Fréttir
kort - hæðalínur, litabreytingar
Snæfellsjökull 1999-2008.

Mælingar á íslenskum jöklum með leysimælingum

Yfirborð og yfirborðsbreytingar íslenskra jökla kortlagt með leysimælingum

17.5.2011

Veðurstofa Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans hafa síðan 2008 unnið að kortlagningu íslenskra jökla með leysimælingu (LiDAR) úr flugvél. Gerð hafa verið nákvæm landlíkön af Hofsjökli, Langjökli, Mýrdalsjökli, Eyjafjallajökli, Snæfellsjökli, Eiríksjökli, Hornafjarðarjöklum og Breiðamerkurjökli í Vatnajökli, og nokkrum öðrum skriðjöklum Vatnajökuls til austurs og suðurs.

Verkefnið er áfangi í kortlagningu allra helstu jökla landsins sem áformað er að ljúki á næstu þremur árum. Samtals hafa rúmlega 5500 km2 verið kortlagðir í þessu átaki, þar af rúmlega 4000 km2 sumarið 2010. Þannig hefur um helmingur af flatarmáli íslenskra jökla verið kortlagður með leysimælingu en jöklarnir eru í heild um 11000 km2. Nýju landlíkönin auka gildi annarra mælinga vegna þess að þau er unnt að nota til samanburðar við allar aðrar mælingar, bæði fyrirliggjandi mæliniðurstöður og mælingar sem gerðar verða á næstu árum.

Eyjafjallajökull í ágúst 2010
Skyggð mynd af landlíkani af Eyjafjallajökli sem mælt var með leysimælingu í ágúst 2010. Sjá má gosstöðvar eldgossins í apríl 2010 í toppi fjallsins, hraunstraum til norðurs niður Gígjökul, gíg í suðurhlíð fjallsins sem gaus einungis hluta úr degi í upphafi gossins og farveg jökulhlaups þann 14. apríl af völdum þessa skammvinna goss niður suðurhlíð jökulsins. Einnig má sjá brotlínur á upptakasvæðum og straumlínur niður eftir farvegum eðjuhlaupa þann 19. maí 2010.

Kortlagningin er hluti af og í framhaldi af alþjóðaheimskautaárunum 2007 til 2009 (IPY). Mikilvægt er að jöklarnir verði kortlagðir með þessum hætti nú þegar hraðar breytingar eiga sér stað á jöklum landsins vegna hlýnandi veðurfars. Nákvæm landlíkön af jöklum nýtast til margs konar rannsókna og hafa auk þess mikla hagnýta þýðingu. Með endurteknum mælingum er unnt að reikna rúmmálsbreytingar og þar með framlag jöklanna til aukins afrennslis fallvatna og hækkunar sjávarborðs heimshafanna. Nákvæm kort eru nauðsynleg til þess að að meta rennslisleiðir vatns og vatnasvið á jöklum. Kortin eru mikilvæg til rannsókna á framhlaupum jökla og landlyftingu vegna minnkunar jöklanna og veita upplýsingar um eðli ísflæðis.

Landlíkönin hafa þegar verið tekin í notkun í margvíslegum verkefnum, m.a. við mat á rúmmálsbreytingum jökla síðustu 10-20 árin út frá eldri kortum, við túlkun á ýmsum gervihnattamælingum, við jarðfræðirannsóknir og við gerð sprungukorta af jöklum fyrir ferðamenn og aðra sem leið eiga um jökla.

Kortlagningin er fjármögnuð af Rannsóknasjóði RANNÍS, Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar, Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar, Umhverfis- og orkurannsóknasjóði Orkuveitu Reykjavíkur og Landmælingum Íslands, auk framlags frá Veðurstofu Íslands og umhverfisráðuneyti. Scott Polar Research Institute í Cambridge á Bretlandi og SPOT Image í Toulouse í Frakklandi hafa einnig komið að verkefninu.

Hoffellsjökull í ágúst 2010
Sporður Hoffellsjökuls í suðaustanverðum Vatnajökli. Stórt lón er að myndast við hopandi jökuljaðarinn.


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica