Fréttir
glitský
Hjartalaga glitský á suðurhimni í Skagafirði í desember 2010.

Tíðarfar í desember 2010

stutt yfirlit

4.1.2011

Tíðarfarið í mánuðinum var um margt markvert. Hann var fremur hagstæður, einkum um sunnan- og vestanvert landið, og var með eindæmum sólríkt í Reykjavík. Snörp kuldaköst gerði í byrjun mánaðarins og aftur upp úr honum miðjum og stóðu í rúma viku. Þess á milli voru talsverð hlýindi. Úrkomudagar (þegar úrkoma mælist 0,1 mm eða meir) voru óvenju fáir.

Á Höfn í Hornafirði var úrkoma aðeins 5 daga sem er það minnsta frá upphafi mælinga þar. Meðalvindhraði var heldur minni en í meðalárferði. Á norðaustanverðu landinu snjóaði talsvert og var alhvítt á Akureyri 23 daga. Loftþrýstingur var óvenjulega hár þennan mánuð og hefur víða á landinu ekki mælst svo hár frá upphafi mælinga.

Hiti

Meðalhitinn í Reykjavík var 0,7 stig sem er 0,9 stigum yfir meðaltali áranna 1961-1990. Á Akureyri var meðalhitinn -0,7 stig sem er 1,2 stigum yfir meðallagi. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn -0,1 stig sem er 0,1 stigi undir meðallagi. Hita á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 0,7 0,9 51 140
Stykkishólmur 0,8 1,6 33 166
Bolungarvík 0,4 1,3 37 144
Akureyri -0,7 1,2 45 129
Egilsstaðir -2,8 -0,6 45 61
Dalatangi 0,9 0,3 43 72
Höfn í Hornaf. -0,3 -0,1
Stórhöfði 2,1 0,7 57 134
Hveravellir -5,5 0,8 28 46

Hæstur hiti mældist 17,3 stig hinn 9. á Kvískerjum, sjálfvirkri stöð. Hæsti hiti á mannaðri stöð var á Dalatanga, 13,7 stig, hinn 10. og er það níunda hæsta desembermet. Lægstur hiti mældist -28,6 stig þann 22. á Mývatni, sjálfvirkri stöð, og á mannaðri stöð -26,2 á Grímsstöðum hinn 23. Á Grímsstöðum er þetta þriðji lægsti hiti í desembermánuði frá upphafi mælinga. Lægstur var hitinn -29,2 þann 26. árið 1995 og næst lægstur, -26,5,  þann  22. árið 1981.

Úrkoma

Úrkoma í Reykjavík mældist 56,7 mm og er það tæplega 3/4 hlutar þess er venja er. Á Akureyri mældust 47,2 mm sem er 9/10 af því sem venja er. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 64,2 mm og er það aðeins helmingur þess sem venja er. Mældust 62,5 mm í þrjá daga, þann 26., 27. og 29.

Sólskinsstundir

Í Reykjavík mældist sólskin í 31,8 klukkustundir og er það 19,8 stundir umfram meðallag. Aldrei hefur mælst svo mikið sólskin í desember frá upphafi mælinga. Næst kemst desember 1976 með 30,2 klst. og desember 2009 með 29,2 klst. Á Akureyri mældist 1,5 klukkustund sem er 1,5 stund umfram meðallag.

Vindhraði og loftþrýstingur

Vindhraði var lítið eitt undir meðallagi á landinu í heild. Meðalloftþrýstingur var 1017,0 hPa og er það 16,0 hPa yfir meðallagi í Reykjavík. Aldrei hefur mælst svo hár þrýstingur í Reykjavík í desember frá upphafi mælinga en næst hæst eru 1014,7 hPa árið 2001. Á Akureyri var meðallofþrýstingur einnig sá mesti til þessa, 1016,8 hPa, en næst hæstur varð hann 1015,9 hPa árið 1996.

Snjór

Talsverður snjór var á Akureyri og var talið alhvítt 23 daga. Mesta snjódýptin mældist 46 cm hinn 22.  Ekki hafa verið fleiri dagar á Akureyri alhvítir síðan 1999 en þá var alhvítt allan mánuðinn. Meðalsnjódýptin á Akureyri í ár var 24 cm en hún var meiri í fyrra, 47 cm, og þá var jörð talin alhvít í 16 daga.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica