Fréttir
graf
Mæligögn frá því aðfararnótt 23. maí 2011. Á myndinni má greina tvö öskulög, annað í um 500 m hæð og hitt í um 1200 m hæð.
1 2

Að mæla ösku

Mælitæki

23.5.2011

Veðurstofan fékk nýlega að láni LiDAR frá National Centre for Atmospheric Science (NCAS) í Bretlandi. LiDAR er mælitæki sem byggist á því að skjóta leysigeisla upp í loftið og mæla endurvarp hans.

Tækið hafði verið sett upp undir Eyjafjöllum til að mæla fokösku en var flutt í gær til Keflavíkurflugvallar til að fylgjast með ösku yfir vellinum. Um kl. 20 í gærkvöldi fór tækið að sýna vaxandi öskumagn í lofti og hélst það fram eftir nóttu.

Veðurstofa Íslands á veðursjá sem staðsett er á Miðnesheiði, nærri Keflavíkurflugvelli.  Aðalhlutverk veðursjárinnar er að fylgjast með úrkomu, en hún mælir endurkast frá vatnsdropum í lofthjúpnum.  Það hefur sýnt sig að veðursjáin nýtist einnig ágætlega til að fylgjast með gosmekki en þá sér hún endurkast ýmissa gosagna í rökum mekkinum.

Veðursjáin á Miðnesheiði
kort - sammiðja hringar út frá Keflavík
Kortið sýnir endurkastið sem veðursjáin mælir þann 23. maí 2011 kl. 14:20. Einnig er sýnt mesta endurkast í lóðréttu sniði en slíkt gagnast vel til að sjá hversu hátt mökkurinn rís. Mökkurinn var í 6 - 8 km hæð.

Í Eyjafjallajökulsgosinu kom í ljós að veðursjáin var notadrjúgt tæki, en fjarlægðin til gosstöðvanna (sem var 160 km) dró þó nokkuð úr gæðum gagnanna. Vegna þessa var ákveðið að festa kaup í færanlegri X-band veðursjá og fá aðra að láni frá ítölsku almannavörnunum meðan verið er að ganga frá kaupunum.

Færanlega veðursjáin er nú staðsett nærri Kirkjubæjarklaustri eða í um 80 km fjarlægð frá gosstöðvunum í Grímsvötnum. Starfsmenn VÍ fylgjast því með þróun eldgossins með tveimur veðursjám.

Færanlega veðursjáin
kort - sammiðja hringar út frá Keflavík
Þessi ratsjá, sem er í aðeins 80 km fjarlægð frá eldstöðvunum, sýnir aukið endurkast í gosstróknum. Það eru smáatriði sem ekki sjást í ratsjánni sem er staðsett í Keflavík. Kortið sýnir endurkastið sem veðursjáin mælir þann 23. maí 2011 kl. 14:00. Einnig er sýnt mesta endurkast í lóðréttu sniði en slíkt gagnast vel til að sjá hversu hátt mökkurinn rís. Þegar þessi mynd var tekin var mökkurinn í 6 - 8 km hæð.


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica