Fréttir
Frá Borgarnesi
Frá Borgarnesi. Við Brákarpoll 30. apríl 2011.

Tíðarfar í apríl 2011

Stutt yfirlit

2.5.2011

Mánuðurinn var mjög hlýr, einkum þó um landið austanvert þar sem hann var í hópi hlýjustu aprílmánaða allra tíma. Hann var sá hlýjasti frá upphafi mælinga á Dalatanga og næsthlýjastur á Teigarhorni en þar hefur verið mælt samfellt frá 1873. Á Akureyri var mánuðurinn í 2. til 3. sæti hvað hlýindi varðar en þar hefur verið mælt samfellt frá 1882. Illviðrasamt var í mánuðinum og mjög mikil úrkoma féll um landið sunnan- og vestanvert.

Hiti

Meðalhitinn í Reykjavík mældist 4,1 stig og er það 1,2 stigum ofan meðallags. Á Akureyri var meðalhiti mánaðarins 5,6 stig og er það 4 stigum ofan meðallags og var mánuðurinn jafnhlýr og aprílmánuður 2003. Aðeins einu sinni hefur meðalhiti í apríl verið hærri á Akureyri, það var 1974. Á Hveravöllum var meðalhitinn -1,1 stig og er mánuðurinn þar í sjötta sæti hvað hlýindi varðar. Meðahita á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 4,1 1,2 30 141
Stykkishólmur 3,9 2,2 14 166
Bolungarvík 3,2 2,5 4 114
Akureyri 5,6 4,0 2. til 3. 130
Egilsstaðir 5,8 4,0 2 57
Dalatangi 5,5 4,1 1 73
Teigarhorn 5,6 3,4 2 139
Höfn í Hornaf. 6,2 3,4
Stórhöfði 4,7 1,3 20 134
Hveravellir -1,1 2,3 6 46

Hæsti meðalhiti mánaðarins á sjálfvirkri stöð mældist í Neskaupstað, 6,4 stig, og 6,3 stig á Seyðisfirði. Lægstur var meðalhitinn á Þverfjalli, -2,7 stig. Á sjálfvirkri stöð í byggð var meðalhiti lægstur í Svartárkoti, 1,9 stig.

Hæsti hiti í mánuðinum mældist á mönnuðu stöðinni á Skjaldþingsstöðum þann 9., 20,2 stig. Hæsti hiti á sjálfvirkri stöð mældist sama dag á Seyðisfirði, 19,3 stig. Lægstur mældist hitinn í Veiðivatnahrauni þann 4., -15,7 stig. Í byggð mældist lægsti hitinn -9,1 stig á Þingvöllum hinn 4. Á skeytastöð varð hitinn lægstur sama dag á Staðarhóli í Aðaldal, -7,9 stig.

Úrkoma

Mánuðurinn var mjög úrkomusamur um landið sunnan- og vestanvert. Í Reykjavík mældist úrkoman 138,9 mm og er það meir en tvöföld meðalúrkoma í aprílmánuði (58,4 mm). Er þetta næstmesta úrkoma sem mælst hefur í apríl í Reykjavík, í apríl 1921 mældist úrkoman 149,9 mm. Aðeins einn þurr dagur var í mánuðinum og úrkoma mældist 1 mm eða meira 27 daga, 7 dögum fleiri heldur en mest hefur orðið áður í apríl (20 dagar 1958) og 15 dögum fleiri en í meðalapríl.

Á Akureyri var fremur þurrt, úrkoma mældist 14,6 mm og er það aðeins helmingur meðalúrkomu. Úrkoma hefur oft mælst minni í apríl á Akureyri. Síðast var það árið 2008. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 80% umfram meðallag. Nokkrum sinnum hefur úrkoma orðið meiri í Stykkishólmi í apríl, síðast 2007. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist úrkoma 60% umfram meðallag og hefur tvisvar orðið meiri í apríl, 2007 og 2009. Úrkoma mældist einu sinni meiri í kaupstaðnum þegar mælt var þar, það var í apríl 1883.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 114. Það er 26 stundum undir meðallagi og hafa sólskinsstundir ekki orðið jafnfáar í apríl í Reykjavík síðan 1997. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 150 og er það 21 stund umfram meðallag.

Vindhraði

Vindhraði var með mesta móti, 0,8 m/s yfir meðallagi í mánuðinum. Þetta er sjónarmun minna heldur en í apríl 1980 en nokkru minna heldur en í apríl 1953. Illviðri voru fleiri heldur en að jafnaði í apríl. Helstu illviðradagar voru 7. til 8., 10. 21., 23. til 24. og 28. Talsvert tjón varð í þessum veðrum víða um land. Veðrið þann 10. gekk m.a. yfir höfuðborgarsvæðið og Suðurnes með foktjóni og samgöngutruflunum.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 995,5 hPa og hefur aldrei mælst lægri í apríl í meir en 100 ár. Óvissa í eldri mælingum veldur því að ekki er hægt að kveða upp úr um það hvort fáein eldri gildi kunna að vera lítillega lægri, t.d. apríl 1844 og 1863.

Snjór

Óvenjusnjólétt var í mánuðinum. Alhvítir dagar voru 2 í Reykjavík, einum degi færri en að meðaltali. Á Akureyri var enginn alhvítur dagur og er það 11 dögum minna en að meðaltali. Jörð hefur nokkrum sinnum verið alauð allan aprílmánuð á Akureyri, síðast 2007.

Fyrstu fjórir mánuðir ársins 2011

Lengst af hefur verið hlýtt það sem af er ársins, hiti í Reykjavík 1,2 stig ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,1 stigi ofan meðallags áranna 2001 til 2010. Á Akureyri hafa fyrstu fjórir mánuðir ársins verið um 2 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 og 1,1, stigi ofan meðallags áranna 2001 til 2010. Ekkert lát er því á hlýindunum sem ríkt hafa á landinu síðustu 9 til 15 árin.

Úrkoman í Reykjavík fyrstu fjóra mánuði ársins er um 40% umfram meðallag og hefur ekki verið jafnmikil á þessum tíma árs síðan 1992. Úrkoma er um 13% yfir meðallagi á Akureyri.Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica