin er einnig aðili að verkefninu. Annar hluti felur í sér birtingu snjókorta af Vestfjörðum sem byggð eru á gervitunglamyndum og könnun á nytsemi þeirra við skafrennings- og snjóflóðaspár. Fljótlega mun vefur verkefnisins verða opnaður og þá mun fólk geta kynnt sér það nánar.

Nú er verið að leita að lógói (myndmerki) fyrir verkefnið og hefur verið ákveðið að efna til samkeppni þar sem Vestfirðingar eru sérstaklega hvattir til að senda inn tillögur. Þau lykilhugtök sem hafa ber í huga við hönnun lógósins eru: snjór, samgöngur, fjöll, öryggi og norðurslóðir. Stutta heiti verkefnisins, SNAPS, þarf að koma fyrir í eða með lógóinu.

Tillögur skulu sendar á netfangið harpa@vedur.is eða skilað inn til skrifstofu Snjóflóðaseturs, Suðurgötu 12, 400 Ísafirði, í síðasta lagi þann 6. júní næstkomandi.

Ákvörðun um val á lógói verður tekið af starfsmönnum SNAPS verkefnisins með samþykki stjórnar Norðurslóðaáætlunarinnar. Verðlaunafé er kr. 75.000.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica