Fréttir
vindkælitafla
Vindkælingatafla með litakóða. Smellið og stækkið til að fá útskýringar.

Hætta á vindkælingu

6.1.2011

Spáð er hvassviðri í kvöld og horfur fyrir allt landið hljóma á þessa leið: Norðaustan og síðan norðan 15-23 með éljagangi, einkum norðan og austan til. Norðan 18-28 seint í kvöld og snjókoma um norðanvert landið. Frost 3 til 15 stig, kaldast inn til landsins.

Þegar saman fer saman hvassviðri og frost getur vindkæling orðið veruleg.

Gerð hefur verið tafla sem byggist á kanadískum rannsóknum á vindkælingu. Lesið er af töflunni með því að miða saman lofthitadálk og vindhraðalínu. Taflan er með litakóða sem sýnir hversu mikil áhrif vindkælingin hefur. Litakóðinn er útskýrður betur hér að neðan:

  • Lítil vindkæling: Lítil óþægindi vegna vindkælingar. Góður og þurr hlífðarklæðnaður nægir til að bægja óþægindum frá.
  • Nokkur vindkæling: Óþægindi vegna vindkælingar, lítil hætta á kali en þó er hætta á ofkælingu fyrir þá sem eru langtímum saman illa klæddir utandyra. Mikilvægt að klæðast hlýjum fatnaði með vind- og vatnsheldri flík yst. Húfa, vettlingar, trefill og auðvitað góður vatnsheldur skóbúnaður. Forðist hreyfingarleysi utandyra.
  • Mikil vindkæling: Veruleg óþægindi vegna vindkælingar. Óvarða húð getur kalið á 10 - 30 mínútum og hætta á ofkælingu fyrir þá sem eru illa klæddir utandyra. Mikilvægt að klæðast hlýjum fatnaði með vind- og vatnsheldri flík yst. Mikilvægt að húð sé ekki óvarin. Húfa, helst lambhúshetta sem hylur andlit, vettlingar, trefill og auðvitað góður, vel einangraður, vatnsheldur skóbúnaður. Forðist hreyfingarleysi utandyra.
  • Mjög mikil vindkæling: Óvarða húð getur kalið á 5 - 10 mínútum. Fylgist með doða og hvítum skellum á andliti og útlimum. Ofkæling hlýst af því að vera illa klæddur utandyra. Mikilvægt að klæðast hlýjum fatnaði með vind- og vatnsheldri flík yst. Hyljið bert skinn. Húfa, helst lambhúshetta sem hylur andlit, vettlingar, trefill, og auðvitað góður, vel einangraður, vatnsheldur skóbúnaður. Forðist hreyfingarleysi utandyra.
  • Hættuástand: Óvarða húð getur kalið á 2 - 5 mínútum. Mikil hætta á kali. Fylgist með doða og hvítum skellum á andliti og útlimum. Ofkæling hlýst af því að vera illa klæddur utandyra. Mikilvægt að klæðast hlýjum fatnaði með vind- og vatnsheldri flík yst. Hyljið bert skinn. Húfa, helst lambhúshetta sem hylur andlit, vettlingar, trefill og auðvitað góður, vel einangraður, vatnsheldur skóbúnaður. Forðist hreyfingarleysi utandyra. Verið reiðubúin að takmarka allar athafnir utandyra.

Þegar lesið er af töflunni, samkvæmt spáðum lofthita og vindhraða, kemur í ljós að vindkæling verður líklega nokkur og jafnvel mikil nú í kvöld.

Áþekk vindkælitafla, sett upp á nokkuð annan hátt, er kynnt í fróðleiksgrein hér á vefnum. Þar er einnig fjallað um áhrif mæði og vosbúðar.

Sjá einnig fróðleiksgreinar um veðurmet, svo sem mesta vindhraða, mesta frost o.fl.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica